The Three Stooges er ekki fyrir hvern sem er, þrátt fyrir að vera þessi „meinlausi“ farsi (um þrjá rugludalla sem eru óbeint þroskaheftir og meiða hvorn annan stöðugt) sem reynir að ná til eins margra og hún getur. Hún styðst nefnilega við afar sérkennilega tegund af húmor – sem er ekki bara sjaldgæf tegund heldur úrelt og rotnandi – og verður stundum svo barnaleg að maður þarf helst að hafa alist upp við Three Stooges, vera yngri en tólf ára eða með sorglega einfalda kímnigáfu til að finnast þetta ekki vera einhvers konar þjáning. Ég gæti svosem alveg haft húmor fyrir slapstick-ofnotkun, ódýru orðagríni og yfirdrifnum aulabröndurum ef fundin er leið til þess að láta þá ganga upp, en það er ekki alveg tilfellið hér. Hins vegar gerist það sjaldan að ég beri svona jákvæðar tilfinningar til myndar sem mér líkar varla við.

Það er skondið að segja það, en The Three Stooges er töluvert áhugaverðari bíómynd en ég gat nokkurn tímann ímyndað mér fyrirfram. Að vísu er metnaðurinn miklu áhugaverðari heldur en lokavaran. Það er allavega partur af mér sem algjörlega þolir hana ekki en síðan er önnur, umburðarlyndari hlið af mér sem hugsar að hér er í rauninni á ferð bíómynd sem gerir sér fullkomlega grein fyrir hvað það er sem hún vill vera: leikin teiknimynd, og tekst henni að vera nákvæmlega það. Farrelly-bræðurnir hafa ekki alltaf gert góðar grínmyndir (reyndar voða sjaldan) en þeir mega eiga það að oftar en ekki sýna þeir persónum sínum blússandi umhyggju. Með þessari mynd gera bræðurnir afar einlæga og elskulega tilraun til þess að endurskapa gamalt og sígilt fyrirbæri, sem augljóslega er þeim ótrúlega kært, og færa það yfir í nútímann án þess að skipta yfir í of nútímalegan tón eða uppfæra húmorinn (fyrir utan misheppnaða klósettbrandara og tilvísanir í „current“ popp-kúltúr).

Gömlu þættirnir og bíómyndirnar (það litla sem ég sá a.m.k.) fannst mér oft vera skemmtilegt gláp í æsku og finnst mér það jafnvel ennþá í dag hafa sinn sjarma en þessi bíómynd er ekkert nema böggandi hermikráka sem reynir alltof mikið að fanga þessa gömlu takta til að ná góðum árangri. Eftirherman er þó hér um bil fullkomin en handritið er engu að síður grunnt, þvingað og dregst efnið verulega á langinn með leiðinlegum, þreyttum og tættum söguþræði. Myndin er kannski ekki sálarlaus og er furðu athyglisvert hversu langt hún gengur til að virða hráefnið, en hún er voða sjaldan fyndin, sama hvað hún reynir og reynir. Teiknimyndahljóðin fara líka í mann eftir fyrstu 30 skiptin. Aðdáendur geta samt ekki kvartað því þetta er allt 100% í takt við upprunalega stílinn.

Mér leið reyndar líka eins og ég gæti allt eins verið að horfa á fjórfalt verri útgáfu af þessari sömu mynd, og það er eitthvað sem ég hefði eflaust fengið ef Farrelly-bræður væru ekki svona miklir Stooges-aðdáendur. Maður hefði þó hvatt þá til þess að leggja nostalgíuna aðeins til hliðar og prufa að setja meiri hnyttni og betra, fjölbreyttara innihald, sem væri reyndar að biðja um mjög mikið. Það er samt engin afsökun að hafa heilasellurnar á lægstu stillingu bara vegna þess að upprunalega efnið var þannig líka. Tímarnir hafa breyst, síðast þegar ég vissi.


(Sofia Vergara sýnir best í þessari mynd að hún á ekki að vera í hverju sem er)

Það eru pirrandi kaflar í myndinni og sumir alveg einstaklega glataðir en miðað við ódýra húmorinn er ég hissa yfir því að hafa ekki fengið kjánahroll miklu oftar, þannig að í rauninni má segja að þessi mynd kom mér þægilega á óvart, þótt ég muni aldrei geta mælt með henni. Þessi mynd hagar sér eins og smákrakki, en ekki eins og óviðráðanlegur smákrakki sem reynir á þolinmæði manns, og þess vegna er erfitt að pirrast of mikið út í hana. Bara svona svipuð tilfinning og þegar leikskólabarn krotar handa manni ljóta mynd. Það þýðir ekkert annað en að glotta kurteisislega, klappa þeim og hrósa þó maður viti að engin list sé í höndunum. Farrelly-bræður skelltu heilmikilli ást í þessa mynd, en þegar ég hugsa um hana þá fæ ég svona tilfinningu eins og þeir séu orðnir að ofvöxnum smábörnum, með kómískri ofbeldisþörf en hjarta úr gulli. Alveg eins og aðalpersónurnar.

Annars held ég að margir muni vanmeta það hversu fínt samspilið er á milli þremenninganna. Þeir Will Sasso (sem MadTV aðdáendur ættu að þekkja vel), Chris Diamantopoulos (sem Twenty-Four aðdáendur ættu að kannast við) og Sean Hayes (sem Will & Grace unnendur dýrka eflaust) missa sig alveg í hlutverkunum og herma allir gallalaust eftir forverum sínum. Ég get ekki ímyndað mér neina aðra fanga Three Stooges-andann svona vel, sama hversu pirrandi þeir geta verið líka, en það veltur vissulega bara allt á þínu áliti á þessum húmor. Það er það eina sem skiptir máli upp á væntingar að gera og hve gott ánægjugildið er. Eða sterkt áfengi.

Stroh 60 til dæmis.

Ég kemst samt ekki yfir það hversu langt er gengið með saklausa, afleiðingarlausa ofbeldið, og samkvæmt þessari mynd er það ekki nema býsna óþægilegt að fá dúndrandi vélsög á kollinn. Ekkert of alvarlegt samt. Ekki einu sinni sár. Bara nokkrir neistar og hausverkur.

PS. Larry David leikur úrilla nunnu, en það er ekki eins fyndið og það hljómar.

PPS. Ég er að vísu ánægður með það hve illa er farið með Jersey Shore liðið.

Besta senan:
Það er satt að segja engin „standout“ sena að mínu mati, heldur bara fullt af litlum bútum sem mátti hafa gaman af. Bara rétt svo.

2 svör við “The Three Stooges (2012)”

  1. Daníel Rósinkrans Avatar

Sammála/ósammála?