Hvílíka endemis útrásarsúpan! Almennt séð er þetta eins og að taka ósköp hefðbundna fæðu en laga hana á þannig vegu eins og heil orgía af nýjum og spennandi tilfinningum fylgi bragðinu. Vissulega ekki allra, en um að gera að smakka.

Best er að byrja á því að blanda saman hráefnum. Æskilegt er að nota retró-blandara og þá má byrja að saxa og hræra að vild þessa eftirtalinna bíótitla: (og dragið andann djúpt…) Singin’ in the Rain, Hail Caesar, The Fablemans, Once Upon a Time in Hollywood, Boogie Nights, Casino, The Wolf of Wall Street, The Great Gatsby, La La Land, smá dass af verkum Rubens Östlund og að lokum þrjár tunnur af kókaíni og… Bingó!

Svona er fokking Babylon.

Það er svo margt við þessa ræmu sem virðist lykta af þversögnum sem óskiljanlega ganga upp. Það sem í fyrstu reynist vera enn eina langdregna ‘Óskarsbeitan’ um hæðir og lægðirnar í Hollywood, en fljótlega má kynnast því að glamúrinn og groddaraskapurinn gerir myndina meira að kommenteríu á Óskarsbeitumyndir. Babyllon er greinilega hönnuð til að vera eins konar master-epík ferilsins (e. Magnum opus) leikstjórans og handritshöfundarins Damien Chazelle. Þetta er hvasst og jafnvel hatursfullt ástarbréf leikstjórans til þróunarsögu kvikmynda, yfirlýsing um yfirborðskenndu tómlegheit, töfra og martraðir skemmtiiðnaðarins, skemmtikraftana sjálfa, stöðugildi samfélags og (segjum) ævintýralega ferlið sem kvikmyndagerð getur verið; Allt ofantalið stappast svo í kringum ljúfsára ástar- og lítilmagnasögu.

Segja má að Margot Robbie sé annaðhvort gædd yfirnáttúrulegri heppni eða eigi að sér einhvern besta umba bransans. Hvort sem á við, þá sannast það trekk í trekk með hlutverkavali hennar hversu fjölhæf og rafmögnuð hún getur verið í rullum sínum. Þess vegna gæti það talist til stórra orða að Robbie hefur sjaldan (hingað til) verið betri á skjánum. Kannski er hægt að færa rök fyrir því sama hvað Brad Pitt varðar og hinn endalaust sjarmerandi Diego Calva er fengur mikill í hlutverki sem súmmast upp sem hjarta sögunnar. Svo þýðir lítið að setja út á þennan sarp leikara í bitastæðum aukahlutverkum (Tobey Maguire er þar á meðal og reynist undarlega passlegur sem líflegt ógeð af manni).

Í þessari sögu – sem listilega blandar saman staðreyndum og skáldskap, fáum við að sjá hvernig stjörnurnar sem birtast okkur á hvíta tjaldinu eiga oftar en ekki að baki blóð, svita og tár – brostna drauma og ótrúlega heppni.

Veislan er tilkomumikil en metnaður og dirfska af þessari stærðargráðu er ekki laus undan hnökrum. Það telst líka oftast til kraftaverks þegar rúmlega þriggja klukkustunda kvikmynd dregst ekki eitthvað á langinn, eða kalli ekki eftir því að áhorfandinn finni fyrir lengdinni. Það er raunin hér í seinni helming (en kannski óhjákvæmilegt þar sem fyrsti klukkutíminn er gjörsamlega GALIN snilld). Á móti hefur Babylon samt þennan ‘hangs-mynda’ fíling sem venst betur og betur eftir því sem áhorfum fjölgar. Deila má síðan um það hvort eftirmálinn hitti í mark eða sé fjórum skrefum frá því að vera aaaaðeins of ‘framan-í-andlitinu-á-þér’ rúnk á legasíu og tækniþróanir kvikmynda (tvær tilvísanir í James Cameron fylgja þarna með til að innsigla egóið hans, trúlega).

Að öðru leyti er ljóst að útlit, sviðsmyndir, myndatakan og TÓNLISTIN eftir Justin Hurwitz vefur þessa orkusprengju saman í eitthvað dásamlega pönkað eða ‘nýstárlega-gamaldags’ og því verður ekki neitað hversu margar senur standa upp úr minninu löngu eftir að kreditlistinn loksins rúllar.

Annars vona ég innilega að sé í lagi með Chazelle. Hann gæti þurft á faðmlagi að halda.

Fokking Babylon, mar!

Besta senan:
„Hljóð á setti!“

Sammála/ósammála?