Scream VI tekur skrefið sem löngu var orðið þarft með að gera eitthvað sem telst til nýjunga með þessa seríu, þá auðvitað burtséð frá þessu stærsta sem blasir við; eins og að flytja sögusviðið til New York-borgar eða með ákvörðunina að skipta bara sísvona yfir í rómverska tölu í sjálfum titlinum.
Þessi er allavega grimmari, hugmyndaríkari og óumdeilanlega ferskari í nálgun sinni heldur en forveri sinn, ‘Scream’ frá 2022, enda var hún álíka ánægjuleg og jafn mátulega frumleg og titillinn sem hún bar. Mætti eiginlega lýsa heildarnálgun þeirrar myndar sem nokkurs konar ‘The Force Awakens’ Scream myndanna.
En fyrst nú að búið er að kynna nýjar lykilpersónur til að taka við keflum hægt og bítandi, er í það minnsta búið að skrapa helsta nostalgíurúnkið sem til þurfti svo að hægt væri að ‘heiðra’ minningu og legasíu myndabálksins frá Wes Craven áður en rakleiðis yrði stokkað upp í steikinni. Þar kemur Scream VI mátulega sterk inn, upp að ásættanlegra marki og stendur gæðalega séð ofar (segjum) þriðju og fimmtu myndinni, en óumdeilanlega með óvæntari innslögum myndabálksins frá því fyrsta myndin var og hét (þó svo að sú fimmta hafi stolið frá henni nafninu).
Scream VI er ekki laus við að sýna merki um einhverja sál og umhyggju fyrir persónunum á skjánum, svona þegar búið er að skófla burt svona þrjár skeiðar af fullum ‘meta’ rjóma, en þar fylgir dökki húmorinn líka fast á eftir.
Svo má vissulega ekki gleyma hvað þessi myndabálkur er alltaf gæddum stórum tanki af spriklandi rauðsíldum í sögunni. Uppljóstrun ‘ráðgátunnar’ er þó sérlega fyrirsjáanleg í þessari lotu, ekki síst út frá því hversu grimmilega reynt er með handritinu (og minna áhorfandann á það) að *snúa út úr væntingum* – sem á þessum tímapunkti í seríunni er orðið að sinni eigin klisju, mætti segja.

Allt sem gerist í narratífunni eftir að stóru svörin skýrast er hrein og tær BRENGLUN, eins og finna megi fyrir að handritsteymið leyfi sér að ‘svindla’ en fara allt annað en lúmskt að því (og skapa sturlað stórar holur í plottinu sem afleiðing þess). Fer þarna framvindan og klæmaxinn að innsigla það nánast fyrir fullt og allt hvað Scream VI er mikil teiknimynd á tíðum – en það má! Þetta ásamt því að breyta sögusviðinu sem lengst frá Woodsboro (líkt og Scream 3 gerði) sýnir líka allt saman hvað þessi sería þarf mikla orkusprautu í nýjungum og fleiri bragðtegundir til að vera akkúrat þessi færibandsæla sem svo heilmikið er gert grín að.
Leikstjóratvíeykið (Matt Bettinelli-Olpin og Tyler Gillett) á bak við ‘Scream (2022)’ og hina þrususkemmtilegu Ready or Not, hafa ágætis tök á takti og rennslinu, fjörugum stílíseringum og keyrslu á adrenalíni sem svínvirkar. Á móti hafa þó báðar Scream-myndir þessa teymis verið einkennilega flatar í ‘hrollvekju-deildinni’ eða sálrænum óþæginda-faktor, þó afþreyingargildið sleppi alveg. Þetta var samt einmitt lykillinn sem gekk upp í betri Scream-myndum Wes Craven; þessi samsuða á svörtum húmor, trúverðugum óhugnaði, þekktum formúlum og ekki síst sálfræðilega þættinum.

Til að gera lengri súmmeringu styttri er Scream VI prýðilegasta ‘requel-endurgerð’ á Scream 2, bara ýktari og ekki með þennan über-nostalgíusegul sem fimmta myndin hafði. Ágætt þarf ekki alltaf að vera best en dugar meira en fínt sem prýðilegt. Ofpökkun alls konar hressilegra ‘páskaeggja’ ætti líka að bæta á gamanið og áhorfendur sem og lengra komnir hryllingsnördar geta gramsað og komið auga á hinn óvæntasta og fyndnasta fjanda, í fjöldasenum sérstaklega. Á meðal minna uppáhalds eru vísanir í Midsommar og (af öllum) Ready or Not.
Hvað leikhópinn varðar, fá allflestir (fastagestir og nýliðar) eitthvað tækifæri til að láta sjó sitt skína, en allra helst þær Melissa Berrera, Jenna Ortega og Courteney Cox, jafnvel Dermot Mulroney). Hið mest brillerandi leikaraval kemur þó í formi yndislegrar fígúru, karlmann sem býr í næsta húsi sem í sögunni hlýtur viðurnefnið ‘Cute Boy’. Algjör endemis senuþjófur. Samara Weaving fær líka sinn skjátíma nýttan glæsilega. Kann líka aldeilis sú leikkona að öskra í geiramyndum.
En eins og segja má á góðri ensku: ‘Wes is more’.

Besta senan:
Lestin.






Sammála/ósammála?