Það er alltaf gaman að fá einhvern (þó ekki nema) SMÁ heila með subbuskapnum þegar kemur að sadistaflippveislu eins og þessari sem yfirgnæfir Saw seríuna. Að vísu, hér að sinni fylgir smá svona væbur eins og framleiðendur hafi loks staldrað aðeins við og velt fyrir sér: „Hey, eigum við að prófa að setja smá púður í HANDRITIÐ núna? Baaara svona upp á flippið”

Ekki það að þessi myndabálkur hafi nokkurn tímann ætlað sér að vera eitthvað krassandi hófstillt framlag til listakúltúrs enda vel og lengi talinn helsti orsakavaldur þess að um gott skeið fór pyntingarklám í hryllingsmyndum að tröllríða öllu. Með tíunda innslaginu hefði annars verið ódýr en skiljanleg nálgun að fara alla leið eða lengra með öskrin, sársaukann og ‘exploitation’ móralska mændfokkið, þar sem bíómyndirnar hvað mest slefa yfir sér sjálfum. Lítið er um heilsteypta dulúð og vanalega er innihaldið bara einhver grautaður samtíningur þar sem höfundar seríunnar hafa farið hinar brandaralegustu vegalengdir til að stækka ’söguna’ með ógrynni af tvistum. Þess vegna tek ég grínlaust að ofan fyrir þeim einstaklingi sem getur almennilega leyst þetta narratífupúsl og þrætt þessa krossþvældu tímalínu myndanna. 

Þó ýmsar af þessum tíu ræmum séu drulluskemmtilegar er erfitt að sjá þær sem neitt annað en þær eru; slísí og subbulega reyfara; nema þegar reynt er að prófa eitthvað aðeins öðruvísi. Persónulegt uppáhald mynd er Saw VI, þar sem pyntingarsvallið var piprað með glæsilega hvassri útreið á bandaríska heilbrigðiskerfið. Ekkert til að raðbrjóta heilann yfir en þó var þarna þægilegt að fá viðbótina í Saw-sarpinn sem kom með skýra samtímatengingu, sýndi nýjar klær og spilaði með samúð áhorfenda á hressilegan hátt. Langskemmtilegasta og tenntasta Saw myndin að mati mínu. Eða svo var.

Af hverju er ég samt að tala sérstaklega um Saw VI? Nú, vegna þess að nú er leikstjóri hennar og fastur klippari myndabálksins (Kevin Greutert) snúinn aftur þar sem áherslan er ekki ósvipuð sexunni fyrrnefndu, nema hér er tekið sambland af hefndarsögu, útrásarmynd um (aftur) vafasamt fólk í heilbrigðisgeiranum, kókaðri Hitchcock-mynd um allt þetta klassíska móralska reiptog þar sem gildi og prinsipp ‘morðingjans’ Jigsaw eru skoðuð ögn betur en venjulega. Fígúra þessi hefur ávallt verið glimrandi vel leikinn af Tobin Bell. Framleiðendur syrpunnar sjá réttilega eftir því að hafa drepið John ‘Jigsaw’ Kramer svona snemma en í stað þess að þurrka út spjaldið eða endurlífga karakterinn með einhverju kraftaverki handritshöfundar, var sú skarpa ákvörðun tekin að öll þessi mynd yrði forsaga – sem nánar til tekið gerist á milli upprunalegu Saw myndarinnar og Saw II. 

Saw X leynir slatta á sér en er samt ólíkleg til að lokka áhorfendur sem þekkja ekkert til seríunnar, því hún er alveg jafn nastí, víruð í ógeðinu og (jú jú, segjum…) hugmyndarík í morðgildrunum e. gangverkum þeirra og við má búast (og þetta þarf ekki að vera slæmur hlutur) en framvindan spáir minna í tímalínuflækjum og þannig slíkri maníu og því mun afslappaðri og hnitmiðaðri að sinni, meira um fólkið en fokkið. Fyrsti þriðjungurinn stendur strax upp úr enda undarlega lágstemmdur en stillir jafnt upp í laumi alla ringulreiðina sem fram undan bíður. Hér tókst allavega vel til með að hrista smá upp í formúlu sem þegar var orðin sérhæfð í farsakenndri kaótík og lítt spennandi lengi vel.

