„Einn er sá hópur sem sker sig úr [þeim fjölda sjúklinga með alls konar greiningar]. Þetta eru einstaklingar sem eru illa haldnir af áráttuþráhyggjuhegðun, uppfullir af eigið ágæti, hafa afskaplega miklar ranghugmyndir um sjálfa sig og aðra. Þeir eru oft mjög ágjarnir og þetta er eins konar fíknihegðun… Batalíkurnar eru engar.

Þetta eru laxveiðimenn.“*

Betra er að mæta seint í partíið heldur en að sleppa því. Einhverra hluta vegna fór Allra síðasta veiðiferðin fram hjá mér þegar hún var upphaflega gefin út. Ástæðan gæti hafa skrifast á framboð efnis og var hún einfaldlega minna lokkandi en aðrar myndir á þeim tíma, eða hugsanlega tilfinninguna um hvað íslensk kvikmyndagerð hefur gífurlega vonda sögu af framhaldsmyndum án þess að myndirnar beri orðið ‘líf’ í titlinum. 

Fyrsta Síðasta veiðiferðin lék sér kannski að mestu í grunnu vatni en myndin kom engu að síður eins og þruma úr heiðskíru lofti og hélt ágætislífi í kvikmyndahúsaaðsókn vikunum saman í miðjum Covid-faraldri. Pöpullinn tók allavega hressilega vel í hana, enda eru Markell-bræðurnir Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson með puttann á púlsinum í tengslum við að stuðla að meiri kómík í okkar kvikmyndaflóru. Hingað til hefur það ekki alltaf heppnast neitt sérstaklega vel hjá þeim að færa okkur stórhittara sem svínvirka, en fyrir hverja Ömmu Hófí eða Saumaklúbbinn höfum við fengið eitthvað í líkingu við Fullt hús, eða Allra síðustu veiðiferðina. 

Öll lógík ætti nánast að benda til þess að Allra síðasta veiðiferðin sé rusl og peningaplokk. Titillinn gefur strax upp nokkur rauð flögg og reisti það litla trú um innihaldið að búið sé að fjölga miskunnarlaust í leikhópnum. ‘Hið sama og bara meira af því en án ferskleikans’ er sígilda uppskriftin að kómísku framhaldi og hún er ekkert sérlega lokkandi.

…nema þegar lokavaran reynist vera fokk fyndin. 

Þá er auðvelt að vera slétt sama um gangverk innihaldsins. Ef kátínan skilar sér með mátulega óútreiknanlegum árangri, er varla hægt að fordæma vöruna. 

Í kannski styttra máli; Ef þú sást eitthvað skemmtilegt við Síðustu veiðiferðina, mun Allra síðasta veiðiferðin að öllum líkindum halda athygli þinni með stutt í hvert lúðaglottið.

Beinagrindin er auðvitað sú nákvæmlega sama, nema heppilega byggir framvindan ofan á þræðina sem spruttu upp í fyrri lotunni og bragðbætir vitleysuna enn fremur; Hópur karlpunga (nú að þessu sinni með forsætisráðherra í farteskinu) hóast saman í fjögurra daga veiðiferð með þeim eina tilgangi að veiða lax og hella sig pissfulla með það fyrir stafni að skapa einhverjar góðar minningar. Einn í hópnum er að vísu orðinn bindindismaður eftir ringulreiðina síðast, en auðvitað er tímaspursmál um hversu lengi það endist. 

Það sem gerði ágætt að einhverju betra í síðustu lotu var hreint og beint þetta áreynslulausa samspil kjarnahópsins, en sá hópur er ekki vitund latari í þessari lotu eins og gjarnan fylgir vananum. Myndin einkennist að vísu af einmitt sama vandamáli og síðast sem liggur í lapþunnri persónusköpun. Það þýðir varla neitt að læra nöfn helstu persóna; við miðumst í raun bara við nöfn leikaranna fyrir utan einhver fáein yfirborðseinkenni til að greina þá í sundur (snobbið, fátæki fyllirafturinn, chess-boxarinn, Hilmir Snær ofl.). Nýju persónurnar, sem samanstanda af Gunnari Helgasyni, Sigurði Þór Ólafssyni og Sigurði Sigurjónssyni, fylla annars vegar meira en vel upp í fjarveru Hjálmars Hjálmarssonar, sem hefur ákveðið að sitja hjá að sinni. 

Eitt sem lyftir Allra síðustu veiðiferðinni upp á næstum því sama afþreyingarstall og fyrri myndin er hvernig atburðarásin er ögn minna kaflaskipt og meira farsakennd eða frásagnardrifin, með andstæðingi í sögunni og öllu tilheyrandi; meira ‘bíómynd’ skulum við segja – þrátt fyrir amatör tæknibrellurnar og óglamúraðan tökustíl. Halldóra Geirharðsdóttir snýr aftur í miklu stærri rullu sem ágenga (og dásamlega snargeðveika) lögreglukonan Erla og er að sinni skrifuð sem tær skúrkur sögunnar. 

Halldóra, verandi þessi múltítask snillingur sem hún hefur lengi verið, smellur glæsilega þarna inn í karlafýluna og leysir hana upp skemmtilega. Fyrir fram hefði ómögulega mátt búast við því að mesta smekkleysan komi frá lögreglukonunni, en Halldóra er í svo miklu stuði þarna að myndin öðlast meiri púls fyrir vikið. Siggi Sigurjóns er líka æðislega lágstemmdur í sjálfhverfu sinni sem forsætisráðherrann sem getur hreinlega ekki beðið eftir að komast í fíflaskap með „venjulegu fólki.“ 

Allra síðasta veiðiferðin er það sem kallast á smekklegri lensku algjört ‘romp’ sem þykist aldrei vera neitt meira en það. Markmiðið að hafa gaman er lykilatriðið, enda er ómögulega hægt að komast að annarri niðurstöðu þegar bíómynd leyfir sér að pása ‘söguþráðinn’ svo að Halldór Gylfa og Hilmir Snær fái tækifæri til að blása til skemmtiatriðis mínútum saman þar sem þeir gera ekkert nema að spila naktir á kjötflautur sínar á sokkaleistunum. 

Sumt þarf hvorki að vera flókið né fágað eða frumlegt til þess að vera fyndið og komast upp með það.

*Handrit sem hefst á þessum upphafsorðum fær svo sannarlega auka plús í minni stigabók

Sammála/ósammála?