Telst það til vonbrigða þegar útkoma bíómyndar er fáránlega góð en ekki barasta brill?

Mad Max: Fury Road var ekki einhver einnota flugeldasýning sem auðvelt er að toppa, endurvinna eða fikta með sí svona. Sú díselpönk perla er enn að mati undirritaðar alveg tært og tryllt rússíbanaverk, beinskeytt og fitusnautt rennsli þar sem aldrei skorti sögu í myndmálið eða keyrsluna á því. Ástralski rugludallurinn George Miller, samkvæmur sjálfum sér í að sækja í nýjar og brútal áskoranir sem sögumaður, stóðst ekki mátið að vaða í fimmta framlagið til Mad Max seríu sinnar. Þetta er forsagan um það hvernig útlagaþjarkurinn Furiosa varð að þeim harðnagla sem við kynntumst og hvað leiðir hana á þann stað og í stöðuna sem við sjáum hana í byrjun Fury Road.

Miller og hans teymi veit samt vel hvað í þeim býr og í stað þess að falla í helstu gryfjur svonefndra prequel-bíómynda eða rembast við að trompa keyrsluna og maníuna í Fury Road, er hér tekin allt öðruvísi nálgun sem þó smellur smurlaust við þann forvera. Hún er í allt öðrum gír, í allt öðru farartæki með gerólíkt flæði, þó andlitin og sögusviðin séu mörg kunnugleg með sinn eigin stíl á flugbeittu ferðalagi með sömu áhersluna á leitina að voninni, hið manneskjulega, hið villimannslega og kaótíska í dystópíuheimi sem löngu er orðinn sígildur og sífellt frjór þegar kemur að fjörinu.

Það að Miller nái svona (að öllu útlítandi) áreynslulaust að skóla bransann í bæði heimsbyggingu og sturluðum hasarsenum er eitt stærsta merki sem ég hef séð um hvað aldur er afstæður. Gæinn fer að nálgast níræðisaldurinn!

Þessi pönkaði og goðsagnarkenndi myndabálkur Millers á sér þrælmerkilega sögur eða rætur, og framgangur sem þróun heimsins og hæfileika aðstandenda er með endemis ólíkindum.

Hlutverkið sem Charlize Theron stal og masteraði svo eftirminnilega í Fury Road fær alls ekkert síðri túlkun frá hinni endalaust fjölhæfu Anyu Taylor-Joy, sem lætur fljótt vel um sig fara í ringulreiðinni sem umkringir hana. Alyla Browne fær síðan góðan bút af heildarlengdinni sem Furiosa á yngri árunum og er heldur ekkert síðri en hinar tvær.

Atburðarásinni er skipt í fimm kafla og rúllar baksögunni upp með flottum hætti en verður aðeins þvældari og formúlukenndari þegar frásögnin leysist upp í nokkuð hálfbakaða hefndarsögu. Handritið tekur sinn snúning á klisjurnar vissulega líka en miðað við umfang og bolta má halda að eitthvað mikilvægt gæti hafa lent á klippigólfinu svonefnda.

Það er ákveðinn sjarmi og sérstaða í því að Furiosa sjálf, sem ekki aðeins átti skuldlaust alla Fury Road myndina hvað sviðsljós og sálina varðar, heldur öllu sviðsljósinu í þessari sögu. Frá og með Mad Max 2 fór titilkarakterinn að stimpla sig sem stálharða einfarann sem kæmi öðrum lykilpersónum til aðstoðar. Max hefur alltaf verið villimaðurinn sem slysast til að verða hetja fyrir einhvern vonargljáa í dystópíunni eða einhvern málstað.

Á hinn veginn er Furiosa sjálf aðalfígúran að sinni, með eigin prinsipp, móral, málstað og markmið sem eru sjálfsagt bjartari en níhilisminn sem rýkur af Max, sem í raun og yfirleitt lifir bara til að lifa af, einn með sjálfum sér, nema eitthvað tækifæri leiðir annað í ljós sem er einhverju stærra í hag. Leiðin þangað verður þó hverju sinni hjá þessum andhetjum seríunnar algjör þeysireið.

