Seint verður sagt að sé auðvelt að vera ‘öðruvísi’, brautryðjandi eða framúrskarandi í heimi þar sem stutt er í aðra minni máttar eða jafnvel keppinauta sem svífast einskis til að reyna að slökkva á brennandi eldmóði.

Áður en sælgætismeistarinn Willy Wonka var kominn með rekstur sinn í risa verksmiðju þar sem allt er morandi í appelsínugulum stubbum, var hann fátækur en sprækur metnaðarþjarkur í erfiðum viðskiptaheimi. Í þessari frumunnu forsögu fylgjumst við með Willy litla díla við alls konar lygilegar hindranir og samkeppnisaðila sína, eins konar sælgætismafíu réttar sagt, og eltast við drauma sína án uppgjafar. 

Kosturinn og gallinn við svona tilbúna forsögu er að áhorfandinn getur bæði huggað sig við það að hvaða átök það eru sem Willy neyðist til að yfirstíga eru aðeins tímabundnar, en á móti vita allir nákvæmlega hver lendingarstöðin verður á þróun hans. Þá er eins gott að sé eitthvað meira gott í þessum gleðipakka sem kalla mætti óvænt, heillandi eða nammigott. Skemmtun óskast fyrst og fremst.

Wonka er einmitt sakleysislega, prakkaralega gleðjandi söngvamynd, en þetta er óneitanlega bíómynd sem er í svolitlum rembingi við að bæði réttlæta eigin tilvist með töfrum sínum eða uppfyllingarefni og í senn þjóna hlutverki sem systramynd eða rándýr virðingavottur til kvikmyndarinnar Willy Wonka and the Chocolate Factory frá 1971, eins og hún komist ekki hjá því að hanga svolítið í skugganum hennar.

Það hefur hingað til verið svolítið frjálst til túlkunar í kvikmyndaaðlögunum hvort Willy Wonka sé meiri heillandi sérvitringur eða sykursætur sósíópati. Eitt er þó alveg víst og það er einkenni hjá Wonka sem þykir nokkuð ríkjandi hér (meira svo en hitt tvennt); hann er stjarnfræðilega furðulegur náungi, með vítt hugmyndaflug og fædda hæfileika fyrir sölumennsku og nýjungum. Í forsögunni um Wonka tekst ekki alveg til með að skapa elskulegan karakter eins og úr upprunalegri sköpun Roalds Dahl, en hvergi er þessi Wonka gæddur sömu rauðu kríp-flöggum og fylgdu gjarnan persónunni í túlkun Gene Wilder og (sérstaklega!) Johnny Depp. Í staðinn er það furðufuglinn í honum sem skemmtir og kætir í þessari sögu; draumóramaðurinn, töframaðurinn, uppfinningamaðurinn, púkinn, og svo framvegis. Þetta smellur alveg í réttu hólfin og bestu fréttirnar eru þær hversu óaðfinnanlega og eftirminnilega Timothée Chalamet nær að eigna sér Wonka fígúruna á eigin spýtum með frískandi vinkli. Myndin ætti jafnvel skilið væna hækkun í meðmælum ef Chalamet gæti í alvörunni sungið…

Sterkasti leikur framleiðenda hefur klárlega verið ráðning leikstjóra Paddington-myndanna, Paul King, þar sem honum tókst frábærlega til með þeim að gera hugljúfar, vel skrifaðar og endalaust faðmanlegar fjölskyldumyndir (grínlaust, þær eru báðar yndislegar). Mín kenning er sú að ef King hefði ekki getað útbúið eitthvað smá girnilegt og lokkandi úr þessari ‘cash grab’ forsögu á sígildu verki, hefði sennilega enginn annar raunsær kostur getað það. King snýr reyndar heppilega bökum saman á ný við Paddington-handritshöfundinn, leikarann og snillinginn Simon Farnaby, og sálina vantar klárlega ekki í sögukjarnann. Það er stærsti plúsinn.

Mesta gotteríið á skjánum í Wonka er tvímælalaust þessi endalaust spræki og litríki leikhópur. Chalamet er umkringdur ýmsum ýktum snillingum sem vita alveg til hvers gírs er ætlast og reynir hver að stela senunni eða myndinni af þeim næsta, hvort sem viðkomandi heitir Calah Lane, Olivia Colman, Keegan-Michael Key, Tom Davis, Matt Lucas eða Simon Farnaby sjálfur. Hugh Grant er reyndar sá eini sem virðist ekki alveg eiga heima þarna. Það væri reyndar forvitnilegt að vita hvernig það æxlaðist að ráða Grant sem Oompa-Loompa stubb, hversu ofarlegur á listanum hann var. Engu að síður má alveg sjá á leikaranum að hann er varla að nenna þessu. 

Lögin eru flest skemmtileg og hlaðin hnyttnum textum en ekkert rífandi eftirminnileg, að utanskildum lögunum sem erfast beint frá Wilder-myndinni. Tónasetning, búningar, sviðsmyndir og umgjörðin almennt lúkkar annars vegar fyrir allan peninginn og stendur leikstjórinn sig vel með að ramma inn ýktan en trúverðugan heim sem deilir einhverju DNA með upprunalegu (meintu) klassíkinni.*

Atburðarásin er lítið fyrir það að finna upp hjólið, en þetta þýðir að fjöldinn allur af líflegum lögum hanga á eintómu klisjusnæri. Eins og við mátti kannski búast þá varir líka pínda ‘forsöguheilkennið’ (e. ‘prequelitis’) lengur en hefði mátt vera. Það er svo ríkjandi í svona nostalgíudrifnum forsögum að sagan þurfi að hamast við að reyna að þræða eins marga karakterpunkta eða söguþræði við upprunalega eintakið (köllum þetta bara ‘Solo-veikina’, þar sem hörðum botni var náð með að uppræta allt saman eða koma með þvælda baksögu, eins og hvernig hann fékk nafnið sitt…).

Á lokametrunum byrjar Wonka-forsagan að spýta í lófanna og reynir (illskiljanlega) eftir fremsta magni að púsla sína enda við Gene Wilder-myndina. Er það ódýrt? Já, mjög, en ylljaði eitthvað um mínar hjartarætur þegar Chalamet er kominn á sína ‘endastöð’ og farinn að syngja ‘Pure Imagination’? Algjörlega, já.

Wonka er mögulega full trendí til að eiga séns á að vera tímalaus viðbót. Allt sem er á boðstólnum hér bragðast nokkuð fínt en sælan dvínar fljótt í oft rútínubundnum skrípaleik sem skortir aðeins meira ímyndunarafl, en sjarmurinn er þó – merkilegt nokk – á sínum stað þegar myndin þarf alvarlega á því að halda. Þetta er allt mjög sætt, og sætt er vissulega mjög gott á meðan það er ekki ofsykrað. 

Það ætti samt grínlaust að endurskoða það að íhuga Chalamet fyrir söngleiki framar. Hann er fjölhæfur og frábær en ekki SVONA mikið undrabarn…

*Játning: Mér finnst Charlie and the Chocolate Factory frá vera hiklaust betri en Willy Wonka and the Chocolate Factory.

Sammála/ósammála?