Ég elska þegar hægt er að nota orðið „öðruvísi“ þegar kemur að bíómyndum, og þegar Kill Bill: Vol. 2 er sett í tækið er maður dauðfeginn að innihaldið sé ekki meira af því sama og var í „fyrri“ myndinni. Tarantino elskar að leyfa sögunni að hoppa á milli bíógeira og hérna er hann kominn á heimavöll leikstjóra eins og Leone. Það jákvæða við seinni hlutann á Kill Bill-sögunni er að hann er miklu meira hlaðinn samtölum. Mörg þeirra eru athyglisverð en önnur ekki og það vonda er að vestrablætið gerir söguna ekkert endilega betri. Tarantino masteraði þessi Leone-einkenni mun betur fimm árum síðar, með Inglourious Basterds.

Ekki ein einasta samtalssena í Vol. 2 er leiðinleg en í sumum tilfellum langar mann til að öskra: „Haldið kjafti og áfram með söguna!“ Hápunktarnir eru nokkrir (t.d. martröðin í líkkistunni, Pai Mei-kaflinn, grimmi stelpuslagurinn í hjólhýsinu og standoff-ið eftir óléttuprófið) en oft er langt á milli þeirra og svo þegar myndin reynir að sýna að hún sé með hjarta, þá er því næstum því klúðrað með ósannfærandi frammistöðu hjá hinni kornungu Perlu Haney-Jardine. Atriðin þar sem stelpan steinþegir eru talsvert áhrifaríkari.

Tilraunirnar gengu upp í síðustu lotu – sennilega vegna þess að hún var hraðari – en hér er Tarantino bara endalaust að tefja lafþunna frásögn. Hann fer líka stundum aðeins of mikið að leika sér með hina skrítnustu hluti, t.d. handahófskennda og tilgangslausa “aspect ratio” breytingu, langdregna tónlistarkafla og tvöfaldan (??) kreditlista í lokin. Annar sýnir leikaranöfnin úr báðum helmingunum, en hinn bara úr þeim seinni. Til hvers? Það hef ég ekki hugmynd um. Leikstjórinn hefur greinilega ekki getað ákveðið sig um hvor kreditlistinn hafi verið flottari, svo hann notar bara báða – sem er frekar asnalegt og hégómafullt. Og á meðan við erum að ræða um skrítnar ákvarðanir hjá manninum, þá verður seint hægt að segja að textaskilaboðin í lokin hafi komið eitthvað fallega út. Áður fyrr vissi ég ekki að hægt væri að fá kjánahroll í Tarantino-mynd, en lokasenan kippti því víst í lag.

David Carradine er annars nokkuð góður sem titilkarakterinn þótt u.þ.b. 70% af hrósinu fari í röddina hans. Snargeðveika, óstöðuga sambandið á milli hans og The Bride er það sem bjargar seinni helmingnum alveg og þótt einræðurnar hans Bill verði stundum dálítið svæfandi er erfitt að ímynda sér einhvern annan í hlutverkinu. Ég held samt að Gordon Liu eigi stærsta leiksigurinn sem bardagaundrið Pai Mei, en þá bara ef Thurman er ekki talin með. Þetta er hennar mynd alla leið.

Annars var þetta þokkalegur óður til Leone og fínn en frekar tómlegur endir á sögu sem hefði átt að gefa manni aðeins sterkara högg á síðasta sprettinum. Formálin í byrjuninni var líka ofsalega lúðalegur, ef út í það er farið.

Það kemur stundum fyrir að snillingar fái tækifæri til að gera draumaverkefni sín, sem mikil ást er á bakvið, og það fer eitthvað úr böndunum sem gerir niðurstöðuna ekki alveg að því skylduáhorfi sem leikstjórinn vildi. Kill Bill er eins mikið “style over substance” og þriggja og hálfs tíma hefndarmyndir gerast. Það fagnar samt enginn kvikmyndagerð af gamla skólanum, skemmtilegum ruslmyndum og stíltengdum einkennum eins vel og Tarantino og með þessari yfirdrifnu bíóveislu er hann að sýna okkur hvers vegna við eigum að fíla kung fu-hasar, spagettívestra, exploitation-ræmur og allt þar á milli. Það er býsna magnað hvernig honum tókst að búa til brjálað mainstream-bíó úr þessum hráefnum.

Báðir Kill Bill-helmingarnir svínvirka saman, og vegna þess að þeir eru svo gerólíkir í stíl ganga þeir enn betur upp sem sitthvorar einingarnar þótt mælt sé með því að taka þetta í einni setu. Það er vel þess virði að kíkja á þessa mega-metnaðarfullu bíófantasíu með reglulegu millibili þótt heildin snerti hvergi tærnar á besta efninu frá Tarantino.

sex

Sammála/ósammála?