Það er klárt mál að óvæntu vinsældir Longlegs hafa verið með bullandi ólíkindum og eitthvað sem engin markaðsdeild hefði fyrir fram getað kokkað upp. Þó reyndar markaðssetningin á myndinni hafi verið gífurlega sterk er útkoman ekki beinlínis eitthvað sem hrópar út orðin “crowd pleaser”. Hvort almenna forvitni áhorfenda stemmi frá gæðum hennar, morðmálsblæti pöpuls, einskærri forvitni hans eða loforði afraksturs um enn einn óheflaðan Nicolas Cage er góð spurning. Að þessu sögðu er Longlegs hiklaust vel unninn og forvitnilegur yfirnáttúrulegur morðgátutryllir og myndin leynir miklu meira á sér en óviðburðarríka yfirborðið sýnir við fyrstu.
Longlegs er löðrandi í lúmskum óhuggulegheitum og symbólisma út í gegn, en sagan í grunninn gerist á tíunda áratugnum og segir frá ungri alríkislögreglukonu, Lee Harker, sem er efnilegur nýliði með sérkennilega náðargáfu og dularfyllri fortíð. Þegar hún fær verkefni að leita uppi alræmdan fjöldamorðingja áttar hún sig á því að eina leiðin til að binda enda á mynstur ógeðfelldra morða er að leysa ýmsar torræðar þrautir sem tengja Lee við fortíð sína.

Myndin er sú fjórða sem kemur úr hugarheimi leikarans og kvikmyndagerðarmannsins Osgood Perkins (sjá t.d. The Blackcoat’s Daughter og Gretel & Hansel), sem er einnig betur þekktur sem sonur hins goðsagnarkennda Anthony Perkins og lék til að mynda ungan Norman Bates í Psycho II*. Á bakvið vélina er Perkins heill ólgusjór af truflandi hugmyndum og að öllu útlítandi efnileg rödd í hryllingsgeiranum. Rödd sem er ef til vill ögn meira í stíl og móðukenndum pælingum meira svo en geirneglda eða jafnvel trúverðuga narratífu.
Perkins leikur sér ekki bara með múdið af gífurlegri draumkenndri nákvæmni heldur líka tákn og rúmfræðiform í myndmálinu (fylgist vel með notkun á hringum og ferhyrndum römmum) til að mála upp óþægindi, magnþrungna leit og metnaðarfullar nálganir á biblísk og snarrugluð þemu. Í gegnum vísanir í tré og snáka varpast upp tengingar við Edengarðinn og er heljarinnar listinn aldeilis ekki þar með upptalinn. Yfirnáttúruleg öfl eru yfirgnæfandi en í nægilega niðurnjörvuðum mæli til að halda áhorfendum giskandi, eða kjaftandi heilu einræðurnar að mynd lokinni.
Hins vegar eru svörin í þeim efnum orðin nokkuð skýr undir lokin. Heilmargt er opið til túlkunar í framvindunni en plottpunktar og svör raðast nokkuð fullnægjandi saman, innan samhengis. Fleiri uppköst að handritinu hefðu þó ekki skaðað, ef ekki þá aðeins til að fínslípa samtölin.

Longlegs flæðir og brennur mátulega hægt en reiðir sig líka á merkilega frumlegar bregðusenur til að vekja salinn og rífa púlssláttinn upp, en kvikmyndataka, hljóðvinnsla og tónlist gefur hálfdáleiðandi abstrakt tóninn glæsilega. Maika Monroe (It Follows, Independence Day: Resurgence) ber mest alla söguna á herðum sér og selur Monroe sérviskuna í henni og hvernig hún ber sig félagslega í aðstæðum, en kraumandi þarna undir eru greinileg merki um áföll eða andlega byrði. Perkins heldur öllum karakter- og dulúðarspilum þétt að sér þangað til allt springur í seiðandi og skemmtilega samantekt á lokasprettinum. Monroe neyðist til að segja allt innra með sér með litlu, en þar sem hún er lágstemmd og reglusöm höfum við manískan og óbeislaðan Nicolas Cage í titilrullunni til móts við Harker.
Frammistaðan hjá Cage er svo sannarlega gildur fókuspunktur með hvort hún hreint og beint virkar eða ekki. Ekki bara frammistaðan, heldur raunverulega stíllinn á myndinni. Andrúmsloftið hjá Perkins er nægilega kalt og absúrd fyrir og þessi yfirdrifni (og meme-væni…) ‘Cage-ismi’ jaðrar við að draga áhorfandann beint úr sögunni – eða þvert á móti styrkja hana með því að bragðbæta hana með enn meiri steik. Undirritaður er fastur einhvers staðar þarna á milli þar sem Cage svipar meira til (segjum) The Wicker Man frekar en (til dæmis…) Pig (2022). Leikarinn svipar svolítið til íslenska veðursins; óútreiknanlegur og þú veist nákvæmlega aldrei hvort þú fáir hann á góðum degi, háfleygum, eða hvort tveggja. Hann er sitt eigið tungumál af leiklistarstormi.

Cage á þarna góða spretti vissulega og trúlega mörg eftirminnilegri móment myndarinnar, en hann er fastur undir furðulegu gervi og það er erfitt að slíta tenginguna frá leikaranum í stað þess að límast betur yfir ‘Longlegs’ sem lykilkarakter (en Cage er einn af framleiðendum myndarinnar, þannig að…). Á hinn veginn er Alicia Witt fullkomin sem móðir Lee og Blair Underwood fær einhvern djús til að vinna með sem yfirlögreglufulltrúinn. Mætti ef til vill vera meira af þeim líka, en trúlega stangast það á við þennan magnþrungna mínimalisma sem sóst er eftir.
Því ber í sjálfu sér að fagna þegar svona lítil og súr hrollvekja rýkur á topp bíóaðsóknarlista víða um heiminn. og grípur þrumuna frá stærri færibandsmyndum sumarsins, þó ekki nema í örskamman tíma. Sama hvað, þá er Longlegs í það minnsta púkalega umræðuverð og gerð af miklu öryggi fyrir samsetningu sem og stílíseringu innihalds. Sitt sýnist vissulega hverjum með trekktu taugarnar en þó svo að myndin eigi óneitanlega til að vera óþægileg á köflum, þá er hún frekar lint loft hvað það varðar að vera óhugnanleg eða hrollvekjandi. Spennan er þarna og heilmargt fleira er til að dást að í heildarpakkanum, en meiri gæsahúð hefði allan daginn óskast.
Djöfulli góður pakki samt, og það telur!







Sammála/ósammála?