Kvíði getur verið einhver mesti heimsins djöfull, sérstaklega ef hann fær að krauma í kolli sem hrjáður er af gígantískri sektarkennd, sjálfshatri, stöðugu hjálparleysi og miklum skammti af meðvirkni. Þetta er nokkurn veginn þar sem einkennir elskulega vonleysingjann Beau Wasserman (Joaquin Phoenix) og í þrjá heila klukkutíma leggur hinn óviðjafnanlegi Ari Aster (Hereditary, Midsommar) í ferðalag um hvað það er sem kom þessum manni á þann stað sem hann er í eigin skinni – og það þarf engan ólæknandi svartsýnissegg á eilífðarbömmer til að spá því fyrir að ferðalagið muni ekki gera vesalings Beau það að veita honum auðveld svör og enn síður áhyggjulausar hindranir eða hættur.


Aster virðist fá veraldlega ánægju úr því að hlæja að óförum annarra, en þegar bíómynd er eins absúrd og þessi í öllum óförunum er varla annað hægt en að hlæja, hlýða og samsvara sig við þennan skrípalega eymdarsirkus leikstjórans. En við hvað er Beau nákvæmlega svona hræddur?

Ef aðeins svörin öll reyndust vera jafn athyglisverð og spurningarnar sem eru lagðar fyrir.


Eftir Hereditary og Midsommar var býsna greinilegt að Aster væri massaklár, listrænt þenkjandi, truflandi og heldur einstakur kvikmyndagerðarmaður. Eftir að fólk hefur lokið glápi á Beau is Afraid er nokkuð eðlilegt að spyrja sig upphátt hvort leikstjórinn þurfi ekki á innilegu faðmlagi, þungum ráðum eða mikilli hlustun að halda, því hvað sem túlka má úr heildarverkinu er þó ljóst að myndin er eins konar öskrandi útrás og kemur sennilega frá mjög persónulegum stað. En við erum auðvitað að tala um leikstjórann sem skrifaði og kokkaði upp Midsommar sem viðbragð við erfiðum sambandsslitum – og við munum flest hvernig það partí spilaðist út, svo á þessu stigi er fátt við listamanninn sem gæti hneykslað meira en hann reynir sjálfur að gera á hvíta tjaldinu af öllu afli.

Ef Aster er með einhverja hnitmiðaða skýringu í huganum yfir því hvað stærsta markmið sitt var með Beau is Afraid, má dæla hrósunum á hann fyrir það eitt að snara einhverri reglu á þennan þriggja tíma ruglugang. Merkilegast er að sagan er nægilega frjó, óútreiknanleg, fyndin á tíðum og lokkandi í stílíseringum til að sýningartíminn verði aldrei of teygður, langdreginn eða dauður í keyrslu. Það eru margar villtar hugmyndir sem bornar eru fram (sumar að vísu hálfbakaðri en aðrar…) og Aster er ótrúlega flinkur í nýjum leiðum til að koma með kómískan hryllingssnúning á kvíðasýki, í bland við ólgandi sektarkennd sem svífur um titilpersónuna eins og geislabaugur. Aster er augljóslega langt frá því að vera fullkominn, en maðurinn virðist hafa upplifað sinn skerf af kvíða enda nær hann furðuvel að festa þess konar tens óþægindi á mynd…

Aster sækist klárlega í epík. En þó kvikmyndagerðarmaðurinn nái að sýna allan peninginn á skjánum (enda dýrasta framleiðsla A24 til þessa…) og hafi augljóslega gert alla sína heimavinnu með innihaldið, merkingar myndmálsins, gommu af ‘földum’ vísbendingum og með tök á leiktilþrifum sem eru af allra hæstu gæðagráðu, er samt ekki þar með sagt að afraksturinn sé meistarastykki (eða jafnvel einhver ‘misskilin’ snilld). Það má svo sem veðja að það sé skoðunin sem Aster óskar hvað mest eftir. Hann fær sjálfsagt einhver þúsundir stiga í þátttökuverðlaun og má lengi vel hrósa umfanginu og ímyndunaraflinu, en myndinni fylgir samt sem áður svolítið beiskt eftirbragð sem gargar meira á sjálfumgleði í stað snilligáfu frá manninum sem sauð þetta allt saman.


