Djöfulsins endemis gubb. Reyndar er Sound of Freedom ’næstum því’ áhugavert og almennilega umræðuvert gubb, en þegar öllu er hvolft á botninn bara enn einn úrgangurinn sem færi undir öllum öðrum kringumstæðum beint á streymi án nokkurra láta. Hún gæti jafnvel átt ágætis líf framundan sem týpískt ‘vondabíó’ og væri það málstaður til að styðja ef afraksturinn væri ekki svona ógeðslega mikill rembingur. Mökk leiðinleg líka, sem er verra brotið. Allt sem heitir innsýn, dýpt eða á að heita grípandi hefur í það minnsta kosti verið numið á brott. Þýðir þá ekki annað en að spyrja sig – í ljósi óvæntu velgengninnar, ‘hæpsins’ og fanatísku klappstýranna – ‘var þetta þá allt og sumt?’ 

Það er eins og gleymst hafi að gera trúverðuga og spennandi bíómynd úr þessari bíómynd. Hráefnin ættu tæknilega séð öll að vera til staðar en krukkast þau og týnast flest í algjörri súpu af gildishlaðinni og afstöðulausri (jú jú, segjum það) rúnkmynd, sérstaklega kokkuð upp handa áhorfendum sem gera litlar kröfur um innihald þess sem prýðir sjónvarpsskjáinn. Sound of Freedom virðist ekkert kunna neitt annað lingó en að góla öllu út með lágstemmdri stemningu á pari við skriðdrekaárás í barnaafmæli.   

Þó umfjöllunarefnið ku vera brýnt er það ekki sjálfgefið að það sé undantekningalaust tæklað með góðum skilum. Ég kaupi það að tilgangur myndarinnar sé af góðum ásetningi, sem væri þá að vekja fólk til meiri vitundar á þeim hremmingum og óbjóðshringum sem víða finnast, en það breytir ekki yfir- og undirtónum verksins eða þeirra sem að myndinni komu, Myndin fjallar heldur ekkert um barnaníð eða mansal af neinu uppljóstrandi viti, heldur aðallega um það hvað Tim Ballard er mikill yfirnáttúrulegur ‘nagli.’

Burtséð frá umræðunni og raunheimatengingu þessarar myndar er þetta bara flatt predikunardrama á eigin spýtum; hvergi hugað að propper þemun né karaktersköpun eða núans þegar um svona mikið grátt svæði er að ræða. T.a.m. dæmi er einn af ‘hetjum’ myndarinnar miðaldra karlpungur sem ‘óvart’ svaf hjá 14 ára stúlku haldandi að hún væri 25 ára… og þessu er veifað burt eins og mistök sem koma fyrir bestu menn. Þegar fjallað er um svona mál finnst mér það ekki duga til þegar hluti af skilaboðum myndar er að standa stóískt, öskra og benda: “Sjáið hvað þetta ástand er slæmt!! Hugsar enginn um BÖRNIN?!”

Í þessu samhengi skilur myndin mjög lítið eftir sig og tel ég persónulega betra hefði verið hægt að útfæra þetta sem heimildarmynd; ekki einhverri tilgerðarlegri trúar-Rambó þvælu.

Hvað með jákvæða punkta sem snerta ekki inn á tæknivinnslu sem bendir til þess að aðstandendur kunnu á græjurnar sínar. Leikurinn var ekki alslæmur allavega trekk í trekk. Fannst að vísu Mira Sorvino standa sig ágætlega sem sett skraut. Jim Caviezel virðist eitthvað vera að leika þarna líka, en þetta eru tómir, bottalegir, stóískir svipir með engu nema tómarúmi á bak við augun, sem speglar líka kannski það hvað Ballard er heppilega ritaður upp sem algjör vanilluklessa af flekkleysi, lausnamiðun og réttlætisvísi sínum. Í því liggur samt djókurinn, þá óviljandi að hálfu aðstandenda myndar, sem virðast ekki hafa áttað sig á að þeim tókst að gera Team America mynd án húmors, satíru eða strengjabrúða jafnvel, ef ekki þá álíka pínlegur predikunar-sjálfslofsöngur og finnst gjarnan í myndum frá ‘meistaranum’ Neil Breen. 

Sound of Freedom mætti alveg líkja við Breen-mynd hvað boðskaps- eða tilfinningadýpt varðar, nema þessi var augljóslega gerð fyrir meira fjármagn og af fólki sem kann lágmarksgrunn í bíóframleiðslu. Leitt þó að hún skuli ekki vera eins reglulega hlægileg og Breen-myndirnar. Þó aldeilis á tíðum er framvindan nú heilögum farsa líkust, matreitt aðallega til fólks sem vill frekar fókusa á vandann, í þessu tilfelli öfgafókus myndarinnar gagnvart því að sýna illa innrætti mannræningja eða gerenda án þess að leggja nokkurn tímann áherslu á það sem blasir beint við; tilfinningar og eða sálfræðiskaða barnanna. Reyndar væri sennilega hægt að kreista eitthvað betra drama úr atburðaráasinni ef krakkaleikarar myndarinnar bæru sig ekki trekk í trekk eins og þeir séu að bíða eftir leikstjórn á milli uppstillinga. Börnin eru jafn miklir bottar og Ballard er sýndur vera, nema Caviezel fær línur. 