Þá er fókusinn stilltur á sjálfan Kramer sem aldrei fyrr og umbyltir það stemningunni umhugsunarlaust í allt önnur lífsmörk heldur en serían hefur sýnt merki um í rúman áratug, ef ekki frá byrjun. Þetta er vegna þess að Bell er bara eitthvað svo fjandi áhorfanlegur og grípandi sem lífsgúrúið sem gefur siðlausu fólki séns á öðru lífi. Að sinni er eins og framleiðendum hafi langað til að gera Saw-myndina sem vill skoða hvað það þýðir að vera ’Saw mynd’. Bell hefur allavega komið langa leið frá fyrstu myndinni þar sem hann gerði bókstaflega fátt annað en að liggja kylliflatur, steinþegjandi á gólfi allan tímann – og hér hefur hann aldrei verið betri.

Með því að grandskoða Kramer aðeins betur; gera hann að ‘aðalpersónunni’ loksins myndast skemmtilegt vegasalt á milli þess að sýna karakternum bæði djúpstæða vorkunn og óbeit til skiptis, en aldrei er hann óspennandi fígúra. Þá hefur Shawnee Smith einnig alltaf sýnt kærkominn lit á móti honum Bell og hér er það engin undantekning, enda hefur Smith verið þrælvön viðbjóði síðan á dögum geggjuðu The Blob endurgerðarinnar frá ’88. Bell og Smith eru lífleg sem bæði andstæðingar og hetjur myndarinnar.

Að öllu þessu góða utanskildu virðist allt annað vera með felldu í samhengi standard brussulegrar uppskriftar Saw-myndar; blóðblætið lekur enn um allt, klippingin oft hálf manísk, frammistaða sumra leikara er reglulega ósannfærandi (stöku sinnum á ‘klámleikara-levelinu’) og það þarf að kyngja hverja langsóttu þróun plottsins á eftir annarri í þágu góðs skemmtanagildis. Kostur er það þó mikill að ‘rólegu kaflarnir’ eru ekki notaðir sem illa dramatíserað uppfyllingarefni fram að næstu pyntingarsenu, eða leið til að stilla upp asnalegri lokafléttu og stóla á sjokkin. Sú tíunda slædar á þann máta eins og hún hafi ákveðið að hlaupa þegar hinar höfðu gengið, eða skriðið.

Ef síðustu mínúturnar hefðu náð betri krafti og myndinni tekist aðeins betur að fela ummerkin um hvert stefndi, mætti léttilega segja þetta vera fyrstu Saw myndina sen er ekki bara hröð, rugluð eða skemmtileg, heldur þrusuflottan lítinn sálfræðitrylli – með hliðarskammti af viðbjóði, vissulega. Að minnsta kosti er ‘boðskapurinn’ jákvæður og ógeðfelldar ræmur eru vandfundnar sem stuðla svona háfleygt að núvitund, lausnamiðun og bjartsýnum lífsgildum, ekki satt? Það er ákveðinn hektískur húmanismi í þessu en vinsamlegast haldið ömmum ykkar frá.

PS. Svona myndi ég núna raða upp Saw-myndunum eftir ágæti:

  1. SAW X
  2. SAW VI
  3. SAW
  4. SAW III
  5. SAW II
  6. SAW IV
  7. JIGSAW
  8. SAW 3D/7/THE FINAL CHAPTER
  9. SPIRAL
  10. SAW V

PPS. Magnað að Saw serían hefur helgað sér þessum rómversku tölum frá upphafinu; annað en t.d. Fast X, Scream VI ofl. Stílhreint er nú sjaldan ósexý.

Sammála/ósammála?