Góðu fréttirnar; Djúsinn er laus.
Vondu fréttirnar; Djúsinn er út um allt!
Beetlejuice Beetlejuice ber aldeilis meira að fagna heldur en fordæma. Jafnvel þó hún væri algjör ruslasafi eða hallærisleg tilraun til að fanga gamla takta, þá ef ekkert annað er í það minnsta eitthvað svo frussuskemmtilegt við það að sjá Tim Burton svona óbeislaðan aftur á ný. Sennilega eiga Wednesday-þættirnir frá Netflix einhvern hlut í upprisunni en með bíóferilinn hefur hann fulllengi verið eitthvað týndur í sjálfinu eða á sjálfsstýringu hjá Disney-samsteypunni. Kemur fyrir besta fólk.
Útkoman hér er að vísu nokkuð lummuleg tilraun til að fanga gamla óvænta sjarmann í Beetlejuice, geggjuðu en þó gífurlegu ólátabarni síns tíma, en fer lukkulega einnig í fáeinar nýjar áttir.
Og já, áður en lengra er haldið skal vel viðurkennast að undirritaður fékk smávægilega gæsahúð yfir uppfærða þemalaginu hjá Danny Elfman í byrjuninni. Beitan náði mér þar.

Beetlejuice Beetlejuice er skemmtileg ringulreið sem er bæði asnalega innantóm á meðan hún er óþarflega pökkuð og heljarinnar hröð. Annað en að miða við flugbeitta og einbeitta einfaldleika forvera síns er þessi tótal kaótísk klessa. Mikið helvíti er samt erfitt að hafa ekki gaman af henni þegar orkan er svona mikil, leikararnir flestir eru í banastuði og sköpunargleðin þetta ríkjandi. Ef það er sum sé til einhver ‘rétt’ leið að nostalgíubeitu, þá er þessi ræma svona 70% á því svæði, fræðilega.
Fyrir þessum tæplega 40 árum var Michael Keaton í rauninni í uppsprengdu gesta(titla)hlutverki í stærri sögunni þar sem Maitland-hjónin, leikin af Alec Baldwin og Geenu Davis, mynduðu hrygg og meginkjarna narratífunnar. Nú er þau horfin (ein útskýringarlína og svo bless) og Keaton kominn fremstur í upptalningu leikaranna með miklu meira vægi í öllu saman, þannig séð. Það sem þó kemur slatta á óvart er hvað Keaton hefur litlu gleymt í hlutverki Betelgeuse. Þvert á móti liggur við að hann sé hressari í þessari lotu – en vissulega búinn að minnka viðbjóðinn og ekki síst greddu persónunnar um vænan haug, enda flýgur það illa að hafa karakterinn svona fjölþreifinn eins og síðast. En á meðan perraskapur er til umræðu er býsna gott hvernig unnið er með persónu Jeffrey Jones í sögunni að sinni.

Aldrei þessu vant er þó Keaton ekki senuþjófurinn í Beetlejuice Beetlejuice, heldur Catherine O’Hara að sinni, sem er þarna í bullandi fíling sem háfleyga listakonan Delia Deetz – með sína next-level gjörninga. Það er þetta samband þriggja kynslóða af Deetz-konum sem ætti raunverulega að vera hryggur þessarar sögu; þ.e.a.s. sambandið hjá Lydiu (Winona Ryder) við sína stjúpmömmu (O’Hara) og jafnframt dóttur sína, Astrid (Jenna Ortega) og/eða öfugt o.s.frv., en við fáum bara glefsurnar í stærri kássu. Mikilli kássu.
Allt sem staflast upp í þessari mynd af hugmyndum og karakterbreytingum eru aðeins fræ af frábærum pælingum sem nærast aldrei til fulls. Nóg mætti spila með ofannefndar persónur, nema inn í þetta blandast alls konar fígúrur og á meðal þeirra strákpjakkur sem Astrid hrífst af, glataður kærasti Lydiu, síðan látinn fyrrverandi Lydiu, svo kemur útbrunninn leikari, týndur eiginmaður Deliu, krútthausinn Bob og tilheyrandi teymi að ógleymdri Delores, trylltu fyrrverandi eiginkonu Betelgeuse. Steypan og figúrufjöldinn er ekki einu sinni allur þar með upptalinn, og myndin er alls ekki löng.
Winona Ryder er temmilega steikt og lífleg í endurkomu sinni og Jenna Ortega blæs töluverðu lífi í dótturina. Báðar eru fínar þó þær mættu hafa meira að gera í heildinni. Svipað mætti svo sem segja um Monicu Bellucci og Willem Dafoe en þræðir þeirra beggja leysast fljótt upp og verða að nákvæmlega engu í lokin. Bellucci fær sennilega heiðurinn á því að vera í brennidepli í einni flottustu senu myndarinnar músíklega séð (Bee Gees, beibí!) en hún ráfar aðallega á milli sviðsmynda spyrjandi að hinu sama; Hvar er Betelgeuse?

