Mikið óskaplega er alltaf fúlt þegar ómerkilegar og froðukenndar bíómyndir eru gerðar um stórmerkilegt og forvitnilegt fólk.

‘Bíopic’ sögur af tónlistarfólki þurfa oftast að leita langt út fyrir taktfasta og örugga mótið til að úr verði hægt að hnoða úr heildinni eitthvað annað en sundurslitna frásögn þar sem hoppað er yfir helstu punkta í lífi tónlistargoðsins sem um ræðir. 

Tökum örsnöggt dæmi um nokkrar lítt merkilegar úr umræddum flokki; Selena, Walk the Line, Ray, Get on Up, Straight Outta Compton, Jersey Boys, Bohemian Rhapsody og ýmsar fleiri velja oftast áhættulausu leiðina að strípa niður flókinni mannsævi og líf tónlistarmanns svo úr verði þriggja-þátta narratífa (og oft gert með Óskarsgljáa til að punta upp á sjálfumgleðina). Í besta falli eru svona myndir áhrifaríkar og jafnvel upplífgandi eða tenntar, allavega þessar sem ‘þora.’ Í versta falli gegna svona tékklista-ævisögumyndir engum öðrum tilgangi en að kasta rándýru sviðsljósi á leikarann í burðarhlutverkinu. 

Síðan höfum við annars konar kvikmyndir þar sem minni áhugi aðstandenda er að hlaupa yfir og innpakka heilum feril eða heilli ævi, og reyna í staðinn að fanga ákveðinn kjarna, helst hreinskilna birtingamynd með svigrúm fyrir túlkunum höfunda til að setja eigin stimpil á krufningu viðkomandi. Þarna koma upp myndir eins og I’m Not There, The Doors, Blaze og jafnvel Amadeus eða Nowhere Boy upp í hugann. Meira að segja ‘Hollywood’ mynd eins og Rocketman tókst glimrandi vel til með að breyta sínu umfjöllunarefni í yfirdrifinn söngleik. 

Svo stangast á tíðum umfjöllunarefni ólíkra verka á með hinum; til dæmis er Elvis kvikmynd Baz Luhrmanns blanda af sölufögnuði og eymdarklámi (án þess að þora að gera Elvis sjálfan of óviðkunnanlegan, þannig að ýmsu um hann var sleppt eftir hentisemi). Hins vegar var Priscilla kvikmyndin frá Sofiu Coppola mun beittari, kaldari, átakanlegri, umræðuverðari – en sú mynd var heldur ekki gerð til að gera eftirlifendum Elvis Presley til geðs. 

Góð þumalputtaregla með bíómyndir um sögulegt listafólk og hvort líklegt þyki að nálgunin verði einlæg og veiti enga afslætti, er þá skynsamlegt að kanna hvort umræddur listamaður eða einhver tengdur slíkum sé nefndur í kreditlistanum sem framleiðandi eða ekki. Sumir hafa átt til að endurskrifa eigin sögur. Ímyndið ykkur hvernig Straight Outta Compton hefði t.d. komið út og þeim mun meira djúsí ef Dr. Dre og Ice Cube væru ekki yfirframleiðendur. Sama saga með Roger Taylor og Brian May og aðkomu þeirra á Bohemian Rhapsody; hvernig þeir augljóslega yfirsáu Disney-væðinguna á legasíu hljómsveitarinnar Queen.

Þá að aðalmálefninu; Amy Winehouse.

Það er ekkert – nákvæmlega EKKERT – í Back to Black að finna sem ekki er betur yfirfarið og af meiri harmleik, lífi og dýpt í heimildarmyndinni Amy (2015). Á eigin spýtum, óháð listrænu leyfi og sem saga um meingallaðan (og ástsjúkan) einstakling sem kvaddi of snöggt og bjó yfir sannri náðargáfu í tónlistinni, er myndin viðráðanlega vatnsþynnt en heldur ágætum dampi í rennslinu sökum þess að breska nýstirnið Marisa Abela er gjörsamlega andsett af Winehouse í aðalhlutverkinu – og það fylgir efniviðnum sá kostur að músíkin er bara afskaplega grípandi. Eðlilega.

Sama hvað mátti segja um söngkonuna, hvernig sem þótti mesta sportið að gera neyslu hennar að brandara pöpulsins, mun varla hin stakasta manneskja þvertaka fyrir það að Amy Winehouse gat svo sannarlega sérdeilis sungið! 

Abela nær með ólíkindum vel að ná tökum á raddböndunum enda er það að mestu rödd leikkonunnar sem við heyrum í myndinni). Líkamstjáning og raddbeiting hennar verður af og til angandi af rembingi, enda erfið lína oft að reyna að fanga réttu takta manneskjunnar í raun en án þess að frammistaðan stýrist af hreinni og beinni eftirhermu.

