Inside Out 2 er fínasta skemmtun en ber þessi klassísku merki Pixar framhaldsmynda í seinni tíð; hún hverfur grimmt í skugga forvera síns hvað tilfinningaskala og hugmyndaflug varðar. Hún fetar kunnuglegar slóðir með fáeinum nýjungum en sagan býr yfir ekki sömu ólgandi umhyggju fyrir umfjöllunarefninu og áður var. Kannski eru það leikstjóraskiptin, kannski skín bara fullmikið í gegn að gróði og brand-framlenging hafi drifið framleiðsluna frekar en áhætta og sköpunargleði. Gleyma skal því einmitt ekki hvað fyrri Inside Out var yfirgnæfandi fersk ef ekki frumlega útfærð þegar hún kom út fyrir níu árum.

Gleði, Reiði, Sorg, Ótti og Óbeit eru mætt öll á ný og reiðubúin að takast á við áskoranir Rileys á unglingsárunum. Lokasenur fyrri myndarinnar gáfu svo sem ekki til kynna að fleiri tilfinningafígúrur væru i boði í þessum teiknimyndaheimi (heldur bara stærra móðurborð í höfuðstöðvunum eftir því sem viðkomandi eldist) en markaðslega séð er mjög skörp ákvörðun að bæta fleiri karakterum við.

Öllum tilfinningunum til mikillar undrunar eru skyndilega fimm nýjar persónugerðar innri raddir komnar í spilið, eða komnar í slaginn um stjórnborðið, ef svo má segja. Nýju tilfinningafígúrurnar samanstanda af Áhyggju (e. Anxiety), Feimni (Embarrassment), Leiða (Ennui), Öfund og Nostalgíu (en Riley er enn of ung fyrir hana, svo hún liggur að mestu í dvala út myndina – sem er reyndar brilliant og viðeigandi ákvörðun, og eitthvað til að vinna með eftir fjölmörg ár).

Væri þetta allt saman ekki undir Disney-regnhlífinni myndi eflaust Gredda, Hormóna og Forvitni slæpast eitthvað um í höfði unglingsins, en við metum hráefnin sem í boði eru. Inside Out 2 dansar hvort sem er á þegar fínni línu þegar kemur að því að matreiða mýktina úr þeim þungu pælingum sem hér svífa um. Á blaði daðrar þessi saga við óhuggulega skugga en úrvinnslan er ógurlega meinlaus og lítt merkileg, en þá aðallega vegna þess að lítið er unnið úr þeim lofandi efnivið sem hérna um ræðir. Meinlaust er í lagi. Bitlaust er allt annað.

Hugmyndin að gera Áhyggju að andstæðingi sögunnar (og um leið draga Riley í gegnum algjöran kvíðasirkus) er frábær enda stemmir það fullkomlega við allt félagssressið sem fylgir upphafsstigum unglingsáranna. Áhyggja tekur við allri stjórn á meðan gömlu karakterarnir eru lagðir í útlegð og nýju persónurnar verða mjög meðvirkar/passífar. Þetta meikar sense í existentialísku samhengi en sagan mætti finna meira fyrir þær að gera. Þær eru þarna aðallega til skrauts, og leikfangasölu.

Það er samt ekki oft sem má segja um rándýrar teiknimyndir að það sem liggur undir í sögunni er hvort að 14 ára stúlka fái hreinlega masterklassa taugaáfall eða ekki. Rauði þráðurinn liggur í ævintýrum gömlu karakteranna að finna leið sína aftur í höfuðstöðvarnar áður en sjálfsmynd Riley hlýtur endanlegan skaða. Athuga skal þó að myndin er ekki nærri því jafn spennandi og hún hljómar, því meirihlutinn fer í enn eitt ferðalagið um heilabúið og flakk á milli annað hvort endurtekninga eða fyrirsjáanlegra klisjuþráða. Merkilega er líka langt á milli góðra brandara og lokauppgjörið leysist furðulega hratt og notalega. Þetta á reyndar við um langflesta vanda sem upp koma í söguþræðinum.

Í fyrstu myndinni var undirstaða boðskapsins að undirstrika mikilvægi sorgarinnar og hún getur gegnt stórri rullu í að styrkja gleðina á móti. Gleði leit á Sorg sem andstæðing og í raun erkióvininn og reyndi pínlega mikið að taka við stjórnina á Riley á meðan raunin var sú að Sorg var lítilmagni sögunnar og þá á móti Gleði gerð að hálfgerða fíflinu sem neyddist til að læra sína lexíu í gegnum erfiðu leiðina. Undir lokin sættust tilfinningarnar – og það var fallegt.

Áhyggja er þó vissulega og heppilega sprækur, æðislegur karakter (og Maya Hawke hefur fullkomna orku fyrir persónuna) og ber rakleiðis af. Það ristir ágætlega djúpt hvernig yfirtaka Áhyggju í höfuðstöðvunum og hrakspár hennar valda því að vont getur ávallt versnað. Sögugrunnurinn er sterkur, nema meirihluti myndarinnar kemur út eins og uppfyllingarefni með þreytulegum endurtekningum á framvindu fyrstu myndarinnar. Heildarsöguna hefði alveg mátt segja með 20 mínútna stuttmynd (að hætti Toy Story of Terror o.fl) og hefði hún örugglega getað orðið meiriháttar sem slík.

Það er einhver leiðinda ‘Inside Out’-Lite væbur á þessu öllu, eins og vissar stoðir séu á réttum stað en útkoman hálfbökuð. Það bætir ekki úr þessari tilfinningu þegar Bill Hader (Ótti) og Mindy Kailing (Óbeit) eru fjarverandi og Tony Hale og Lisa Lapira komin í staðinn. Með fullri virðingu til þeirra, þau eru ekki alslæm og finnur fólk auðvitað ekkert fyrir skiptingunni í íslenska talinu, en brandararnir eru jafn linir sama á hvoru talinu myndin er. Helsta undantekningin snýr að tölvuleikjafígúrunni Lance og 2D-teiknaðri buddu sem svipar til apparats úr eigum Dóru eða Diego.

Kjút teiknimynd er auðvitað kjút teiknimynd, en það er létt bömmandi að þurfa að lækka væntingar fyrir framhaldi á sögu Pixar myndar sem hafði einhvern auka kraft eða X-faktor við sig. Inside Out 2 er hlaðin geggjuðum pælingum og lúkkar vissulega fyrir allan peninginn en gerir samt á endanum þau helstu mistök að hafa lítið að segja með sögunni nema það sem fyrri myndin var löngu búin að dekka.

Vinsældirnar eru skiljanlegar sem og krafan eftir framhaldi, enda veisla af litadýrð og karakterdýnamík sem heillar yngstu áhorfendur í spað líkt og eftir pöntun, en hið sama má líka segja um ómælanlega stóran sarp af drasli á Disney+. En myndin er samt langt frá því að vera óbeit til áhorfs og nær að dreifa hugann nægilega með litadýrðinni og existential’ismanum út brattan lengdartíma.

Annars verður fjör ef við fáum að sjá Riley einhvern tímann á fullorðinsárunum, þegar Nostalgía fær loks að koma út úr herbergi sínu, ásamt (segjum) Fíkn, Flótta og Eftirsjá. Ef við verðum heppin.

Sammála/ósammála?