Sjaldan hefur það talist til vinsællar skoðunnar sl. 28 ár að kalla upprunalegu Twister eitthvað geysilega góða kvikmynd. Enginn hefur heldur sóst í þá mynd fyrir lummulega dramað og býsna einhliða (þó kostulega litríka) karaktera, heldur er það hreinlega óveðrið sem áhorfendur sækjast í, með tilheyrandi rússíbana af stormum, rauðum viðvörunum og bókstaflega urrandi skýstrokkum – sem í þessu tilfelli eru nánast slasher-morðingjum líkastir. En það er tilgangurinn, spurningin er hvort viðkomandi nái að fjúka með fjöri intensífa sjónarspilsins eða ekki. Það á heldur ekki fræðilega að vera of erfitt að fokka þessu upp.
Fræðilega.
Fyrir mitt leyti svínvirkaði Twister og tókst Jan De Bont leikstjóra og leikaraveislunni að bragðbæta upp á dýnamíska þeysireið af bjánaskap. Aukaprik fékk hún líka fyrir að varpa skemmtilegu ljósi á ‘stormaelta’ (e. storm chasers) og gerði hún circa fyrir jarðeðlisvísindi það sem Jurassic Park gerði fyrir starfssvið steingervingafræðinga, og urðu þeir þar af leiðandi ögn svalari hjá meginstraumnum. En ólíkt Jurassic Park, þá hefur Twister aldrei fengið þessa bílveltu af bjánalegum dælingum framhaldsmynda – og merkilegt nokk er nú Twisters – sjálfstæða framhaldsmynd Twister og undir yfirborðinu óbein endurgerð hennar – jafnvel framleidd af þeim sömu og færðu okkur allt sem kallaðist Jurassic World. En aftur, þessu ætti ekki að vera svo erfitt að klúðra ef markmiðið snýst í kringum vont (þ.e.a.s. nánast illkvittið) veður og eyðileggingar.
Twisters sinnir markmiði sínu bærilega; þó sitt sýnist alltaf auðvitað hverjum um hvað trekkir upp taugarnar í vissum hasaratriðum. Myndin er samt býsna hræðilegt framhald og ferlega lin (og feimin) endurgerð; framhaldsvinkillinn hrynur þar sem Twisters er sama og ekkert tengd við ‘96 myndina – nema ein og ein tilvísun hér og þar – og ekkert síður feilar myndin sem framhald, sjálfstætt eða ekki, þegar sögugrunnurinn, uppbyggingin og í sjálfu sér allur hryggur myndarinnar er nákvæmlega eins og helstu persónur voru leiknar af Helen Hunt og Bill Paxton, en ekki Daisy Edgar-Jones og Glen Powell. Blessunarlega breytir handritið smávegis til í lokaþriðjungnum en skilar heldur ekkert af sér neinni þrumu svo sem. Auk þess er það ekkert sérlega gott lúkk þegar upprunalega ‘90s myndin virðist bjóða upp á trúverðugri brellur að mestu heldur en spánýja og glansandi eintakið.

Leikstjóri þessarar gæsalappa-framhaldsmyndar er Lee Isaac Chung, sem gerði t.a.m. hina stórgóðu Minari, skarar ekkert ferlega fram úr í stórslysageiranum af þessu að dæma. Twisters er þokkalega vel gerð og skín betri leikstjórnin auðvitað best í gegnum hljóðlátari, næmnari, væmnari og nánari samtalssenur – nema þegar skrifin á samtölunum verða eitthvað óvenju stíf. Það gerist, en Chung er greinilega fagmaður og selur stærðina á ruglinu þegar ringulreiðin skellur á, þó leitt sé að vísu hvað tónlistin eftir Benjamin Wallfisch (It, Blade Runner 2049 ofl.) er fjandi óeftirminnileg. Það telst til gulrar viðvörunar.
Edgar-Jones er þokkaleg en litlaus í öðru aðalhlutverkinu. Persóna hennar ætti að vera miklu meira spennandi á blaði en reynist síðan bara vera flöt samsuða af Hunt og Paxton úr fyrri myndinni; sum sé persóna sem bæði hefur áfallatengda reynslu af EF-5 skýstrokk auk þess að búa yfir náðargáfu um að geta lesið í veðrið. Powell hefur mátulega útgeislun en það virðist meira vera punt upp á púkalega þurran, langsóttan og flekklausan alfa-karakter. Til að bæta gráu ofan á svart ský á Twisters það ekki sameiginlegt með forvera sínum að leyfa aukapersónum að poppa meira út. Þau Maura Tierney, David ‘Superman’ Corenswet og Anthony Ramos enn fremur fá ekki úr miklu að boða og lítið úr karakterum þeirra gert nema peppa eða lesa yfir aðalpersónurnar tvær.
Það er notalegur gamla-skóla-fílingur á myndinni þó svo að lúkkið sé heldur kalt og staðlað. Það er meira væburinn sem hún gefur. Annars er merkilega lítið í boði hérna sem fyrri myndin afgreiddi ekki áður eða betur. Hægt er að sjálfsögðu að njóta Twisters á eigin spýtum, en það er fjarri því að vera ósanngjarnt að bera hana saman við upprunalegu ræmuna þegar hún fótar sig svona gífurlega mikið í spor hennar. Í staðinn reynist hún svo bara hverfa í skugga hennar, að fáeinum ágætum sprettum frátöldum. En rússíbanar eiga að vera meira en bara sprettir nokkrir.







Sammála/ósammála?