Snerting Baltasars Kormáks eftir sögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar beinir sviðsljósinu að hinum sjötuga Kristófer. Egill Ólafsson fer þarna með lykilhlutverk ekkilsins sem leggur fyrirvaralaust í ferðalag þegar Covid-faraldurinn er skollinn á, í von um að finna skýringu á því hvað orðið hafi um kærustu hans sem hvarf sporlaust frá London heilum 50 árum áður. För hans leiðir hann yfir hálfan hnöttinn og alla leið til Japans.

Þú finnur varla grárri, íslenskari fiðring en þetta á hvítu tjaldi, nema til móts við hefðirnar okkar vinnur Snerting minna með skugga og depurð og meira vonarneista í ró ellinnar. Hér er um að ræða litla dúllulega dramedíu sem hefur það að lykilmarkmiði að hreyfa við áhorfendum (e. snerta, vitaskuld) með ljúfsárum litlum sýnisdæmum um breyskleika lífsins, einmanaleika, söknuð og óuppgerð mál, allt með einlægnina að vopni.

Það er meira en nóg um snertingu í útkomunni, bæði táknræna og bersýnilega, en of mikið tómarúm í innihaldinu til að hughrifin skili sér. Að skauta yfir víðan skala af tilfinningum í dramanu er ekki það sama og að mastera þær undir eina hlíf. Að gefa þemun í skyn er ekki það sama og að sjóða þeim saman áreynslulaust við söguna. Að fórna dýpt með stafa allt út eða segja það beint með einræðum og hástöfum til að minna sé eftir til túlkunar gerir það erfiðara fyrir þróun framvindunnar að ná lendingunni. Minimalísmi í persónudýpt er heldur ekki alltaf samasemmerki á að ‘minna-er-meira’ nálgunin gangi alltaf upp.

Það sem á yfirborðinu virðist vera raunsæ, trúverðug, upplífgandi og existentialísk saga af sjálfi, tómleika og langþráðu uppgjöri, leysist merkilega hratt í léttkrydduð þunnildi á sniglahraða. Styðst líka beinagrind sögunnar oft við illa þræddar endurlitssenur og hefur myndin ofsalega lítið að hnoða úr þemu sínum og enn síður með eitthvað merkilegt að segja, annað en að kalla eftir klappi og ‘aww’-hrifum – en þá án þess að unnið sé almennilega fyrir þeim. Hápunktarnir eru þarna en hanga ekki saman þegar tengipunktar eru svona sundurslitnir og óskýrir.

Kristófer er fjarri því að vera grípandi eða spennandi persóna; sympatísk á vissan hátt, svo sannarlega, en leggur í grunninn að leitinni að abstrakt kraftaverki – sem á fullkomlega eftir að gera upp fortíðarsjálf og samband hans – og í vegi hans verða skuggalega fáar hindranir né áskoranir. Rauði þráðurinn snýr þarna allur að forsögunni og í senn ástarsögunni á milli Kristófers og Miko, stúlkunnar sem síðar bara ‘hvarf’. Nema hvað að þetta eru tómar svipmyndir í krúttbúningi.

Aðrir minniháttar smáþræðir í sögunni koma líka hreinlega og fara án þess að mikið sé með litlu sagt eða nokkur skýring eða dýpt fylgi, þá með persónur eins og til dæmis stjúpdóttur Kristófers og fyrrum eiginkonu. Það er eins og senum og áherslum sé dreift til að pipra þarna einhvers konar merki um dýpri innsýn í hugarheim og fortíð Kristófers, en þá verður gagnstæð útkoma úr þessu í staðinn. Mætti þar að auki salta inn meiri innsýn í japanska menningu, en hún – rétt eins og veirufaraldurinn – fellur að mestu bara í bakgrunnsmóðu.

Mögulega er önnur raunin í bókinni sem myndin er byggð á, án þess að undirritaður hafi lesið hafa, en varla kemur annað til greina en að ferðalag og fortíðarmyndir Kristófers hafi tekið þar skýrari eða dýpri mynd. Neita skal þó ekki að kvikmyndataka og leikmynd rammar afbragsðvel inn vissa berskjaldaða hlýju í andrúmsloftinu og Egill verður blessunarlega aldrei leiðinlegur til áhorfs, sama hvort að persónan hitti í mark eða ekki.

Vissulega er þetta þrusuflott rulla fyrir Egil og ekki amalegur svanasöngur fyrir leikarann af frammistöðunni berri að dæma, en ósköp lítið meira en það. Egill er glæsilega trúverðugur í heldur tómlegri rullu, en gallinn gildir ekki síður um yngra módelið af Kristófer, í túlkun Pálma Kormáks Baltasarssonar. Leikarinn fær prik fyrir ákveðna útgeislun í formi viðkunnanlegrar nærveru en hefur enga nægilega vigt til að vinna með. Kemistríuna í samleik hans við hina japönsku Kōki (Miko) vantar einnig og er þungu lofti lík. Á þeim nótum er Miko óumdeilanlega allra athyglisverðasta persóna sögunnar en fær afskaplega lítið pláss í sögunni til að skilja eitthvað eftir sig.

Fyrir Baltasar er hún hressandi tónabreyting, miklu hugljúfari og opnari í atmóinu og mannúðinni heldur en venja hefur verið hjá honum (oftar en ekki hefur ‘maður gegn náttúru’ verið ríkjandi hjá honum). Ég get allavega samviskusamlega fullyrt að amma mín á eflaust eftir að elska þessa mynd. Hvort sem hún sofnar yfir miðbikinu eða ekki, hún missir ekki af miklu. En henni mun eflaust líða ögn hlýrra í sálinni eftir hana og fyrir það er ég Snertingu Balta sæmilega þakklátur.

Sammála/ósammála?