Love Lies Bleeding er alveg rúllandi rugluð mynd frá dásamlega forvitnilegri og flugbeittri rödd í kvikmyndagerð. Hérna nefnilega blasir við einhver óttalaus blær sem gerir það þeim mun magnaðra að þetta skuli vera aðeins önnur kvikmyndin í fullri lengd frá Rose Glass (Saint Maud frá 2019. Mæli með!), en hérna bræðir hún listilega saman noir-sögu við erótískan og súrrealískan þriller um ástríðu, glæpi og ástríðuglæpi… í ‘80s stíl! Ef við kjósum blandarann, mætti þá líkja þessu við steraðan samskeyting af Blood Simple og Bound.

Myndin er reyndar alls ekki um sérlega geðslegt fólk en hún hefur æðislega karaktera, sem allflestir eru móralslega á grárri línu, þar á meðal ‘hetjurnar’ okkar, í bókstaflega myrkum skuggum. Sögusviðið er níundi áratugurinn í bæ í suðvestri Bandaríkjanna. Við kynnumst umsjónarkonu líkamsræktarstöðvar, Lou, sem fellur fyrir Jackie, metnaðarfullri vaxtarræktarkonu sem hyggst ná langt í fitness-keppnum Las Vegas. Eftir því sem á líður fer þeirra ást að hafa í för með sér ýmis konar ofbeldi og dregur þær djúpt í glæpavef fjölskyldu Lou.

Frá byrjun er ljóst að þær þurfa að reiða hvor á aðra, ekki síður þar sem báðar eiga meira sameiginlegt í tengslum við einangrun frá fjölskyldu en ber fyrst að geta. Þetta magnast allt upp í óbeislaðan og tens dökkan farsa, sem er með ráðum gert hjá Glass og er áhorfendum alveg leyft að hlæja af sér vitið yfir sumum absúrdismanum eða einhverju öðru helsjúku. Kjarninn á þessu öllu snýst um fíkn; hvort sem manneskjan/persónan er háð valdi, sterum, spítti, sígarettum, nánd eða tengingu.

Ást er nú (sjokker…) flókið fyrirbæri sem getur skipað sér í svo vítt mengi og Love Lies Bleeding skoðar það hvað það þýðir að raunverulega elska einhvern, vera heltekinn af einhverjum og hversu langt viðkomandi myndi ganga fyrir svo rótsterkar tilfinningar og hvers vegna. Ástin hvetur fólk til óhuggulegra verka og getur sprungið út á örlagastundu. Með öðrum orðum; ástin er fíkn. Handritið er vissulega ekki að sækjast í neinar alhæfingar, heldur einungis bara segja dimma og granítharða ástríðarglæpasögu (orðið ‘pulp’ kemur líka upp í hugann) sem límist allur saman af spennandi persónum og taugatrekkjandi veseni þeirra.

Kristen Stewart gæðir Lou fullkomlega blíðum karakter með slettu af núrósis. Hennar performans sér annars vegar um að koma jarðbundnari ef ekki viðtengjanlegri tengingu við áhorfandann innan um allt brjálæðið. Katy O’Brian gjörsamlega kveikir í skjánum með nærveru sinni, ófyrirsjáanleika, krafti og auðvitað hvað allra mest með kemistríu og samleik hennar við Stewart.

Ed Harris er líka fjandi frábær andskoti, sportandi hárstíl ferils síns. Litríkar viðbætur í formi þeirra Önnu Baryshnikov, Jenu Malone og Dave Franco gera helling fyrir heildina, þá einna helst Franco með skíthælataktana stillta í botn.

Glass skrifar handritið ásamt Weroniku Tofilska (Baby Reindeer ofl.) og tekst þeim að útbúa saman safn af meingölluðum en áhugaverðum persónum sem á stangast. Kvikmyndatakan, litaskemað í henni að auki tónlistarinnar og lagavals er argasta góðgæti og fullkomlega gefur þessu frussuskemmtilega handriti sinn svip og stíl.

Þegar sagan er farin að gefa í þegar líður að seinni hlutanum fer raunveruleikinn að sjóðast saman við súrrealisma eftir því sem allt fer meira í háaloft. Þá komum við að hinum margumtalaða endi, sem fær umhugsunarlaust plússtig fyrir kjarkinn að gera eitthvað… öðruvísi, og snælduvitlaust, er ég ekki 100% sannfærður um að lendingunni er náð (nema þá í „WTF“-viðbragðsskyni). En ég meina, neyðin allavega kennir hálfnaktri konu að… sterast. Love Lies Bleeding kemur samt til dyranna eins og klædd og er stolt af því. Myndin er hressandi útúrsnúningur á formúlum; stíllúkkar, skítflæðir og rokkar í allar áttir með sándtrakkinu. Það er ekkert grín að sjóða svona listilega saman bulli, brútalisma og nánd, hvað þá með svona púlsi og afþreyingargildi.

Sammála/ósammála?