Ekki láta þurra og óspennandi plakatið/hulstrið blekkja þig, Little Children er FRÁBÆR mynd, næstum því meistaraverk! Hún er svo raunsæ, svo óaðlaðandi, svo lúmskt heillandi en samt svo grípandi að ég hefði ekki getað tekið augun af skjánum þótt það hefði komið jarðskjálfti. Hún er líka ein best leikna mynd sem ég hef séð frá árinu 2006 og sömuleiðis á meðal þeirra allra bestu. Það er heilmikið sagt þegar myndir eins og The Departed, Children of Men, United 93, Pan’s Labyrinth, Brick og The Last King of Scotland komu út á því sama ári.

Ég skildi aldrei af hverju allir elskuðu fyrri mynd Todds Field svona mikið, þ.e. In the Bedroom. Hún var góð en ekki jafn minnisstæð og ég hefði viljað. Little Children er það hiklaust! Fyrir utan það að vera frábærlega skrifað drama um þráir, dagdrauma og eftirsjár (svona svipað – en samt öðruvísi – og myndin Revolutionary Road, sem kom út stuttu síðar) þá skilur tónninn hvað mest eftir sig. Af útlitinu og sérstaklega sýnishornunum að dæma mætti auðveldlega halda að þessi mynd væri allsvakalega þung og niðurdrepandi. Hún er það alls ekki. Myndin er dramatísk, lágstemmd og meira að segja óþægileg á köflum en hún er líka stútfull af léttum atriðum og nokkrum fyndnum. Frásögnin styðst líka við furðulegan þul sem talar reglulega yfir myndina og er hann oftast sá sem leggur áherslu á svarta húmorinn. Það tekur reyndar smá tíma að venjast þessari rödd en hún setur skemmtilegan svip á myndina yfir heildina. Svona „voice over“ geta oft svindlað heilmikið með því að troða þvinguðum upplýsingum framan í áhorfandann á vondum tímum en í þessu tilfelli gerir það sögunni mjög góð skil.

Persónusköpunin er algjörlega í fyrirrúmi og hún er alveg einstaklega vönduð. Hver einasta persóna í forgrunni fær bæði næga athygli og nægan tíma til að þróast almennilega. Ég er sérstaklega hrifinn af því hversu lagskiptar persónurnar eru. Maður heldur eitt um þær og jafnvel dæmir þær skjótt, en síðan kemur kannski allt annað í ljós sem breytir áliti manns gjörsamlega. Hver einasti karakter er raunsær og ófyrirsjáanlegur, bara eins og alvöru fólk, og skilur hver og einn eitthvað eftir sig. Leikararnir gera síðan gott enn betra. Ég get ekki hrósað fólkinu nóg, og ég væri til í að fjalla um hvern fyrir sig, en það eru bara allir svo sjúklega góðir. Sá sem stendur samt hvað mest upp úr er auðvitað (fyrrum barnastjarnan) Jackie Earle Haley, sem fær alveg ótrúlegt comeback-hlutverk sem barnaperrinn „Ronnie“ McGorvey (þetta var auðvitað löngu áður en Watchmen var gerð). Það er með ólíkindum að fylgjast með þessu manni. Hann er svakalega trúverðugur, og eins ógeðfellt og það er að segja það, þá tekst honum að öðlast samúð manns á sumum stöðum. Field sér greinilega til þess að jafnvel hinar skuggalegustu sálir séu ekki gerðar að einhliða fígúrum.

Kvikmyndataka og tónlist skapa áhrifaríkt andrúmsloft. Rammarnir eru geysilega tómir oft, einfaldir og viljandi „leiðinlegir,“ sem undirstrikar líf persónanna. Tónlistin er heldur aldrei of þung eða of létt. Efnislega séð er Little Children nánast gallalaus. Sagan, sem spannar í gegnum líf mismunandi einstaklinga, er furðu einföld en hefur helling að segja varðandi ósjálfbjörgun, vonir, ábyrgð, hvatir og þráhyggju. Ég skal játa að myndin er cirka 10-15 mínútum of löng en ég tók samt varla eftir því og þegar leið að lokakafla myndarinnar var lengdin eitt af því síðasta sem ég pældi í. Það er aðallega upp úr miðju þar sem myndin dregst, þótt ég gæti ómögulega ímyndað mér hvar væri hægt að stytta hana.

Ef þú hefur áhuga á vönduðum og kraftmiklum dramamyndum sem grípur mann í raunsæi sínu og kemur miklu meira á óvart heldur en hefðbundnar „vælumyndir“ þá myndi ég kalla Little Children skylduáhorf! Ég sá þessa mynd fyrir u.þ.b. viku síðan og hef ekki getað hætt að hugsa um hana. Ef það segir ekki „ein besta mynd ársins 2006“ þá veit ég ekki hvað gerir það.

Og Kate Winslet er enn og aftur á brjóstunum! Eru það ekki alltaf góðar fréttir?

 

niu.png?w=300

 

Besta senan:
Stuð við sundlaug.

Sammála/ósammála?