Listsköpun hefur ítrekað farið mörgum vel sem eru sárþjáðir í sálinni, og það er sjaldan slæm hugmynd að fá slíkan einstakling til að fótfesta sig í kvikmyndagerð – ef þeir kunna eitthvað þ.e.a.s., nema ef umræðan er komin út í ógeðfellda framkomu við leikara og aðra kollega. Danska umdeilda furðudýrið hann Lars von Trier er akkúrat einn lygilega dapur pakki af manni með öllu; þunglyndur níhilískur dólgur, hvass ögrari; drekkhlaðinn fóbíum, hroka, óþægilegum húmor, samskiptaörðugleikum og oftar en ekki er hann einmitt – viti menn – algjört kvikindi við fólkið sem hann vinnur með. Meira að segja fólki sem hann lítur upp til.
En Lassi lætur sjálfsagt aldrei kurteisi eða tillit til annarra koma í veg fyrir einbeitingu sína og vilja til að setja sinn persónulega stimpil á allt sem hann gerir; þess vegna veit maður alltaf hvenær maður er staddur í Lars von Trier-mynd. Það getur stöku sinnum reynst vera óvæntur rússíbani en yfirleitt einfaldlega bugandi. Sama hversu grípandi þemun og rammarnir eru stundum.
Þá munar um ýmist að fá svona ágæta tilbreytingu. Heimildarmynd frá Lars er þó eitthvað hressilegra virðist vera og segjast verður að The Five Obstructions er með athyglisverðari verkum Danans. Þetta er vægast sagt forvitnileg tilraun þar sem Lars mætir einu átrúnaðargoði sínu, danska leikstjóranum Jørgen Leth og tekur hann í einhvers konar ruglaða, sannarlega Trier-lega þerapíu og biður hann um að endurgera gamla stuttmynd frá sér (nefnist Det Perfekte Mannesker), en endurgera hana fimm sinnum með nýjar leiðbeiningar eða „hindranir“ í hvert sinn. Fyrirsjáanlega gerist Lars mjög svo prakkaralegur og virðist vera að sækjast eftir að gefa Leth ákveðið kaþarsis með þessum prósess og oft mjög spaugilegum hindrunum.
Leth er t.a.m. látinn skjóta myndina í einu tilfellinu með engum settum (og hvert skot má ekki vera lengra en 12 rammar max!), í öðru á vesælasta stað veraldar, því þriðja fær hann fullkomið frelsi (sem, frá mínum enda, er sú best heppnaða). Ein stærsta hindrunin fyrir Leth er síðan þegar Lars biður hann um að gera þetta að teiknimynd, eitthvað sem báðir leikstjórarnir hafa greinilega óbeit á. Lokaáskorunin er fjandi merkileg og reynir að súmma myndina upp í nokkuð bitastæða litla heild þar sem Lassi verður stíft berskjaldaður og hreinskilinn. Dirfist maður að segja einlægur?
Gaman er líka að sjá hvernig skilaboðin og þemu þessarar upprunalegu stuttmyndar breytist ítrekað með hverri nýju úrvinnslu. Ég skal þó viðurkenna þó að myndefnið verður oft einhæft og ekkert sérstaklega spennandi þegar við erum ekki að horfa á stuttmyndirnar eða sjá gæjanna ræða um þær. Ekki það að sú uppskrift þurfi að vera fráhrindandi. Allt veltur vissulega á umræðunum og það er óneitanlega eitthvað kvikindislega skondið við það að fylgjast með Leth bugast meira og meira með hverju þrepinu.
Óháð áliti viðkomandi á Lars von Trier ætti úrvinnslan hérna eitthvað að ná að hressa við. Grunnhugmyndin á bakvið þessa mynd er algerlega frábær, framkvæmdin stórfín. Annars gott heimanám eða val fyrir alla sem hafa rjúkandi áhuga á kvikmyndagerðinni sjálfri.







Sammála/ósammála?