Ekki er þó verið að spila mikið með ríkt myndmál sem ristir dýpra en að rauður litur tákni illsku og að ljósaglampi tákni von eða nærveru almættis, eða jafnvel erkitýpur með persónunum. Eftir stendur rándýrt skólaleikrit og ekkert annað og ef framleiðendum myndar væri jafn annt um meinta málstað sinn gagnvart því að uppræta þessa vændis- og glæpahringa, þá hefði trúlega ítarlegri heimildarmyndanálgun betur dugað. Að vísu er langsótt að búast við því á þessu stigi að Ballard sé einu sinni fær um að vera túlkaður sem annað en einhliða hvítur riddari sem vísar reglugerðum á bug eftir hentisemi og gerir allt sem til þarf til að stoppa ‘illskuna’ sem hér um ræðir. 

Það væri heldur óskandi að frasinn “Börn Guðs eru ekki til sölu” væri meintur í hæðnisgríni, en myndin er svo viðbjóðslega grafalvarleg (alveg kómískt svo…) að hún gæti allt eins talist til furðugjörnings, taktlausrar messuferðar og grunnkennslu í Könum að fókusa á það að vera flottustu Kanarnir sem fylgja vegum Guðs. Mætti mögulega færa rök fyrir því að handritið hafði þarna fínt tækifæri til að mjólka út einhverju (bara EINHVERJU) sem myndi gefa sálfræðidramanu eitthvað vægi. Slíkt er hvergi, því öllu þarf að víkja fyrir glamúr og háfleygum díalog sem er skrifaður til að rage-beita áhorfandann og gæta þess að allt sé stafað beint út. Ef málefnið er mikilvægt, þá HLÝTUR bíómyndin að fá frípassa og komast upp með það að bera sig sem súper-mikilvæga, ekki rétt?

Það er svo galið hvað klappstýrur þessarar kvikmyndar eru að drekka sterkt Kool-Aid. Þetta virðist einmitt meira snúast um ‘málstaðinn’ frekar en eitthvað annað. Englagljáinn sem skolast yfir Ballard/Caviezel hverju sinni gerir rjómalöguðu fegrunina hjá (segjum) American Sniper eða m.a.s. viðbjóði eins og Act of Valor hreinlega lágstemmda sem ósýnilega í samanburði. Gott bíó og djúsí frásögn, hvort sem hún sækir í raunhæfar staðreyndir eður ei, á að geta haft aflið til að spyrja alls konar spurningar, kryfja og imprinta eitthvað eftir sig, veltandi á settu markmiði. Sound of Freedom gerði undirritaðan forvitinn um hennar umfjöllunarefni og hefði því verið ágætt ef ræman hefði eitthvað af viti gert við það. Helst þá eitthvað annað en að kafna í eigin ególykt og þefi af peningaplokki. 

Markaðssetning og stuðningshópar myndarinnar eiga alls ekki að hafa áhrif á gæði hennar, en þegar fólk úr víðum áttum hefur undirstrikað fratleiðinlegt og innantómt prump eins og Sound of Freedom sem ‘mikilvægt verk’ gæti verið þörf á óþægilegu samtali. Enn fremur er athugavert hversu margir sem hafa gagnrýnt umbúðir og innihald pakkans hafa verið kallaðir stuðningsmenn barnaníðs, fyrir það að lepja ekki upp steypuna. Undirritaður fann fyrir samskonar aðköstum á samfélagsmiðlum af háværustu klappstýrum myndarinnar. Því ALLT þarf auðvitað að vera samsæri, eða svart-hvítt. Samantekt bíómyndarinnar í efnisflutningnum færir varla rök fyrir neinu öðru. Þó sé ekki beinlínis verið að hampa kaupendum er háamerískur og kristilegur undirtónn sem (ásamt mörgu) gefur afrakstrinum beiskt eftirbragð.

“Er þetta ekki bara einhver Trumpista/Qanon nöttaramynd?” var ég spurður af fellow netverja skömmu eftir að ég sá myndina.

Mig langar auðvitað að svara þessu játandi en hingað til hafa aðrir sakað mig um að styðja mansal, barnaníð eða jafnvel vera eitthvað lasinn, áttavilltur eða einfaldlega úti að aka fyrir að hafa skoðun á þessum framleidda gjörningi. Sem er auðvitað alveg galið þar sem ég á ekki bíl!

Gott og blessað ef fólk fær eitthvað út úr henni sem afþreyingu, því hún er í sjálfu sér ekkert meira en ódýr poppkornsmynd með bersýnilegt dálæti á sjálfu sér eins og hafi verið gerð til að stuða, græta og vinna verðlaun. Annars reyndi ég svosem mitt besta að aðskilja SoF frá ‘költinu’ og meta hana sem sjálfstæða bíómynd. Bjóst reyndar við temmilega samsettri mynd í versta falli (miðað við dómana), en hún reyndist enn bjánalegri (og óvart fyndnari) en ég átti von á. Óháð öllum samsæriskenningum og QAnon tengdu þvaðri fannst mér þetta bara slöpp og skelþunn kvikmynd. Það eru til mun betri Kool-Aid þarna úti.

Besta senan:
Pass.

Sammála/ósammála?