Það er næstum því eitthvað djarft og aðdáunarvert við nálgun þessarar framhaldsmyndar á sögu sinni og þá er ég ekki að tala um söngleikjavinkilinn, heldur fyrst og fremst þessa andúð hennar á fyrri myndinni frá 2019. Eftir brandaralega miklar vinsældir hennar, þessa óskiljanlega fínu dóma, örlæti Óskarsakademíunnar og endalausar grunngreiningar aðdáenda á hvort sumt hafi raunverulega gerst í narratífunni eða sé hreinlega ímyndun; alls konar villtar kenningar og ekki síst Batman-tengdar getgátur um framhaldið – er þessu síðan öllu saman sprengt upp framan í andlit áhorfenda. Þetta er gert með þeirri yfirskrift að Jókerinn okkar, Arthur Fleck, sé tvímælalaust lasinn einstaklingur sem ætti alls ekkert að tilbiðja né valdefla, og að atburðarás fyrstu myndarinnar hafi verið fjarri því að vera marglaga eða sniðug.
Svo sem er ekki langsótt að halda því fram að Todd Phillips einfaldlega hati tilhugsunina um að búa til framhaldsmyndir (sjá The Hangover: Part II og III – ekki það að fyrsta hafi reyndar verið eitthvað stórbrotin þó vinsæl hafi verið) eða vilji pönkast og trolla aðdáendur sína ef færi gefst á slíku. Joker: Folie à Deux er í beinu samtali við fyrstu myndina og eyðir mestu púðri í að rifja hana upp og ef til vill yfirheyra hana í sjálfsskoðunartilgangi. Í þessu samhengi einu get ég með glöðu geði sagt að seinni myndin er töluvert áhugaverðari til umræðu en sú fyrri, þá fyrir þær sakir að hún raunverulega reynir að krukka í heilanum hans Arthurs og eiga þessa handaglímu um sensationalisma, möguleika á klofnum persónuleika og andlega kvilla sem skrifast á ógeðfellda æsku hans.

Markmið er auðvitað eitt og framkvæmd allt annað, en heilt yfir rembist þessi mynd svo mikið við að vilja hafa eitthvað séreinkenni og ‘take’ (í stað þess að afrita bara gamlar Scorsese-myndir) að hún fellur hátíðlega um sig sjálfa. Fyrir utan þetta er rétt um bil ómögulegt að sjá hvert 190 milljón dollara framleiðslukostnaðurinn fór, nema þá bara í Joaquin Phoenix, Lady Gaga og þessar fáeinu leikmyndir sem unnið er með. Myndin gerist í raun og veru öll annaðhvort á Arkham-geðsjúkrahúsinu eða í dómssal, nema þegar senur eru brotnar upp með þvældum og stundum taktlausum söngnúmerum sem bæta engum nýjum upplýsingum við framvinduna og eru þarna í rauninni til skrauts og uppfyllingar.
Taktu söngleikjavinkilinn út og þá stendur eftir atburðarás sem spilast út eins og ótrúlega langur eftirmáli fyrri myndarinnar – með tilheyrandi krufningu og gagnrýni á henni. Phillips reynir auðvitað að sjóða þessari klessu saman í eitthvað pseudo-listrænt bíó sem er meira æfing í stílbrögðum en nokkuð annað. Phillips hefur yfirleitt kunnað að skila af sér myndum þar sem kamerufólk og fleiri tæknilegar deildir skila sínu upp á tíu, þannig að stílæfing er góð og gild, en handritslega er Joker: Folie à Deux á pari við hundlangar kappræður um sama hlutinn án þess að nokkur komi með hnitmiðaða samantekt. Á þessu stigi er líka löngu orðið ljóst að allar DC eða Batman-tengdar tengingar eru þessu teymi ofviða og hausverkur. Auðveldara er að selja háfleygt og söngglatt dómsalsdrama ef þú kastar inn nöfnum eins og Harleen Quinzel eða Harvey Dent inn í mixið, hvort sem þú gerir eitthvað við það eða ekki.

Þumalputtareglan er sú að yfirleitt er betra að taka áhættu og sérkennilegar sveiflur í stað þess að endurtaka þá tékkpunkta sem hittu í mark hjá áhorfendum í fyrra skiptið. Phillips og teymi hans hafa farið inn í þetta verkefni með hugarfarið á hárréttum stað en kannski misst sig dálítið í eigin Kool-Aid’i og misst sýnina á því nákvæmlega *hvað* var verið að gera, og fyrir hverja er þessi mynd eiginlega gerð?
Ef þú fílaðir ekki fyrri myndina er möguleiki að þessi gæti farið í aðra hvora áttina. Folie à Deux virðist ekki bara skammast sín fyrir forvera sinn í einhverjum mæli, heldur finnur hún sig knúna til að rífa allan glansinn úr honum (sem er jákvætt, en þó… spes). Myndirnar eru svo samtengdar en ólíkar í meðhöndlun að tilraunin ein er forvitnileg, því það er eins konar heilög krossferð þessarar myndar að refsa öllum sem kölluðu forverann eitthvað ‘meistarastykki’, en við hin sitjum samt uppi með stigmagnandi bugunina að horfa upp á Phoenix tapa sér í karakter sem veit hvorki hvað hann er né hvað hann vill – og hið nákvæmlega sama má segja um myndina. Til að kóróna allt er jafnvel hálf sjokkerandi að komast að þeirri niðurstöðu hvað Lady Gaga fær lítið til að vinna með – og þegar Phoenix er farinn að syngja oftar en hún, hefur þá eitthvað mikið farið úrskeiðis. Eitthvað hefur hann mikið dottið úr æfingu síðan Walk the Line var og hét.
Fyrri myndin var annars vegar argasta tilfinningaklám, sem þessi er hins vegar ekki, en þrennt var það sem gerði hana áhorfanlega; Phoenix, lúkkið og tónlist Hildar Guðnadóttur. Í Folie à Deux má bæta sitt og hvað af punti við en Phoenix er satt að segja bara orðinn þreytandi til gláps þegar karakterinn er svona ómerkilegur sandpappír. Tónlistin ber sjálfsagt af öllu öðru ásamt umgjörðinni en stærstu kostirnir í framhaldinu snúa að ósviknum vilja handritsins til að gubba út úr sér einhverja greiningu á skilaboðum fyrstu myndarinnar. Auk þess virðist sem að sá leikari á skjánum sem skilur allra mest eftir sig er góðkunninginn Leigh Gill (e. Puddles), sem eignar sér langbesta atriði myndarinnar.

Söngleikjafílingnum væri hægt að taka meira fagnandi ef lögin væru eftirminnilegri, með einhverja vigt eða ef meira gert úr myndmáli og litum, en Phillips aðeins rétt svo daðrar við það að lita út fyrir myndina án þess að missa sig almennilega í því. Má vel vera að Folie à Deux sé athyglisverðari á púkalegu meta-leveli heldur en upprunalega myndin en þó alveg jafn frústrerandi í flottu pakkningunum. Stærsti djókurinn lendir auðvitað á öllum sem mistúlkuðu forverann sem yfirlýsingu og lítilmagnasögu um valdeflingu, eða þeim sem sópast að framhaldinu til að sjá frumlegan söngleik og þurfa síðan að hlusta mestmegnis á gólið í laglausum Phoenix. Ætli það sé of seint fyrir Óskarsakademíuna að afturkalla styttuna hans eftir þetta?
Já, og franskir undirtitlar á amerískum bíómyndum eru yfirleitt hallærislegir ef myndin heitir ekki Hot Shots.







Sammála/ósammála?