Línan á milli glamúrsins og gubbsins er gjarnan þunn í svokölluðu borg draumanna þegar kemur að listinni að skara fram úr. Hér segir frá ævintýrum ungrar konu í Hollywood á níunda áratugnum, en það er Maxine Minx* (Mia Goth) sem á sér stóra drauma um að slá í gegn í heimi fallega og fræga fólksins.
Hingað til hefur Maxine spreytt sig í klámiðnaðinum með lukkulegum árangri en hún þráir dáir og frama sem virt leikkona. Líf hennar breytist á svipstundu þegar henni er boðið að leika aðalhlutverkið í hryllingsmynd, framhaldi nánar til tekið sem nefnist The Puritan II – sem er sögð vera „B-mynd með A-hugmyndum“. Þá þarf Maxine að sýna hvað almennilega í henni býr en leiðin að tilvonandi velgengninni gæti reynst henni um megn þar sem dularfullur fjöldamorðingi gengur laus og virðist herja á ungar leikkonur.
Þetta er þó ekki fyrsta skiptið þar sem Maxine kemst í krappann við morðingja (*sjá stuðhrollinn X frá 2022) og eftir því sem spennan magnast bæði á tökustað og á götum borgarinnar þegar myrkur skellur á, er þá aðeins einn möguleiki í boði; að duga eða drepast.

MaXXXine leynir á sér; myndin er hvorki fullkomin né blæðandi af miklum frumleika. Hún gengur í raun alls ekki upp sem hrollvekja en hún býr reyndar yfir mörgum hverjum kostunum sem spegla sjálfa titilpersónuna; hvöss, fyndin, skemmtileg, óútreiknanleg á tíðum og með einhvern X-faktor sem gerir áhorfandann sama og límdan við skjáinn. Með öðrum orðum, MaXXXine er negla.
Þegar þau Ti West, Mia Goth og restin af teyminu lagðist í framleiðslu á ‘X’ bjóst varla nokkur manneskja við því að tveimur árum síðar yrði spunninn svo úr þessu fullbúinn þemaþríleikur, þá með forsögunni Pearl og nú framhaldinu MaXXXine, þar sem sérdeilis miklu er tjaldað til með stærra sögusviði, meira fjármagni, stærri leikhópi og meira flippi, ef til vill.

Myndin er alveg jafn prakkaraleg og subbuleg og hinar tvær þó að vísu ýktari en andrúmsloftið dressast aftur upp í ferskan stíl. Þríleikurinn hjá West er nægilega hróssins verður fyrir að koma Miu Goth í svona tryllt sviðsljós og nýta betri hliðar hennar, en svo er aukið gúrme í því hvernig hver kaflinn módelar sig eftir ólíkum áratugum og samsvarandi kvikmyndastílum hvers gefins tímabils. T.a.m. einkenndist Pearl af ákveðnu grand ‘50s og ‘60s Technicolor blæti, X með óð til ‘grindhouse’ mynda áttunda áratugarins með slettu af hinu ljósbláa í blóðrauðum stíl.
Með MaXXXine höfum við krassandi fínan Giallo-væb í bland við slashera og annars konar þrillera níunda áratugarins. Má heldur ekki gleyma hvað það er mikill heilagur haugur af tilvísunum, beinum og óbeinum, í ræmur eins og Hardcore (’79), Psycho II, Chinatown, The Bird with the Crystal Plumage, The Burning Hell og fleiri. Vænn skammtur af satíru á iðnaðinn saltast síðan yfir þetta allt saman.

Goth stendur algjörlega fyrir sínu (fyrirsjáanlega svo, í raun, svona á þessu stigi), en að sinni er hún umkringd algeru partíhlaðborði af fjölbreyttu liði. Í þessu teiti eru akkúrat þau Kevin Bacon, Elizabeth Debicki (alveg brilliant sem hálfgerð rödd leikstjóra myndarinnar), Giancarlo Esposito, Lily Collins, Moses Sumney, Michelle Monaghan og Bobby Cannavale, svo dæmi séu nefnd. Öll eru svei mér velkomin og hafa einhverju við að bæta þó segjast verði að Esposito er ótvíræður senuþjófur ræmunnar í hlutverki svalasta umba á kvikmyndatjaldi fyrr eða síðar, með tvímælalaust bestu línuna. Það er eiginlega býsna mikið sagt þar sem fjandans hellingur af gullnum frösum falla hérna vinstri og hægri. Bacon sóar heldur ekki skoti og ber öll þau merki um að skemmta sér eins og krakkalingur í hlutverki einkaspæjara og erkiskíthæls.
Þrátt fyrir allan faglega hamaganginn er Pearl án efa sú sterkasta í þríleiknum sem um ræðir; enda mest júník og tennta sagan frá þessu framleiðsluteymi. MaXXXine gefur þó X lítið eftir og styrkjast báðar einingarnar þar svo úr verði meira heildstætt verk. Veikust verður sagan í formúlubundna klæmaxinum, fyrirsjáanlegri (og umdeilanlega ódýrri) afhjúpun á tvisti að auki, en hún rífur sig hratt upp frá því í grimmdarlega góðum eftirmála, ef þannig mætti orða það.
Tíu rokkstig fara líka til ákveðinnar senu sem gerist í húsasundi. Bæði skondin og ógeðsleg, sem og ógeðslega fyndin. Þannig er Maxine sjálf eiginlega í hnotskurn. Hún leynir nefnilega helvítis slatta á sér og lætur engin velsæmismörk eða ókristilegar athafnir stöðva sig. Gott í’essu.







Sammála/ósammála?