Eins mikið ljúfmenni og ég efa ekki að Paul Walker hafi verið, þá átti hann ekki alltaf sína fjölbreyttustu daga, og þær myndir sem voru góðar með honum voru það sjaldnast út af honum sérstaklega. Maður einhvern veginn tók honum eins og hann var og fannst mér hann óneitanlega fara batnandi eftir vissan punkt á ferlinum. En með þessari seinustu mynd sem hann kláraði tók hann því miður mörg skref afturábak, eins og hann hafi skyndilega hurfið aftur til áranna þar sem erfiðast var að taka hann fyllilega í sátt, og hefur satt að segja sjaldan sést í verri að mínu mati.
Brick Mansions er hraustri, franskri fyrirmynd til grátlegrar skammar… og stórfyndin er hún fyrir vikið, sumsé á öllum röngum stöðum. Það ótrúlega er samt hvernig Luc Besson, með umsjón yfir báðum handritum, tókst eiginlega sjálfum að búa til geldari, þurrari og umfram allt miklu amerískari endurgerð heldur en liggur við að hægt hefði verið að búa til í bandaríkjunum. Vissulega er ég hlutdrægari en jafnvel ef ég kæmi kaldur inn þá fengi ég samt mauklélega poppkornsmynd.
Ég get lofað því að allir sem sjá Brick Mansions á undan District B13 eru óbeint að skemma fyrir sér megaskemmtilegri spennumynd (gerð af sama leikstjóra og gerði seinna Taken 1, sem er ekki ógirnilegur díll). Það verður seinast talið upp að söguþráðurinn – hvar og hver sem hann var – eða handritið sem Besson kokkaði upp hafi verið það sem gerði hana góða, heldur fyrst og fremst brengluð keyrsla, mögnuð stönt, solid hasar, flott klipping, tónlist, og jú, mátulega harðir og hressir leikarar.
Að bera saman B13 við endurgerðina er eins og að bera saman… tja… segjum fyrstu Taken og lafandi framhaldið hennar (sem leikstjóri BM klippti!), því hér snúast allir kostirnir á hvolf. Sú fyrri var heimskulega gott hasarkikk en sú seinni gerði mann bara heimskari því lengur sem maður horfði á hana. Eins er það hér. Fyrir utan samt fáeina viðbætta aukahluti í Fast & Furious-dúrnum (óhjákvæmilega?) eru myndirnar afar svipaðar. Atburðarásin er sú sama, bara með fleiri leiðinlegum uppfyllingum. Annar aðalleikarinn er m.a.s. sá sami, sumsé David Belle, einn af frumkvöðlum parkour-‘hreyfingarinnar’, en sköllótta stökksnillingnum sem áður gekk við hlið hans hefur verið skipt út fyrir „Brian O‘Connor“… undir öðru nafni, og blessast það sama og ekkert.
Belle var ansi harður í gömlu myndinni, líka yngri og liprari. Hann hefur þó lukkulega litlu gleymt og sér ágætlega um helstu stökkin í Brick Shithouse Mansions á meðan Walker lætur minna bjóða sér upp á svoleiðis. Sem leikari er Belle að vísu vonlaus hér, bæði því hann endist ekki út einn ramma án þess að hljóma gervilega þegar hann talar ekki sína eigin tungu, og líka vegna þess að hann virkar viðbjóðslega döbbaður hálfa lengdina. Walker er eins flatur og hann var fyrir áratugi síðan og buddy-kemistría hans við Belle er átakanlega þvingað – andstæða við dúóið úr þeim frönsku – og er m.a.s. gefið þeim epískt fist-bömp skoti til að binda enda á allra slíkra mómenta. The R(iz)ZA er síðan alveg út úr kú, vandræðalegur, sorglegur og kvenpersónurnar hnoðaðar í hel að fetish-stereótýpum. Bjánalegur stelpuslagur þarna innifalinn.
Segjast verður þó að Besson tókst að rústa gamla handritinu með því að gera það aulalegra, teygðara, myndin er svo djók-vandræðaleg á köflum og í rauninni oftar en ég gæti talið. Hún stekkur alveg endalaust frá því að reyna að vera með píndan húmor fyrir sjálfri sér og breytast í meinfyndna hasarparódíu. Seinustu mínúturnar eru svo ógeðfellt hlægilegar að m.a.s. gæi eins og Walker átti betra skilið.
Franski leikstjórinn Camille Delamarre virðist beinkópera gömlu atriðin með einhverjum eigin töktum en ómögulega getur hann sett saman hasarsenum sem smella (tónlistin er heldur ekki að djúsa rétta taktinn í hana), og furðulegt en ekki óskiljanlegt er það miðað við fyrri störf hans sem klippari. Hann sprengir líka alveg kvarðann á því sem myndi teljast ásættanleg notkun á sló-mói. Það er ekki nóg að segja að þetta sé heiftarlega, brandaralega ofaukið heldur tekur þetta allt adrenalínflug út úr parkour-geðveikinni þegar þriðja hvert skot hægir á sér til þess að þú tapir þér yfir kúlinu.
En já… eða nei, Stórt nei. Brick Mansions er meistaralega gagnslaust og illa gert afrit, sem verður meira pirrandi og púðurslaust sökum þess hvernig sumir upprunalegu aðstandendurnir eiga alstærsta þáttinn í klúðrinu. Nóg er á seiði vissulega en púlsinn slær aldrei. Ljóta orðspor þessara myndar má alls ekki dreifa allri athygli burt frá hinu miklu betra frumeintaki ásamt fantagóðu framhaldi. Vonandi verður bara ekki eins vandræðalegt að kveðja Paul, það sem séð verður af honum, í Furious 7.

(ath. Hækka má svosem einkunnina upp í fjarka ef viðkomandi hefur ekki séð B13 – en myndi það skipta nokkru?)
Besta senan:
Öh… örugglega einhverjir samanlagðir rammar af Belle að leika listir sínar. Telst varla gilt þó.






Sammála/ósammála?