Alltaf er sú tilfinning frískandi þegar glápi á öðruvísi bíói er lokið og strax ef ekki reglulega yfir áhorfið hugsar heilinn orð í líkingu við… „Hvað. Í. HELVÍTINU… var ég að horfa á?!“

Í fyrsta lagi; Mad God er ekki fyrir hvern sem er. Í öðru lagi; Mad God er ómögulega (!) fyrir viðkvæma. Þetta er grjóthart stöff af abstraktisma sem er eflaust eitthvað það sturlaðasta, ógeðfelldasta, hugmyndaríkasta martraðartripp í gegnum bleksvarta dystópíu sem hefur verið gefið út í fullri lengd. Brenglað, breitt og abstrakt innlit inn í hinar sjúkustu hugsanir bandaríska stórmeistarans Phil Tippett frá helvíti – um alla mögulegu undirheima jarðar og meira til. Svona er hægt að gera viðbjóð fallegan, einstakan og helvíti dáleiðandi. Og vítt í umfangi jafnt og gríðarlega persónuleg tjáning listamanns.

Mad God er póstmódernísk þögul mynd sem fagnar geysilegum fleti brellna í gegnum áraraðirnar og sýnir hversu fullorðins og fjölbreyttar ‘teiknimyndir’ auteur’a geta verið, með stæl!

Sagan á bak við gerð þessa verks er hrein bilun. Tippett framleiddi þetta verk í eigin stúdíói og ber helstu hattanna í toppkeðjunni; sem leikstjóri, höfundur, helsti hönnuður og lykilframleiðandi. Manninn þekkja kannski ekki allir undir nafni en verk hans hafa markað risaspor í hönnunarsögu Hollywood ‘geiramynda’; Tippett hannaði ýmsar skepnurnar í upprunalega Star Wars þríleiknum, kom að Jurassic Park auk þess að vera lykilsmiður róbótans ED-209 í RoboCop frá Paul Verhoeven og geimverunum í Starship Troopers frá sama leikstjóra. Þarna eru nota bene rétt aðeins örfá dæmi nefnd.

Það sést langar leiðir að Mad God er bæði ástríðuverkefni listamannsins og í senn gargandi útrás frá manni sem hefur verið afar opinn með þunglyndi sitt. Viðeigandi væri þó að kalla þetta hans merkasta gæluverkefni enda á alla vegu sjálfstæð kvikmynd, gerð með hléum, stoppum, hópfjármögnun og lítið, naglhart teymi listafólks á rúmum 30 árum. Þetta leynir sér ekki á lokaútkomunni, enda fyrsti þriðjungurinn skotinn á (töluvert áferðarhrárri) 35mm filmu en birtir síðan verulega í háskerpugæðunum eftir því sem á líður.

Úr þessu öllu fáum við pjúra múd-drifið martraðarfóður. Tippett er kominn á áttræðisaldurinn og hefur lýst sjálfum sér sem ‘existential’ búddista sem fái ítrekað skuggalega drauma. Með þessu óbeislaða Mad God verki fer hann víðan völl í frjálslega flæðandi undirheima- og sálarskoðun um eyðileggingu, sköpun, tíma (teljið nú klukkurnar!), iðnað, vistkerfi, líf af öllum gerðum og fleira sem löðrar í limlestingum og annars konar geðveiki. Myndin er, samkvæmt hefðbundnum skilningi, frekar stefnulaus við fyrstu sýn, með enga beina narratífu en sundurleysið virðist með ólíkindum vinna með þessum martraðarvæb. Í augum margra ætti það að kallast hrein refsing að klára alla myndina.

Ef ætti að best lýsa þessum súra stílgraut væri þetta einhvers konar fígúrur frá Ray Harryhausen undir linsu Terence Malick ef hann væri andsettur í léttu blandi við Terry Gilliam í geðrofi. Ef ekki þá verk eftir Hieronymus Bosch ef það væri lifandi og á sveppum. Koyaanisqatsi að hætti (eða handa) kölska. Algjört eitthvað. Og mikið af því!

