Despicable Me-serían er í mínum augum vel komin út fyrir sinn útrenningardag, þó greinilega ekki síðasta neysludag, enda getur ekki talist með neinu móti annað en létt áreiti að komnar séu út sex bíómyndir talsins með Skósveinunum án þess að nokkur merki sýni fram á slaka í þeim efnum.
Ó, mig auman.

Sagan af illmenninu Gru sem hófst með því að hann snéri baki sínu við illkvittin plön og gerðist fjölhæfur fjölskyldufaðir snýst að sinni í algerum hjólförum, en þessar Illumination-teiknimyndir eru óneitanlega ómetanlegir seglar á markhóp sinn – að vísu sjaldnast hreint og beint lélegar, merkilegt nokk.
Það sama á við um Despicable Me 4; hún er fullkomlega meinlaust, óhatursvert og á tíðum býsna fjörugt skrípó, en líkt og þriðja myndin undirstrikaði er persónufjöldinn orðinn óumdeilanlega að alltof mörgum boltum og þarf stöðugt að finna mismunandi hluti fyrir Gru, spúsuna og dæturnar þrjár að gera ásamt glænýju varmenni hverju sinni. Svo eru það Skósveinarnir… og öllu má nú ofgera. Ætli magnið selji ekki bara meira en gæðin? Ef gæði skildi þá kalla.
Enn skal ég standa við það að Despicable Me 2 sé án efa best heppnaða mynd seríunnar, eða með besta sýnisdæmið um kostulegt illmenni, nægilega einfalda framvindu og ekki of marga þvælda B-og-C söguþræði, en þannig er raunin orðin í fjórðu lotunni, eða sjöttu, ef sjálfstæðu Minions myndirnar fá að fljóta með.
Innihaldslega séð er þessi mynd í algjörri klessu hvað þetta varðar og gerir ekkert sérlega margt skapandi, brakandi eða spaugilegt við þessa steiktu og dásamlega litríku veröld sem hér er renderuð. Myndin skautar þar með eiginlega bara mest á tveimur gimmick-punktum; A) Nú er Gru kominn með ungabarn sem þolir hann ekki, og B) Fáeinir skósveinar gerðu ofurtilraunir á sér og eru nú orðnir seljanlegir í formi súpersveitarinnar Mega Minions™.

Annars er ég handviss um að Illumination-teyminu sé ákaflega sama um hvort brandarar í mynd eins og Despicable Me 4 lendi hjá fólki af minni kynslóð eða hversu oft (þó reyndar hafi sagan verið önnur með Super Mario Bros., enda þar meira kynslóðarspannandi brand frá byrjun…). Það sem öllu máli skiptir er hvernig manísku litasprengjurnar, kjánalætin og boink-brandararnir virka á yngri hópanna.
Vill svo til að í því tilraunaskyni að ég dró tvær dætur mínar (’18 og ’20 módel) á myndina. Krítería þeirra risti að sjálfsögðu ekkert dýpra en að þær rétt um bil elska Minions skilyrðislaust, telja Gru vera með fyndið nef og hlógu þær yfirleitt upphátt þegar Minions með ofurkrafta í Marvel-stíl átu upp skjátímann. Og jú, lokanúmerið þegar heilt hlaðborð af kunnuglegum karakterum dúkkar upp þótti absólút negla hjá tilraunardýrunum, ásamt söguþræðinum um skóveininn sem eyðir allri myndinni fastur inni í sjálfssala.

Til foreldra: Þetta gæti verið verra.
Til krakka: Það er margt til betra.
Að þessu sögðu; þessir Mega Minions-gæjar voru pínu fyndnir og sjálfssala(sub-)plottið gæti vel verið með því besta sem er hér í boði.







Sammála/ósammála?