Max er stóísk erkitýpa og fátt meira; hann stígur yfirleitt eða dettur inn í miklu breiðari, áferðaríkari heim hverju sinni. Með fókusinn á Furiosu tekur hún sinn heim og þar af leiðandi persónuleika og örk með sér. Heimurinn fylgir henni. Í fyrri helming myndar gerir Furiosa sitt besta til að láta sem minnst fyrir sér fara; hún er fámál, athugul og þolinmóð. Þegar gírskiptingin kemur með hvellum í seinni hlutanum er Furiosa orðin miklu próaktívari, þekktari á meðal ómenna og komin í beinna sigti óvina. Með sekvensum hverjum í aftari helmingnum víkkar út veröld sögupersónunnar. Það kannski dregur umdeilanlega úr einhverri spennu vitandi það að hetja okkar verður temmilega ósködduð áður en sögu lýkur. Til móts við það er aldrei móment í sögunni þar sem áhorfandinn missir tengingu eða stuðningi við hana.

Til að undirstrika enn fremur hvað Taylor-Joy er svöl og svipbrigðasterk í titilhlutverkinu þá selur hún hjarta, kjark, mýkt og snerpu karaktersins með glæsibrag og meiru.

Þá kemur helsta tvistið; Furiosa sem persóna lendir stundum í skugganum á sviðsljósinu sem stóri smástrákurinn og klíkuforinginn Dr. Dementus reynir í atriði hverju að stela af henni.

Chris Hemsworth er óbeislaður og í banastuði sem aldrei fyrr (og sjaldan verið fyndnari…) og góður, hæfilega mannlegur eða flókinn andstæðingur og því ekki bara einhver lifandi teiknimyndafígúra. Leiksigur Hemsworth er hárrétta og snargeðveika orkusprautan sem þarf til að koma djús í hefndarsöguna. Gæti það þó verið algjör rúlletta milli áhorfenda hvort gervinefið á leikaranum trufli fyrir frammistöðunni eða ekki. Undirritaður stekkur í seinni hópinn, enda ekki alveg besta lúkkið þegar Hemsworth steli öllum senum sínum að gervinefið geri það enn fremur – þó Miller leiki sér skemmtilega að litum í persónusköpun hans.

Gömul andlit sem ný brillera út allan skálann ásamt nýjum andlitum í gömlum grímum (Immortan Joe til dæmis, nú leikinn af Lachy Hulme). Nokkur Tom Burke skarar sig annars á marga vegu fram úr – að minnsta kosti í aftari helmingi myndarinnar – sem hinn ofurviðkunnanlegi Pretor Jack, eða ‘defacto-Max’ þessarar sögu meira eða minna. Charlee Fraser er líka meiriháttar þarna sem móðir hetjunnar okkar.

Afþreyingargildið rígheldur að mestu en tengipunktarnir gjarnan óþægilega flýttir. Þess að auki hefði alveg mátt sleppa allra seinustu senu myndarinnar og öllum myndbrotum úr Fury Road yfir kreditlistanum til að minna okkur á það hversu helluð sú mynd er. Auk þess má deila um það hvort Furiosa-myndin stækki í raun þennan bíóheim eða minnki hann, þar sem einu nýju staðirnir sem við sjáum eru aðeins þeir sem voru rétt svo nefndir í síðustu mynd en aldrei sýndir. Það er varla hægt að hafa of mikið af nýjungum. Lokaþriðjungurinn juggast allavega í átt að sigurmarkinu frekar en að bruna.

Þegar framleiðslukostnaðurinn slær í $150 milljónir er alveg öruggt að leikstjórinn sé kominn í þægilegan sandkassa til að tapa sér í sköpunargleðinni. Því er nokkuð öruggt að tryggja það að myndin skítlúkkar næstum því fyrir allan peninginn þó reyni vissulega aðeins meira á yfirdrifnar tölvubrellur en forverinn gerði (og jeddúddamía hvað eld-effektarnir eru óslípaðir og ljótir…). Segir sig annars vegar alveg sjálft að sviðshönnun, búningar, kvikmyndataka, litapalletta, klipping, hljóð, Holkenberg tónlistin og hugrakkur herfloti af áhættuleikurum; allar deildirnar í sínum besta gír.

Í skemmra máli; Fantagóð skemmtun og fínasta viðbót í klikkaðan myndabálk. Hún ætti alveg séns í Beyond Thunderdome á góðum degi ef ekki skarað fram úr henni, en snertir því miður seint bestu daga Millers.*

*Já, Babe: Pig in the City má alveg teljast þar með.

Besta senan:
Bardaginn á Byssubýlinu! Shi….

Sammála/ósammála?