Eitthvað hlýtur það að þykja hressilega táknrænt að amerískir framleiðendur þessarar endurgerðar (og aldeilis voru þeir í flýti!) hafi að öllum líkindum horft á samnefnda ‘danska’ mynd frá 2022 – sem er þó að megninu til á enskri tungu – og hugsað með sér: “Hey, gerum virkilega svipaða bíómynd nema minnkum kynlífið og djúsum upp þriðja act’inn með sprengingu og byssum!”

Að vísu er merkilega áhugavert að greina þessar tvær Speak No Evil myndir, ef ekki bara til þess að grandskoða hvað tónn, persónusköpun og leikaraval getur gert heilmikið fyrir tvær ansi keimlíkar uppbyggingar áður en lokaspretturinn er kominn í sitthvoru áttina. Er því raunverulega ekkert hæpið að segja að útkomurnar séu tvær mismunandi skepnur. Önnur spilar með lágstemmdan drunga og óþægindi á meðan Kanadýrið er kannski óhjákvæmilega meira öskrandi í andlitinu á þér.

En ef við sleppum samanburðinum í bili er trúlega hálfgalið að kalla Speak No Evil (2024) bitlausa og heldur mjúka mynd, en þegar þú skiptir út t.d. krökkum út fyrir táninga breytist örlítið vigtin á taugatrekkingunni. Á eigin spýtum er endurgerðin fjandi gott bíó sem fer kannski ekki pent í hið yfirdrifna en svínvirkar sem spennutryllir þar sem traustir leikarar og truflandi pælingar yfirráða öllu.

Holur í lógík koma vissulega upp og ákvarðanir persóna stundum illskiljanlegar en grunnhugmyndin er endemis snilld og mörgu fólki viðtengjanleg; að minnsta kosti fólk sem tengir sig við að mingla við ókunnuga og hundsa rauðu blikkandi flöggin út af tærri meðvirkni. Hugmyndin spyr spurninguna um hvað gerist þegar fullkomlega venjuleg vanillufjölskylda þiggur boð sem þeim óvænt býðst. Um er að ræða heimaboð til býsna vingjarnlegs fjölskyldufólks sem hin höfðu áður hitt í sumarfríi á Ítalíu. Hvað gæti mögulega farið úrskeiðis?

Nú, allt! Sérstaklega þegar þú þekkir ekki fólkið og leyfir kurteisinu að hafa ráð yfir heilbrigðri skynsemi.

Hér er það leikstjórinn James Watkins (The Woman in Black, Bastille Day o.fl.) sem sundurtætir kvikmynda úr smiðju Christians Tafdrup, staðfærir hana og piprar svo úr verði annars konar stemning. Án þess að vilja endilega tönglast á samanburði kvikmyndanna er mjög athugavert hvernig dularfulla fjölskyldan með heimaboðið er kynnt til sögunnar. Fjölskyldufaðirinn eiturhressi, Paddy – leikinn af James McAvoy – er strax sýndur miklu hvassari og með rauðu flöggin skýrari frá blábyrjun. Í frummyndinni fór meiri tími í að leyfa grímu sömu persónu að leka af og bar karakterinn stærri merki um að vera viðkunnanlegur, til þess betur að loka fjölskylduna.

Annað dæmi snýr að aldri barnanna í sögunni; með því að færa aldurinn nær unglingnum fær Watkins aðeins meira svigrúm til að gera börnin að virkum karakterum í sögunni, hvort sem það er til hins betra eða verra fyrir lokaútkomuna. Sitt sýnist hverjum. Watkins stendur sig annars vel með tempóið og finnur (þó ekki nema) fáeinar snjallar leiðir að lausnum í handritinu sínu til að snúa út úr væntingum þeirra sem sáu upprunalegu myndina.

McAvoy hefur verið opinn með það að byggja frammistöðu sína á mennska ómenninu Andrew Tate og skilar því með stæl. Þó eru sjálfsagt Scoot McNairy, Macenzie Davis og Alex West Lefler í erfiðari rullunum sem fjölskyldan glæra og gallaða. Aisling Franciosi skilur annars vegar ekkert sturlað eftir sig í hlutverki konu Paddys og Dan Hough er á tíðum nokkrum míkrólevelum of yfirdrifinn sem mállausi sonurinn. Án þess að meira sé gefið upp, skal samt alveg fullyrða það að drengurinn eigi eflaust bestu senuna í ræmunni.

Speak No Evil (2024) hefur hægan bruna á poppkornsmynda-kvarðanum en sækist þegar upp er staðið ekkert í mikið meira – annað eð frummyndin. Betra er þó alltaf að fá endurgerð sem hefur sinn eigin vinkil eða túlkun í stað þess að eldast við miklu betri skugga. Watkins útfærir vel samsetta afþreyingu með prýðis sleggjukrafti þar sem sjaldnast er dauð mínúta á skjánum. Upprunalega myndin er þó frábær og eftirminnileg í sínum níhilisma. Þessi er hörkufín spennumynd en ekkert sérstaklega minnisstæð.

Sammála/ósammála?