[Engir spoilerar hér. Engar áhyggjur]
Ef hægt væri að kalla Spider-Man: No Way Home hálfgerða árshátíðarmynd Spider-Man-seríunnar frá Sony, þá er Deadpool & Wolverine líklega einhvers konar innflutningsveisla og í senn rándýrt kveðjupartí. Bæði er hér verið að bjóða Deadpool velkomnum inn í Disney-MCU heiminn auk þess að kveðja X-Men-syrpuna frá Fox (þá væntanlega með meiri látum og flippi en t.d. Logan gerði) áður en endurræsingin óhjákvæmilega tekur síðan við.
Skuggar Jarfa yfir Deadpool-seríunni hafa alltaf verið skýrir, þannig að alltaf hefur verið tímaspursmál hvenær þeir myndu loks sameinast á skjánum. Hugmyndin um ‘buddy/vegamynd’ með Deadpool og Jarfa á flakki þeirra um fjölheimana hljómar eins og efni í eðalfjör sem þó í grunninn veltur á tvennu; Í fyrsta lagi hvort að þeir Ryan Reynolds og Hugh Jackman eru í banastuði eða ekki (en þar er vart við öðru að búast), og hvort allri myndinni takist að viðhalda fyndninni eða ekki. Sem fyrr þá tröllríða ‘einkabrandararnir’ hérna, en varla eru það einkabrandarar ef þeir eru gíraðir að helstu Marvel aðdáendum og þannig upp settir (sumsé blatant) að meirihlutinn nái þeim?

Deadpool stærir sig gjarnan af listinni að rjúfa fjórða vegginn, þá venjulega til að gera grín að framleiðslunni, Marvel sundur saman eða stafa brandarana betur út. Að vísu kemst handritið ekki síendurtekið upp með sjálfsmeðvitundina þegar nóg er um úldnar klisjur í skelþunnri sögu með frekar glötuðum skúrkum. Virðist nefnilega sem að karakterinn hafi dregið með sér flesta föstu fylgikvilla MCU-mynda í flutningunum frá Fox, frekar en hið öfuga þar sem innkoma karaktersins fær að hrista duglega í formúlunni og ef til vill koma á óvart á sviði sem býður ekki endalaust upp á orðin „Sjáið hvern við fengum (í gestahutverk)!“
Það má svo sem setja RISAstórt spurningarmerki við það hvort Deadpool & Wolverine skauti á gimmick’i sínu einu og hversu illa margt af þessu á eftir að eldast í framtíðinni. Jafnvel væri fínt ef blóðsúthellingarnar bæru ekki svona greinilegan tölvugerðan gljáa við sig, því ofan á það er erfitt að hugsa sér hvernig þessi bíómynd kostaði í kringum 200 milljón dollara. Í brellum og umfangi er þetta trúlega best útlítandi Deadpool myndin og má alveg finna fyrir reyndum ef ekki öruggum taumum leikstjórans á geðveikinni. Þá leikstjóra sem hefur fram að þessu ekki ofsalega sterkar grínmyndir að baki.

Vinsældir og aðdráttur kvikmyndagerðarmannsins Shawn Levy er stundum hulin ráðgáta þó maðurinn eigi það í farteskinu að vera fínn með hasar, stóra leikhópa og vissan glans (sjá Real Steel, Free Guy og Stranger Things). Levy er hérna titlaður með Reynolds og handritsteyminu, en þetta samstarf hefur skilað honum fyrstu kómík negluna að mati undirritaðar, en það þarf einmitt að draga andann nokkuð djúpt þegar slakari grínsarpur hans er upp talinn (t.d. Just Married, The Pink Panther (2006), Date Night, Night at the Museum 1-3, The Internship og fleiri bragðlausar).
Deadpool & Wolverine smellur allavega merkilega vel saman, annars vegar síður sem formúlukennda ofurhetjufroðan sem hún er, hins vegar meira svo sem pjúra grínmynd sem trollar af ást. Í útkomu er með naumindum að kjafturinn, klærnar, subbuskapurinn og shout-out’in öll hjá karakterunum þynnist út allsvakalega. Þó það sé auðvitað Deadpool sjálfum líkt að bera bæði fram fínu kökuna sína og éta hana – til dæmis með því að gera svona hressilega grín að ofurhetjugryfjum sem myndin stígur síðan í sjálf – þá yfirstígur þessi bíómynd helstu galla sem fylgja svona nostalgíurunkmyndum (t.a.m. Multiverse of Madness, The Flash ofl.). Tekst henni það þá aðallega með glettninni, hnyttninni, frábæru músíkvali og ákveðnum ófyrirsjáanleika í sprellinu. En Deadpool & Wolverine gengur fyrst og fremst upp fyrir mitt leyti vegna þess að Reynolds og Jackman slá hvergi feilnótu með því að vera svona hispurslaust TIL Í ÞETTA.

Því miður gildir þetta ekki um alla á skjánum og sumir eru sama og sofandi í sínum (heilt yfir flötu) gestainnkomum. Aðeins einn ‘óvissuleikari’ kemur inn í logandi góðum gír og hleypur burt með hálfa myndina. Einn af styrkleikum handritsins er þó viðhorfið fyrir því hvað ekkert er heilagt og hvernig það deyr aldrei neinn í ofurhetjusögum.
Deadpool & Wolverine hefur þann væb við að vera soddan ‘edgelord’-draumur ef út í það er farið, en til allrar ánægju er aðeins meira fútt og bit í henni en ber fyrst að halda. Það hlýtur þó að vera vænn hængur þegar lífslærdómur Deadpools og boðskapur er venjulega sá sami í hverri mynd. Á móti þykir mér rosalega erfitt að taka ekki á móti bíómynd með opnu faðmlagi sem notar Like a Prayer með Madonnu við hápunkt lokasprettsins. En aftur, ef væri um almennilega andstæðinga í þessari sögu í boði, hefði ræman getað orðið frábær. Jafnvel einhverja sögu, ekki eingöngu lauslega tengda plottpunkta.

Reynolds og Jackman eru samt með svo náttúrulega kemistríu sem fullkomlega nær að innpakka alla kaótíkina og vitleysuna í farsann sem leyfir þeim einnig að luma einlægni úr sér inn á milli. Að venju hefur alltaf gengið eitthvað erfiðlega með að fókusera á hjartað í Deadpool myndum og taka persónusköpunina alvarlega, en Levy nær með einhvjerum djöfulsins ólíkindum að smala mýktinni í mennina sína þegar kallað er eftir slíku. Auk þess einfaldlega bara meinfyndnir saman.
Deadpool myndirnar eru nánast orðnar það næsta sem kemst að klassískum spoof-dellumyndum að hætti Abrahams og Zucker-bræðra í denn; eitthvað meira í anda Hot Shots fyrir ofurhetjusyrpur en margt annað; sum sé algjört partí, ekkert skiptir í raun máli nema fílingurinn og djókarnir. Og ef viðkomandi líður eitthvað skítugum eftir þessa mynd, þá er það fullkomlega eftir hönnun, enda ákveðin stemning í því líka.

PS. HJÁLPI MÉR hvað ég næ ekki að losna við Bye Bye Bye með N*SYNC úr heilanum.
En ég fíla’ða.






Sammála/ósammála?