Metnaðurinn, nálgunin, útrásin, dellugangurinn og ofar öllu smámunasemin hjá Aster er svei mér borðliggjandi með öllu og sést fullkomlega að kvikmyndin komi frá kvikmyndagerðarmanni með áhugaverða rödd, flott auga og fjandann allan af pælingum sem hafa trúlega verið honum afar mótandi. Virðist vera að Aster hafi sótt töluverðan innblástur í hugarheima manna á borð við Terry Gilliam og Charlie Kaufman, nema það vantar meiri karakter í absúrdismann til að komast í tæru við betri Gilliam verkin og Aster hefur ekki nægilega mikinn áhuga á þeim margslungna beiskleika lífs sem Kaufman býr yfir á bæði góðu dögunum og eflaust í svefni. Á bjartari nótunum hefur stíl þessarar myndar þó tekist ákaflega vel að fanga lifandi raðir flippaðra martraða og við fyrsta áhorf kemur upp sú tilfinning eins og nákvæmlega hvað sem er getur gerst. Verst að mismikið batnar með hverju glápinu.

Þarna stendur undirritaður svolítið strand með hvort og hvernig sé best að mæla með lokaútkomu myndarinnar. Það er auðvelt að dást að Beau is Afraid í ræmur en þetta er afskaplega erfið mynd til að taka á móti með opnum örmum og tengjast sterkt á einhverju dýpra, manneskjulegra leveli. Heildarsvipur sögunnar virðist eingöngu vera keyrður á gegnsúrri kaldhæðni, dreifðum litlum sjokk-faktorum og í rauninni andstyggilegu sprelli sem dregur ekki bara aðalpersónu sögunnar í gegnum endalausa drullu í refsistilgangi, heldur jaðrar handritið við að vera hreint og beint ‘troll’ í garð áhorfandans.  

Þegar líða tekur á lokasprettinn liggur við að leikstjórinn sé af ásettu ráði að reyna eins og mögulegt er að fá eins marga áhorfendur til að rjúka frá skjánum eða slökkva á myndinni í fussandi heift. Á blaði styð ég hugmyndina á bak við það sem Aster reynir að tækla með bláenda sögunnar. Úrvinnslan er síðan bara tómt loft og nær ekki alveg fluginu sem hugmyndaflugið þarna krefst.

Það er lítið svigrúm til að fjárfesta einhverjar sterkar tilfinningar við þessa kvikmynd þegar Aster virðist aðallega njóta þess að hlæja (og benda!) rakleiðis í opið geð allra og vonast eftir að flestir spyrji sig “Hvað í helvítinu var ég að horfa á?”




Ef best er að taka á móti Beau is Afraid sem eins konar prakkaralegum ‘stress-ópus’ eða kómískt sálfræðidrama með allsráðandi Freudískum tilvísunum og lúmskar skýrskotanir í (vitaskuld…) Ödipusarduld, þá er myndin ofpakkaður en vandaður dellufarsi. Ef meira á að leynast undir yfirborðinu (eða á háaloftinu…) er verkið fullmikil froða og tómt hanagal til að kjarnaþemun skilji meira eftir sig en eftirfarandi setningar; 

a) “Ég hef aldrei séð neitt ÞESSU líkt áður…” (sem er jákvætt, en hvað svo…?) og  
b) “Joaquin Phoenix gæti ekki skilað slakri frammistöðu þó hann reyndi”
(ekki beinlínis nýjar fréttir)

Það er einhver huggun í því að hugsa frekar um Beau is Afraid sem einstöku stórmyndina hans Phoenix en sem útrásarmynd kvikmyndagerðarmanns með allt of mikið frelsi og fjármagn sökum vinsælda fyrri mynda. Leikstjórinn virðist að minnsta kosti vera ólmur í að sýna áhorfendum hvað þessi kvikmynd hefur stóran pung (bókstaflega!… því miður), rétt eins og aðalkarakterinn sjálfur (aftur – bókstaflega, því miður…), sem er gæddur aldeilis risa sekk á milli lappana en skortir allt sem kallast hrygg, táknfræðilega. Phoenix er annars vegar djúpt grafinn í safaríkt hlutverk og forvitnilega staðnaðan, skondinn karakter og gæti þetta jafnvel verið einhver albesti performans sem komið hefur frá manni sem á þá ófáa fyrir.