Dafoe er sprækur þarna en merkilega óeftirminnilegur, flatur og jarðbundinn í samanburði við súrari leiksigra síðustu árin í myndum eins og The Lighthouse, Nightmare Alley, The Northman, Poor Things og Kinds of Kindness. Að Burton skuli ekki geta nýtt þennan frábæra leikara betur er til menningarlegrar skammar, en í sárabætur er Justin Theroux ákaflega skondinn sem listilega glær loddari. Mátti líka mun meira gera eitthvað við karakter Arthurs Conti. Drengurinn stendur sig með prýðum en söguþræðinum hans – eins og þeim allflestum – er slúttað á methraða og týnist hann í farsagangi seinni helmingsins, sem er leitt því senurnar með Conti og Ortega eru trúlega með þeim forvitnilegri og bera sinn eigin svip í söguheiminum.
Heppilega höfum við samt Burn Gorman á svæðinu. Hann gerir ekkert merkilegt heldur en af skrautum að dæma er Gorman ávallt skemmtilega svipbrigðasterkur á skjánum.
En talandi um expressífa karaktera; ef það er einhver í þeirri deild sem virðist almennilega skilja eitthvað eftir sig og þjóna einhverjum grunnstigs-tilgangi, þá er það smákollurinn Bob.
Elsku Bob.

Það þýðir annars reyndar lítið að tala um narratífu eða spá í plott í Beetlejuice Beetlejuice (eða Tim Burton myndum yfir höfuð) þar sem öll myndin er stemningsdrifinn farsi og meira eða minna samsett úr sundurlausum B-plottum sem sameinast öll í frekar linum klæmax. Myndinni gengur að vísu þrælvel að halda sínum eigin svip og einkenni, þrátt fyrir að vera (legasíu)framhald, en á lokametrunum er hvað mest verið að endurtaka leikina úr forveranum. Að þessu sögðu eru seinustu mínúturnar absólút dásemd, þegar myndin rúllar skyndilega í stórfyndinn eftirmála.
Handritið er jú, misfyndið og rembinginn vantar ekki (Soul Train?!…), en Burton/myndinni tókst alveg að vinna mig yfir á sitt band með gúrme tilvísunum í Mario Bava (endurlitið með söbbuðum, döbbuðum Keaton var fokkin’ æðislegt), skondnu dissi á Disney og söngnúmerinu þar sem helstu leikarar taka – af… öllu… – MacArthur Park með glæsibrag.

Beetlejuice x2 er þá í heildina séð fjörugt innlit í gamlan, gamaldags skrípóheim (þar sem hjónavígslur skipta stórfurðulega miklu máli í eftirlífinu…) með nægilegum skammti af nýjungum til að réttlæta samveruna með þessum gömlu snarbrengluðu kunningjum.
Fyrri Beetlejuice var ekki aðeins gerð fyrir skuggalega lítinn pening í denn, heldur var hún löðrandi í tilraunarkenndu, hráu hugmyndaflugi hjá Burton og co. Aftur á móti skal það líka alveg segjast að upprunalega myndin var aldrei nein stórsnilld – og mætti betur eldast – og því ekkert sérlega gagnlegt að gera einhverjar stjarnfræðilegar kröfur til framhaldsins.







Sammála/ósammála?