Kingdom of the Planet of the Apes fylgir fastri hefð stórmynda með að framlengja lokaðri trilógíu og á bæði að vera núllstilling og lauslegt framhald, en þó áframhaldandi kafli í vinsælli seríu (e. Soft reboot, skilst mér að sé við hæfi hér). Fjarkinn er nefnilega alltaf snúinn en yfirleitt í þeirri venju að núllstilla þegar þríleikum er lokið (sjá Transformers, Jurassic Park, Pirates of the Caribbean, Jason Bourne, Ocean’s 8 ofl.) og hefur ástríða fyrir gefnum framlengingum verið happ og glapp. En hér höfum við forvitnilega sjálfstæða framhaldssögu á ‘Caesar-þríleiknum’ með Andy Serkis í sögulega burðarhlutverkinu (og jeminn heilagur hvað Dawn of… og War for the Planet of the Apes eru frábærar myndir) þar sem gáfulega er nú búið að flytja sögusviðið nokkrar aldir fram í tímann.
Löngu eftir valdatíð Caesars eru apar nú (loksins?) ráðandi dýrategund Jarðarinnar og búa í samlyndi við menn sem hafa dregið sig í hlé. Á sama tíma og nýr herskár api byggir upp veldi sitt, heldur ungi apinn Noa af stað í krefjandi ferðalag sem lætur hann efast um allt sem hann vissi um fortíðina. Þetta ýtir á hann að taka ákvarðanir sem skilgreina munu framtíð bæði apa og manna.

Öruggt er að fullyrða að bestu Apaplánetumyndirnar (sem eru orðnar 10 núna með gömlu seriunni, Caesar-þríleiknum og ‘endurgerðinni’) hafa alltaf verið þær sem setja hugmyndir og ádeilu í forgang yfir nokkurs konar sjónarspil. vill svo til að Tim Burton stórlega misskildi einmitt þetta memó í denn. Allur hasar ætti helst að stemma frá sögunni (í stað þess að þræða kúl brellusenur við einhverja bla beinagrind) eða karakterum öllu heldur og karakterarnir þurfa svigrúmið til að anda og tengjast frekar en að hoppa á milli sprengjusena og eltingarleikja. Þetta er grunnlingóið sem Kingdom of the Planet of the Apes virðist skilja 100%, enda myndin fyrst og fremst drifin af söguframvindu, stórum litlum flexum af hinni ótrúlegustu brellutækni, skilaboðum og sál í sinni ævintýraþrá.
Leikstjórinn Wes Ball (sem á sinn eigin (bitlausa) þríleik að baki, þ.e. Maze Runner-myndirnar) virðist algjörlega óhræddur með að leika sér að hægum bruna í byggingunni til að aftari helmingurinn hafi meira vægi og alvöru þungavikt. Hann reiðir sig ekki á lint melódrama til að strengja saman stærri ‘set-piece’ senur og pakkar prýðilega inn umhyggjunni helstu nýju karakterum. Þegar allt er annars ofantalið er lykilmarkmið þessa innslags að sá fræjum fyrir nýja seríu, sem þýðir að endastöðin að sinni verður aldrei nein bomba, en lykilatriði er að Ball tekst ansi hreint vel að vinna úr hverjum þeim spilum sem hann hefur, því varla voru spilin sérlega góð þegar hann lagði af stað í verkefnið.

Ekki er Ball aðeins að fylgja eftir nokkuð traustri trílógíu heldur samtímis hangir það svolítið á herðum hans að tala sitt mál fyrir því hvers vegna Apaplánetan ætti raunverulega að halda áfram eða ekki (innskot: Hey, muniði eftir hvernig önnur myndin í gömlu seríunni endaði? Þar sem plánetan barasta SPRAKK!). Kaflinn að sinni nær markmiði sínu með að vera grípandi og skemmtilegur en er líklegri til að hverfa úr minnisbúinu hraðar en þegar betri dagar Caesars voru á boðstólnum.
Flæðið á Kingdom svipar reyndar merkilega mikið til War – með fáein ágreiningsatriði úr Dawn stráða yfir – nema bara með töluvert lægra skor á tilfinningakvarðanum. Það er helsti hængur annars býsna fallegrar og flottrar sögu hjá Ball og hans teymi; myndin nær ekki alveg föstum gripum á dramanu, og óneitanlega er gæðahrapið frekar blatant þegar síðasta mynd seríunnar hafði Matt Reeves við stjórnvölinn, Michael Giacchino með músíkina og Andy Serkis með ósigrandi stórleik. Þar að auki verður Kingdom að pínu líða fyrir það að hún er ekkert að feta neitt kvikindislega nýjar slóðir hvað þessa myndaröð varðar.
Samfélagsádeiluna vantar þó ekki og kemur sagan að sinni inn á málefni eins og blint fylgi á leiðtoga, trúartákn, mistúlkun á ‘trúarritum’ og hvernig sagan á það til að vera endurskrifuð af valdaaðilum. Þeir þræðir eru að vísu meira til uppfyllinga og ekki beinlínis lúmskir en gefa þó áhorfendum meira til að gramsa eftir og ræða.

Það er erfitt að komast hjá því að hamra enn eina ferðina á tæknilegri þróun tölvubrellna þegar kemur að þessum smáatriðum í tölvugerðum dýrum sem stöðugt verða tilkomumeiri og byltingarkenndari. Þess vegna kemur það alveg núll á óvart hvað Kingdom of the Planet of the Apes lítur frábærlega út í brelludeild sem og hönnun. Það þarf enn að píra augun til að finna ekki (Uncanny Valley-)‘saumana’ en það er hvort sem er tímasóun að spá í saumunum.
Myndin er heldur ekkert að fronta eða flexa þessa tölvuvinnu að óþörfu. Hún er þarna bara og fylgir sögunni, og smáatriðaríku persónurnar verða þeim mun trúverðugri og eðlilegri þegar mynd af þessu tagi spilar með sniglahraða í atburðarásinni. Meira að segja helsti andstæðingur sögunnar, Proximo Caesar, dúkkar ekki fyrst upp fyrr en rúman klukkutíma inn. En þeim mun eftirminnilegri verður innkoman allavega. Kemur reyndar meira á óvart að minnisstæðasta persónan að sinni skuli vera mennsk, þá nýja ‘Nóvan,’ eða Mae, sem Freya Allan leikur. Einnig er óborganlegur órangútan að nafni Raka sem hefði mátt fá meiri skjátíma.
Stundum gerist það þegar hráefnin öll raðast fullkomlega snyrtilega saman án þess að útkoman sé eitthvað framúrskarandi eða í senn sterkari en röð sinna eininga. Þetta á svo sem mátulega við Kingdom of the Planet of the Apes. Hörkufín mynd sem kemur öllu sínu að mestu ágætlega til skila, en losnar ómögulega við samkeppnina að níu bíómyndir á 60 árum hafa örlítið forskot á skilaboðin og tilfinningatogið sem hér yfirgnæfir heildina. Kannski muni tíminn leiða í ljós hvort Kingdom fúnkeri best sem stórfínn eftirréttur síðustu myndar eða flottur forréttur þeirrar næstu – líkt og Rise var á sínum tíma. Heppilega stendur hún líka þokkalega sjálfstæð og skarar Kingdom vissulega úr sumarúrvali bíómynda þetta árið.
Hvort það segi meira um sumarúrvalið eða þessa tilteknu mynd er vissulega góð og gild spurning.







Sammála/ósammála?