Heimsins frægustu Ítalir (en frá… Japan) í popp- og leikjakúltur með heimsins frægustu mottur (á eftir Tom Selleck, kannski?) í einhverjum þekktasta steiktasta sveppaheimi sem barnvænt brand-ævintýri getur kokkað upp. Undirritaður getur ómögulega ímyndað sér fjöldan allan af klukkutímum og endurtekningum sem fóru t.d. í upprunalega Super Mario Bros (ásamt “númer tvö” og SMB3) á NES, GameBoy að ógleymdum Mario á ‘64. Játa mig líka sekan fyrir makalaust mikið af tíma vörðum í Wario-leiki, MarioKart-leiki og með einstaklega veikan blett fyrir öllu sem heitir Mario Party.
Allavega… Það að nokkrum handritshöfundi (Matthew Fogel í þessu tilfelli) hafi með nokkru móti tekist að strengja saman beinskeytta, hnitmiðaða og lógíska (innan eigin reglna) narratífu í kringum þessa múltí-titlasúpu sem leikirnir hafa spannað frá NES-dögunum er afrek út af fyrir sig. Það er líka ástæða fyrir því að Nintendo-samsteypan þorði síður að vaða áður í bíó-Maríó af viti eftir að samnefnda katastrófan frá 1993 fór algjörlega sína eigin leið (og fátt er það sem segir Super Mario Bros eins og stökkbreyttar risaeðlur og tónn sem minnir á Blade Runner fyrir krakka). Svo slæmur var skaði leiknu myndarinnar að lengi væri einfaldlega talið trú um að handrit eða úrvinnslu væri martröð að leysa. Þetta gekk með naumindum upp í styttri innslögum í ‘90s teiknimyndaþáttum
Seint hefði ég einmitt búist við að Illumination, af öllum teiknistúdíóunum, myndi malla svona vel saman við þetta tröllabrand frá Nintendo. Illumination eru – ef ekkert annað – expertar í manísku skrípói og það sem keyrir upp afþreyingargildið og aðskilur ræmuna frá því að vera miskunarlaus páskaeggjaveisla og nostalgíufóður er akkúrat þessi krúttlega sál sem hún hefur, það að myndin sé yfirhöfuð um hluti eins og vináttu, bræðralag, traust og sleppir óþörfum rómans, eða í verra fallinu væru persónurnar algjörar ílandi skoppfígúrur með tímaskekkju-stereótýpuhreim, eða ennþá verra; komið út í líkingu við Emoji-myndina afbrigðilegu; þeirri fratleiðinlegu og fljótt úreltu söluvöru.
En samt sem áður, að allri tilgerð um raunverulegt ef ekki umdeilanlegt listagildi þessarar Maríómyndar, gengur hún einfaldlega upp vegna þess að hún er þægilega brött, mátulega viðburðarík, morandi svoleiðis í bröndurum og leynidjókum (auk þess hversu öflugt múv það er hvernig síendurtekna þráhyggja Bowsers á prinsessunni Peach er tækluð hérna) og furðuvel tekst til með að bomba út hressilega sjálfmeðvitaðri og sjálfsögðu eiturhressri Maríómynd – og það hversu mikinn húmor hún hefur fyrir sér en á sama tíma virkar hún eins og sé gerð af fólki sem var gífurlega annt um brandið, heiminn og nostalgíumixið er nákvæmlega lykillinn. Farsinn dansar allur saman einhvern veginn í þunnildunum, þrátt fyrir allt.

Það er heldur ekki ólógískt að geta til þess að einhverjir utan kjarnamarkhópsins sem aldrei hafa séð né spilað neitt af óteljandi Maríó-leikjunum, gætu vel dottið inn í hana, ef ekki bara út af því hversu trippaður og sveppaður þessi heimur er. Myndin er svo bjánalega ofureinföld en samt svo sólid grínævintýri. Ég hef allavega séð miklu verri afrakstur og útkomu þess hvað gerist að horfa á Ítali trippa á alls konar sveppum og telja sig ósigrandi. Þar að auki kemur út eins og allur ferillinn hjá Seth Rogen hafi leitt okkur að því og undirbúinn hann fyrir það að bera hinn fullkomna hlátur fyrir Donkey Kong karakterinn.
Tónlistin er almennt æði og púkalega spilar á kunnuglega strengi af bestu list. Furðar reyndar að myndin styðjist við notkun slagara sem eru orðnir að klisjum út af fyrir sig. Förum yfir dæmi; kunnuglegir Carmen-tónar yfir magnandi farsa, Holding Out for a Hero e. Bonnie Tyler yfir montage’i eða vissulega hetjudáðum, ‘Kill Bill’ þemað svonefnda í farsaslagsmálum, Mr. Blue Sky yfir einhverju peppandi, og hægt væri að telja áfram allan trakk-listann… Þó kemur það á óvart að slagararnir svínvirka flestir við senurnar sem tilheyra, þrátt fyrir markaðstestaða klisjuvalið á lögunum. En ef klisjum er ekki tekið fljótt fagnandi, er lítið svo sem við þetta partí að gera þegar galdurinn felst í hönnun, fígúrunum, fílingnum og lúkkinu.

The Super Mario Bros. Movie virðist vita nákvæmlega hvernig mynd hún er, handa hverjum (öllum og ömmum þeirra í raun, en mest megnis krökkum) og mokar auka bónusstigin fyrir að vera (djóklaust) framúrskarandi skemmtileg tölvuleikjamynd. Trúlega er þetta þá með betur lukkaðri aðlögunum ef ekki í öðru sæti á eftir The Last of Us (?). Gildi þessara bónusstiga fylgir þó vissulega það smáatriði að framboð slíkra kvikmynda er enn ungt og sögulega aumt. Í bili. En ofar öllu, sem krakkamynd er þetta litaflipp alveg sín eigin hoppandi, hrópandi og húrrandi negla. Njótum þess nú á meðan blærir er ferskur, áður en við verðum gegnsósa eftir áratug af skrilljónum tölvuleikjamyndum og pottþétt sjö Maríómyndum, að minnsta kosti.

Æ, já… áður en gleymist, þessi fjandans, yndislega dúllega gersemi skrattans sem er Lumalee. Þessi melankólíska fígúra stelur ekki beinlínis senunni heldur meira brennimerkir heilu myndina sér með því að skuldlaust eigna sér þriðja act’inn. Og í íslensku talsetningunni hljómar þetta eins og góðkunni mjólkurdropinn Dreitill, en þá bara ef einhver hefði stórlega öppað níhilismann í honum. Meira af þessum karakter í næstu lotu, takk.
Besta senan:

„There’s no sunshine. Only darkness“






Sammála/ósammála?