Heildarlúkkið notast við stop-motion ‘(leir)hreyfimyndir að mestu leyti en leikarar, brúður og alls konar önnur framsetningar- og brellutrix fylgja með þessu. Tippett kveðst ekki hafa verið með neina fasta stefnu með framvindunni þegar hann hóf upphaflega sköpunina á Mad God. Því er alveg fyrirgefið að afskrifa myndina sem eitt metnaðarfyllsta demó-reel síðari ára, en heildarpakkinn er alveg fjarri því að vera óúthugsaður eða innihaldslaus. Nóg er allavega af myndmáli til að gramsa í og ofhugsa. Myglaður konfektkassi fyrir symbolismaperrana.

Það sem hérna nefnilega um ræðir er hreinræktuð, ósíuð sköpunargleði frá Tippett og hans teymi. Algjör frístæluð tilraunarsemi ofar öllu og herma sögur að Tippett hafi ákveðið að leyfa ‘sögunni’ að þróast og breytast í gegnum ferlið, með ekkert fast í stein nema aragrúa af dystópískum pælingum. Engar fastar dagsetningar til að eltast við varðandi útgáfu, engir stúdíótoppar, engir aukakokkar, engin afskipti. Ófilteruð Tippett-mynd.

Hönnunarsúpa skepna og allt tilheyrandi umhverfi leikmynda eða módela blæðir svo miklu helluðu andrúmslofti og stórglæsilegum hönnunum út í gegn. Hér þarf engan söguþráð til að skýra út eða stýra hvað sem hérna er í déskotanum í gangi í þessari framvindu. Mad God er heljarinnar innlit og í rauninni lítið meira. Hún bara… er, sem bætir eflaust á frústreringu margra áhorfenda en styrkir sess hennar sem júnik sköpunarverk stórmeistara í sínu fagi.

Tippett finnur sinn innri sikkópata og prakkara þar að auki, enda saltast hvort tveggja heiftarlega yfir þessar 80 mínútur. Á milli þess að vera kolsvört í atmóinu sínu er alveg nóg um sjúku innskotin af glettni, frá gálgahúmor til groddagríns. Ég hef aldrei séð neitt í líkingu við þetta eða sumt hvert í verkinu sem verður endanlega brennt í minnisbúið.

Verst er að rennslið fer aðeins dalandi í miðbikinu, eða því meira sem Tippett styðst við alvöru fólk á skjánum. Kemur út í vissum tilfellum eins og teymið hafi stytt sér fáeinar leiðir í stílbræðingnum til að klára myndina fyrr eða teygja hana betur í fulla kvikmyndalengd, en þegar t.d. Alex Cox er að spóka sig um, þá er auðveldara að sogast úr upplifuninni annað slagið. Sést þá fulloft hvað hann passar illa í umhverfi sín á tíðum, sökum bluescreen- eða tölvutækni sem nær ekki alveg að fela saumana í samsetningunni.

Gæsahúðavekjandi tónlistin frá Dan Wool er annars þarna fullkomlega soðin við allt myndmál að kröftugri hljóðvinnslu (og beitingum hljóðbrellna sem radda). Hugmyndagubbið hjá Tippett gengur upp þó alls, alls, ALLS ekki allra. Merkilegt nokk, mér þykir frekar leitt að segja það eftir að hafa liðið svona skítugum eftir glápið, en þrátt fyrir sundurslitnu ringulreið sögunnar, eða skortri á slíkri, og fáeinum langdregnum blóðsúthellingum, er Mad God er eiginlega óumdeilanlega soddan masterklassa stykki. Það er í þaula hægt að deila um hvort hún sigli alla leið og sé kristaltært meistaraverk eða ekki. Hún skilur mann eftir alveg orðlausan og þá án þess að nokkurn tímann sé yrt eitt stakt orð á tímanum öllum. Sem hryllingsmynd er hún að minnsta kosti svívirðilega óþægileg á besta máta og það meira. Lengi lifi, þessi ógeðfellda og stórkostlega afkræming.

En aldrei í lífinu sýna ömmu ykkar þessa mynd.

Sammála/ósammála?