Alien: Romulus kann að vera fyrsta eintakið í þessari meistaralega þvældu og sundurteygðu bíóseríu sem var framleidd af samsteypu Disney (e. 20th Century Studios-merki þeirra) – og það því miður sést heillangar leiðir.
Eitt er að vera ‘back to basics’ nálgun á þessu eitt sinn dásamlegu brandi en annað er að vera lin og linnulaus nostalgíubeita sem reynir með sínum remix-vinkil að fylla út tékklistann svo náist að fanga sem flesta gamla aðdáendur á einu bretti (jafnframt hörðustu Prometheus-verjendur) og ekki síður gæta þess að Ridley Scott sé hæstánægður með afabarnið, en hann er einn af framleiðendum Romulus.
Scott er auðvitað sjálfur búinn að vera eitthvað úti á þekju að undanförnu með seríuna sem hann kom vissulega fyrst af stað. Þó verður seint tekið af til dæmis Prometheus og Alien: Covenant að þær að minnsta kosti gerðu aðeins meira en að endurvarpa gömlu klisjurnar, heldur léku sér að stærri, villtari hugmyndum líka. Fæst af þessu sem leitaði í nýjungar féll í kramið hjá áhorfendum eða gagnrýnendum. Þá fara markaðsheilarnir á milljón um næstu skref ef á að halda lífi í batteríi sem gæti verið umdeilanlega steindautt eða á lokametrum sínum í hugmyndaflugi.

Fede Alvarez er tvímælalaust fjölhæfur djöfull (sjá Don’t Breathe) og kann svo sannarlega að ampa upp andrúmsloftið og trekkja upp tensjónið, nema spennufaktorinn á það samt til að tapa lofti annað slagið þegar handritið er svona þurrt og þunnt, þar sem lítið er verið að spila með væntingar eða föst mynstur. Þá stendur samt glæsilega andrúmsloftið eftir og Alvarez fær öll kredit fyrir tauminn með teymi sínu þegar kemur að settunum, brellunum (næstum því…), áferðinni og hönnuninni eins og hún leggur sig.
Styrkir leikstjórans í tengslum við hasar, áferð og óþægindi reynast miðkafla myndarinnar hvað best, þ.e.a.s. áður en handritið hrynur í hreinan brandara og asnaskap þar sem erfitt verður að taka nokkurn hlut í karakterum eða aðstæðum alvara áfram (og bíddu, vorum við ekki löngu búin með þessa skepnupælingu?*). Það glyttir eitthvað aðeins í góða sál á milli persóna þeirra Cailee Spaeney (Civil War, Priscilla) og David Johnsson sem ‘systkinin Rain og Andy. Að þeim utanskildum er lítið um uppfyllingarfígúrurnar að segja. Hver og einn leikari nær að vera sannfærandi, en karakterdýnamíkina mátti alveg vinna miklu betur á handritsstiginu.
Fúlt.

Alien: Romulus er tóm skel undir regnhlíf sjónarspils; dulbúin sem einhvers konar ‘tribjút-mynd’ og brúarmynd á milli Alien og Aliens, en stenst ekki mátið að stela minnisstæðustu frösum beggja mynda. Þetta kemur allt saman út eins og öskrandi örvænting en þetta gefur mögulega massanum það sem hann vill. Það er þó skuggalega fátt í boði í Romulus sem var ekki áður og umdeilanlega betur dekkað áður, og þá sérstaklega í Prometheus, Alien 3 og *Resurrection.
Síðan er varla komist hjá því að tala um tölvugerða fílinn í herberginu, endurvakinn karakter úr upprunalegu Alien og ennfremra merki um áðurnefnda örvæntingu. Hermt er að aðstandendur leikarans sem er þarna endurlífgaður/renderaður á skjánum hafi gefið fullt og blessað leyfi en það breytir samt ekki að viðvera þessarar persónu er með öllu móti óþörf. Þarna er sjónrænt séð svolítið verið að pissa á klassískan karakter með þessum uncanney valley keim sem svipar næstum því til útlitsins á Jeff Bridges fígúrunni CLU í Tron: Legacy. Það er allt annað en eitthvað til að hrópa húrra fyrir.
Alien: Romulus er samt að eðlisfari sínu gerð til að áhorfendur hrópi húrra fyrir öllu húllumhæinu, en – aftur – þetta er galtóm tunna sem hátt glymur í; hvorki nægilega spennandi spennumynd né hrollvekjandi hrollvekja. Bara díteilaður skuggi af betri tímum og dögum þessa myndabálks.
Ferlega fúlt.
En ferlega flott líka, vissulega.







Sammála/ósammála?