Aftur á móti gerir Jack O’Connell hið öfuga; hann er ekki límdur við eftirhermu og nær ef til vill að mjólka meiri óvæntum sjarma og mannúð úr Blake heldur en innistæða var fyrir í handritinu. Það næsta sem líkist einhverjum kjarnaþræði í efnistökunum liggur í þyrnum stráðri ástarsögu Amy og Blake. 

Ef þú ert/varst aðdáandi söngkonunnar eða með lágmarks innsýn í gangverkin á bakvið tjöld hennar lífs, þá er Back to Black hvorki þematískt að fara að vekja einhver hughrif né samantektin að ná einhverju markmiði að segja eitthvað nýtt; koma með einhverja alvöru túlkun í stað þess að vera auglýsing. Það hversu þunn og mikil ‘vara’ þessi kvikmynd virðist vera virðist lítið hugga til um annað en að hér sé verið með ódýrasta, snyrtilegasta hætti verið að græða á hennar legasíu og harmleik. Enn og aftur. Góðar kvikmyndaðar ævisögur um tónlistarfólk grandskoða hvað lætur viðfangsefnið tikka. Ekki þessar sem bera sig eins og aðalmarkmiðið sé að selja gamlar plötur í nýjum umslögum.

Ef áhorfandinn veit sama og ekkert um líf og lastir Amy Winehouse, annað en þetta helsta sem slúðurblöðin matreiddu í denn um neyslu hennar og (segjum) viðburðarríka ástarlíf, er merkilega lítið sem Back to Black getur frætt um söngkonuna annað en fáeinir hlutir sem rétt snerta yfirborðið. T.a.m. að hún vann mikið með föður sínum, djúsaði og sukkaði mikið, náði ómælanlegri velgengni með hæfileikum sínum og lét lífið allt of ung. Ef leitast er eftir einhverju bitastæðu um líf Winehouse, rödd, einlægu tjáningar með tónsmiðum sínum, innsta hring hennar af fólki sem hafði ýmis konar áhrif á líf hennar, jákvæð eða neikvæð, verður þá að leita frekar upplýsinga á netinu eða kíkja á áðurnefndu heimildarmynd. 

Prinsipp þessarar bíómyndar – og ekki síður undir taumi Sam Taylor-Johnson (Nowhere Boy, Fifty Shades of Grey, A Million Little Pieces) – er að halda fröken Winehouse á sínum stalli og tilfinningamjólka harmleikinn. Ef Amy Winehouse er eingöngu sem aðalpersóna þessarar bíómyndar, þá er ‘óreiða-en-greinilega-hæfileikabúnt’ með betri lýsingum sem má finna.

Viðeigandi væri líka að líkja flæði bíómyndarinnar saman við 8+ klukkutíma mini-seríu sem hefur verið klippt niður í agnir með vonir um að gengið hafi frekar upp að sigta út eitthvað ‘highlight reel’. 

Taylor-Johnson er yfirleitt fantagóð með leikara nema þegar allir súbtextar og tilfinningaþræðir eru öskraðir út í salinn; leikstjórinn sér til þess að neytandinn fái fínslípaða (þ.e.a.s. ágætlega kvikmyndaða) bíómynd sem gegnir sínu hlutverki. Raunasagan um erfiði og fráfall Winehouse er nægilega dramatiskur efniviður til þess að öruggt sé að hnoða léttsykraða tárabeitu úr þessum gjörningi. En flatt tribjút er ekki nóg til að bera uppi góða kvikmynd í efnistökunum þegar lítill áhugi er fyrir því að kjöta þau aðeins. 

Merkilegt nokk tókst handritshöfundinum Matt Greenhalgh áður að koma með sérstæðan vinkil á sögu um John Lennon, og þá einmitt í myndinni Nowhere Boy frá sama leikstjóra.

Framleiðendur myndarinnar hafa greinilega viljað að við hugsum hlýtt og fallega til einnar mögnuðustu söngkonu okkar samtíma, en á kostnað þess að þora síður að daðra við dekkri hliðarnar á máta sem myndi samsvara raunheiminum betur. 

Aftur, listrænt leyfi er sjálfsagt og í góðu lagi, en þegar sagan sem á að sýna karakter og listir manneskju eins og Amy Winehouse er strípuð niður í söluvænustu agnirnar, er það undir aðstandendum komið að eiga við sig hvort lokaútkoman hafi verið ætluð til að heiðra snilling eða græja egóstig á framleiðendur og eins konar þátttökuverðlaun í þokkabót. Þegar temmilega vel unnin framleiðsla og vel leikin ræma eins og þessi vekur upp svona mikið óbragð í hugmyndaleysi og gefnum óheiðarleika í nálguninni. Óbragðið og jafnvel óheiðarleikinn væri í fínu lagi sem viðbragð við Back to Black ef væri að minnsta kosti einhver vinkill eða skýr stefna í narratífunni. 

Notist aðeins í neyð, eða flugvél og ef einhver tæknileg mistök hafa hindrað möguleikann á að kíkja á betri mynd. 

Sammála/ósammála?