Fínustu framleiðendur, fjölhæfar leikkonur (sem margar hverjar hafa oft verið áður meinfyndnar?, ágætis grunnhugmynd ef kannski pínu hálfbökuð en ofar öllu komum við aftur að fyrstu tveimur punktum upptalningarinnar. Þá kemur aðalspurningin; Hvernig í kvensköpunum fór þetta úrskeiðis?

Það er barasta ekki neitt að frétta í þessari bíómynd. Núll.

Eitthvað sem hefur alla burði til þess að vera geggjuð hvítvínskómedía missir allt bragð og bözzið sitt mjög hratt. Ágreiningar eru sama og engir, uppákomurnar mínimal og afleiðingalausar; engin gredda, engin klikkun, ekkert ævintýri, lítil sem engin fyndni né sál.

Saumaklúbburinn kemur auðvitað frá framleiðendum Síðustu veiðiferðarinnar og er samanburður þar hvorki ósanngjarn né yfirstíganlegur. Á meðan þetta partí er miður steindautt, bitlaust og betri kosturinn er að láta sig fyrr hverfa í háttinn, þá var Síðasta veiðiferðin gegnumgangandi stuð og vitleysa sem speglaði mannlegu þætti vaxveiðimanna án þess að styðjast við miklar ýkjur.

Kaldhæðnin er reyndar sú að veiðiferðina skorti allt sem kenna mátti við dýpt í prófílum persónanna og hafði glensið allan forgang fram yfir allt slíkt. Saumaklúbburinn hefur við öfugt vandamál að díla. Persónusköpunin er til staðar í hæfilegu magni miðað við stemningu og Gagga Jónsdóttir í leikstjórasætinu sér til að áhorfandinn fái mátulega tilfinningu fyrir lífi og einkennum allra. Verst bara hvernig allt hitt vantaði – og jafnvel þótt að prófílar karakteranna sé betur teiknaður upp hér en mátti við búast, þá er hann ekkert upp á marga fiska heldur. Sama gildir um aukapersónur – eins og Ítalana tvo –

Hvergi er þetta nóg til að bjarga rennsli myndarinnar. Hún er ómögulega nógu fyndin, sjarmerandi eða kósí til að ganga upp. Þær sem mest upp úr þessu öllu standa eru Arndís Hrönn Egilsdóttir og Helga Braga Jónsdóttir. Hinar eru sæmilegar en hverri mætti skipta út fyrir einhverja aðra án þess að það hefði miklu breytt.

Á milli sögutengdra sekvensa fáum við innskot með persónunum í viðtalsformi, eins og uppsetningin svipi sig meira til gervi-raunveruleikaþáttar en kvikmyndar. Merkilegt nokk eru þetta yfirleitt bestu bútarnir en þeir hafa ótrúlega litlu við stærri myndina að bæta, annað en að segja það sem blasti áður við og fylla vissulega upp í lengdina. Þetta skemmtilega stílbrot kemur því einfaldlega út eins og redding í eftirvinnslu, ekki ósvipað reddingunni hjá unglingamyndinni Gemsar, sem studdist við nákvæmlega eins mótíf. Saumaklúbburinn gerir þetta að vísu í miklu meiri mæli og það er alls ekki hæpið að segja að þessi viðtöl éti upp næstum helminginn af þessum 70-og-eitthvað mínútum.

Þetta þýðir að afgangur þess efnis sem hangir í lokaklippinu er alls ekki nóg til að sigla inn framvindu fyrir fulla lengd. Persónusköpunin er þarna (jú, með naumindum) til staðar en uppákomurnar sárvanta og eitthvað fútt í söguþráðinn til að skapist einhver áhugi fyrir áframhaldinu. Myndin og samtöl renna hjá án þess að vekja upp mikil viðbrögð og í þeim skilningi er þetta frekar sakleysisleg, meinlaus og auðgleymanlegt létt ‘romp’. Til eru margar, margar slakari íslenskar gamanmyndir en þetta.

Í þessu liggur kannski vandinn. Talentið hér á boðstólnum ætti að tryggja betri vöru eða samverustund en þetta.

Sammála/ósammála?