Í End of Watch eru hefðbundnu bíómyndareglurnar sjaldan fyrir hendi og semur hún sínar eigin í staðinn. Raunsæið þekur bæði stíl og innihald og myndar það kærkominn óútreiknanleika sem finnst ekki á hverju strái í þessum geira. Þess vegna er hægt að segja að þetta sé hin traustasta löggumynd handa þeim sem eru venjulega orðnir þreyttir á formúlu löggumynda. Sjálfur er ég þar meðaltalinn og mér gengur illa að muna hvenær ég sá seinast skothelt löggudrama sem hét ekki The Departed. Greinilega segir það mér að samkeppnin sé ekki mikil og það þýðir þá væntanlega að End of Watch sé með þeim betri sem sést hefur í mörg ár. Bara verst er að meðmælunum fylgir hins vegar nokkuð stórt „en…“
Myndin er borin uppi af einhverju besta brómantíska tvíeyki ársins 2012 (þar sem þeir Jake Gyllenhaal og Michael Peña eru í hörðum slagi við dúóið úr 21 Jump Street og Ted). Samspil aðalleikaranna er hátt í fullkomið og tíminn sem þeir fá er nægur til að fylla prýðilega upp í persónusköpunina. Þeir selja brómantíkina/vináttuna út og inn og kemst maður varla hjá því að njóta samverunnar með þeim þegar hún nýtur sín best. Ég ætla kannski ekki alveg að ganga svo langt með að segja að mér hafi þótt ákaflega vænt um strákanna (enda eru heldur ódýrar og klisjukenndar aðferðir notaðar til að herða á umhyggjunni – t.d. nýfætt barn/barn á leiðinni/ný kærasta eða eiginkona) en mér líkaði mátulega vel við þá. Fínn kostur sem skaðar alls ekki mynd sem spilast lítið út eins og bíómynd í hefðbundinni merkingu orðsins.

En… myndin sem leikararnir tveir halda á floti er bæði athyglisverð og pirrandi til áhorfs. Fyrrnefnda lýsingarorðið kemur hverdagsleikanum við en hið seinna sjálfum stílnum. Á góðri íslensku get ég ekki lýst þessu betur en „shaky cam overkill“ og reynt er svo mikið að sækjast eftir raunveruleikayfirbragði að leikstjórinn hefur ábyggilega fengið kviðslit. Vélin hristist eins og nagdýr skríði í brókunum á tökumanninum, en þetta er að sjálfsögðu viljandi gert því myndin vill sýna að hún sé alvöruþrungin með því að ganga alla leið, greinilega haldandi að áhorfandinn spenni rassinn af spenningi í kjölfarið. Síðan blandar hún saman hráum, hefðbundnum tökustíl og einkennilegri „found footage“ nálgun, sem hún græðir samt ósköp lítið á. Sniðug ákvörðun, jú, sem margt var hægt að gera með, en þessi stíll fjarar bara út á endanum og reynist heldur gagnslaus og þvingaður á pörtum. Frekar hefði David Ayer (sem framleiðir, leikstýrir og skrifar) átt að halda sig við hreinna en stílískt lúkk til að ljótustu senurnar fengju að njóta sín betur.
Tökustíllinn er reyndar bara brot af aðalvandamálinu og það sem togaði mest í mínar pirringstaugar var hversu óspennandi (og stundum hálf stefnulaus) atburðarásin er. Ég fann ekki fyrir neinu sem líktist alvöru söguþræði, „vondu karlarnir“ eru alveg týndir og fannst mér uppfyllingin aldrei vera annað en meðalgóð og sæmilega áhugaverð. Jake Gyllenhaal og Michael Peña redda því sem redda skal en sjokkgildi og grátur er það helsta sem Ayer sækist eftir. Hann kemst þangað hálfa leið en maður þarf að þola ansi langar períódur af litlu sem engu áður en markmiðið næst. Aukaleikarar eru síðan flestir góðir en burtséð frá því að skjóta upp kollinum annað slagið er varla nokkuð gert við þá. Það er hálfhneykslandi hversu útundan allir eru, sérstaklega David Harbour, ljóta Betty og túrbó-fýlupúkinn sem Channing Tatum laðaðist að í Magic Mike (þ.e. Cody Horn).
Ayer fær prik fyrir að viðhalda eftirtektarverðum áhuga á krimma/löggusögum í gegnum ferilinn en þó hann sýni yfirleitt klærnar finnst mér alltaf vanta eitthvað upp á hjá honum (Training Day er að vísu undantekningin – það er langur listi af hlutum sem angra mig við þá mynd!). End of Watch rúllar prýðilega í gegn en greip mig aldrei. Týpískt Ayer, má segja, en samt örugglega „besta“ myndin hans og þess virði að kíkja á ef kvöldið er rólegt.

Besta senan:
Skothríð. Hávær. Mjög.






Sammála/ósammála?