Mig langar (ó-svo-VIRKILEGA mikið) til að elska Beau is Afraid og geta kallað hana pönkað tímamótaverk sem verður líklega betur metið eftir áratug eða svo þegar flestir eru búnir að melta hana betur eða gefa henni fleiri sénsa – en hér vantar þann niðurneglda fókus til að smella á flesta vegu og í rauninni sál til að búa yfir sterkari listrænan stimpil heldur en súmma mætti upp með orðunum ‘frumleg gamanmynd.’ Því það er hún svo sannarlega; svo fersk, svo snar, lifandi, ögrandi og alveg hiklaust ógleymanleg sum staðar þegar á heildina er litið. Leikstjórinn gæti samt mögulega fúnkerað almennt betur með að einblína á rótgróna þjáningu í einfaldari narratífum (Midsommar er nú fyrirtaks dæmi um það) í stað þess að fara öfugt að; þá vaða grunnt í einhverja stútfulla og viðburðaríka lengju um aumkunarverðan mömmustrák og hans innri djöfla sem ytri, en skilar sér samt með það litlum krafti að mannfræðinördarnir fá ekkert til að grípa utan um.

Að vísu er reyndar haugur – og þá meina ég HAUGUR – af földum táknum, ‘páskaeggjum’ og duldum skýringum sem dreifast í bílförmum í gegnum alla myndina. Þetta er ein af ástæðum þess að nauðsynlegt er (því miður…?) að leggja í Beau is Afraid oftar en einu sinni. Þá fer aðeins að skolast betur hvað Aster er lúmskur fantur.


Má þess geta að undirritaður hefur núna þrisvar sinnum horft á myndina (níu samanlagðir klukkutímar, takk fyrir!) og virðist fara eftir veðri með persónulega skoðun hvort þetta sé ágætis tjara, lítt merkileg tilgerð eða fjandi góð tilraun. Þessi mynd getur verið þetta allt og í sjálfu sér ekki neitt af þessu, en hún vinnur samt þann slag að það er margt um hana að ræða.

Sumt í handritinu er urrandi snilld, fjöldi sena koma með frumlegar vangaveltur um hvað telst til óþæginda eða hræðslutilefnis og hversu vítt mengið getur verið, og þar er fjörið. Besta dæmið um frískandi óhug er hvernig stærsti senuþjófur myndarinnar, Nathan Lane, leikur náunga sem er yfirþyrmandi hjálpsamur og kurteis – en á sama tíma geysilega uppáþrengjandi, eiginlega of viðkunnanlegur og ómeðvitað frelsissviptandi. Aster undirstrikar ferlega vel að það gæti verið fræðilega hægt að drepa einhvern með góðmennsku.

Ég gæti svo sem lengi talið upp hversu frábærlega hver og einn einasti leikari er valinn í hvert gefið hlutverk; eftirtektarverðust eru þó sennilega Kylie Rogers (en hennar persóna sýnir hversu miklar tifandi tímasprengjur bældir unglingar geta verið), Parker Posey (sem á eina steiktustu og fyndnustu senu myndarinnar) ásamt þeim Zoe Lister-Jones og Patti LuPone sem leika móður Beau á sitthvoru aldursskeiðinu. Þær eru magnaðar, umhugsunarlaust, og sjúklega ógnandi, líkt og ætlast er til. Því ætlunarverki var meistaralega náð og móðir Beaus myndi í raunverulegum heimi gefa hverjum sem er regluleg kvíðaköst.


Þá ættu flestir einnig að geta tekið undir það að hinn 15 ára Armen Nahapetian er eins og snýttur úr nefi aðalleikarans. Þvílíka kraftaverkavalið á leikara til að túlka Beau/Phoenix á unglingsárunum. Svipurinn þeirra á milli er nógu sterkur til að vekja upp grun um djúpfölsun, en svo er víst ekki (og sturluð staðreynd; leikarinn þurfti í alvörunni að tilkynna heiminum það á samfélagsmiðlum að hann væri ekki tölvubrella…). Gæti þeirra speglun vel verið magnaðasta afrek allrar myndarinnar. Hvort það segi meira um lagskiptingu sögunnar, blatant hjartaleysi hennar eða minn einfalda heila er undir öðrum komið að meta. 

Engu að síður… þá er nógu mikið gúrme kjaftæði sem stendur upp úr þessum þremur tímum til að sé aldrei hægt að afskrifa Beau is Afraid sem einhvern feil, færibandsverk eða miðjumoð. Þetta er eitt af fágætum dæmum þar sem er viðeigandi að óska leikstjóranum innilega til hamingju með sitt verk – og samtímis segja honum að góðfúslega fokka sér. 

Sjáum svo hvernig tíminn og tilvonandi költ-status muni fara með þetta aðdáunarverða voðaverk.

Segjum sex bananar af tíu.

Sammála/ósammála?