Unglingsaldurinn er fólki misjafn og getur bæði verið besti tími í lífi einhvers og hinn versti. Þetta er veruleiki sem Guðmundur Arnar Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður virðist fullkomlega skilja og er hvergi skafað af því í kvikmyndinni Berdreymi hvað beiskleiki og nánd fara vel saman þegar sagan segir frá ungum hópi drengja sem hafa sameinast með merkilegum hætti í gegnum sorgir, stríðni sem og hormónadrifna villimennsku. Það er heilmikil þjáning í loftinu sem er yfirleitt ósögð en að sama skapi má finna fyrir því hvað sársaukinn getur oft sameinað sálirnar líka.

Hér segir frá fjórum unglingspiltum sem koma frá brotnum heimilum og eru að reyna að fóta sig í gegnum hið erfiða líf. Ofbeldi, sýnimennska eða niðurrif er þessum drengjum títt tungumál og hlustun eða skilningur annarra ekki beinlínis þeim algengur. Við kynnumst því hvernig ógæfustrákurinn Baldur (e. Balli) verður fyrir gífurlegu áreiti og ofbeldi í og utan skóla – nægilega slæmu til að komast í kvöldfréttirnar. En þar er sagan þó varla sögð nema hálf þar sem inn í þetta spilast óvænt vinasamband með mjúku hrottunum Adda, Konna og Sigga, óútreiknanlegir foreldrar, enn meira ofbeldi, yfirnáttúrulegar skynjanir og ólíklegustu stoðir til tengsla hjá vinunum.

Þó fyrsti act’inn gefi hugsanlega annað til kynna er Balli (Áskell Einar Pálmason) ekki stakur fókuskarakter sögunnar, heldur Addi (Birgir Dagur Bjarkason), sem er einnig þulur myndarinnar, en hver eining þessa hóps skiptir máli. Addi býr yfir hugsanlegri náðargáfu sem hann erfir frá „snarklikkuðu“* móður sinni, Guðrúnu (Aníta Briem), og virðist skelharður að utan með mikinn kjaft en er sama hrædda músin og allir aðrir í kringum hann, fullorðnir meðtaldir. Besti vinur Adda, hinn látlausi Konni (Viktor Benóný Benediktsson) hefur stuttan þráð og sækinn í slagsmál en treystir Adda bókstaflega fyrir lífi sínu og leyndarmálum. Þeir tveir eiga sterka kemistríu sem er með öllu móti ósögð þeirra á milli. Svo má ekki gleyma Sigga (Snorri Rafn Frímannsson), „skrítna gaurinn í hópnum,“ *eins og Addi segir. Það er samviska og sakleysi í Sigga, sem áður var helsta stríðnisskotmark Konna áður en Balli er tekinn inn í þessa hormónafullu litlu, brotnu úlfahjörð.

Það er aldrei nákvæmlega ljóst hvers vegna Addi tekur það skref að reyna að opna sig við Balla og koma honum inn í þennan vinahóp þegar flestir jafnaldrar sjá hann sem úrhrak. En ef Konni á að vera svonefndur leiðtogi hópsins er varla hægt að þverneita fyrir það að Addi er límið og laumuhjartað í honum. Guðmundur segir það aldrei beint út með handritinu en þegar skýrist hvernig Konni og Balli eiga meira sameiginlegt í sálinni en nokkur þorir að viðurkenna, finnum við enn betur fyrir traustinu í garð Adda. Þá á móti fer áhorfandinn betur að treysta honum líka.

Næmni er lykilhráefni Guðmundar í Berdreymi (sem er þægilega contrastað við hversu þykk skelin hjá persónum getur verið) líkt og hans fyrri kvikmynd, Hjartasteini, en raunsæissjalið hverfur aldrei og með afbragðstaumi á ungu fólki í erfiðum rullum er ljóst að Guðmundur vinnur ekkert verk hálfklárað. Væntumþykja hans fyrir persónunum blasir við og tilgerð í dýnamík fjórmenninganna sem hér fá allan fókus er sama og engin. Það er engin sena sem virkar æfð, stíf eða sviðsett.

Realisminn í leikmyndum, kvikmyndatöku, hljóðmynd og tónlist myndar síðan einhvern vænan dans við meiri draumkennda aspekta sögunnar. Það sem eftir stendur er kvikmynd sem fúnkerar eins og hálfgerður fever-draumur eða minnisbrot strengd saman. Kvikmyndatökumaðurinn Sturla Brandth Grøvlen fær líka þarna slatta af prikum á bak við vélina og fer svo sem ekkert á milli mála að gæinn sem skaut t.d. Druk, Hrúta og einna-töku-myndina Victoria kunni sitt fag og það rúmlega. Að sama skapi er tónlistin frá Kristian Eidnes Andersen (Antichrist, Vivarium ofl.) alveg hárrétt stillt, aldrei of yfirþyrmandi eða í melódramanu.

Eitt sem er sérstaklega athugavert í útfærslu myndarinnar – svona á meðan raunsæistónn er til umræðu – og það er smotterí sem virðist hafa fengið á sig einhverja gagnrýni; textaflutningur drengjanna og hvernig þeir eiga það til að vera óskýrmæltir. Af óútskýranlegum og illskiljanlegum ástæðum þótti mér slíkur flutningur aldrei truflandi eða erfiður né óskiljanlegur, heldur þvert á móti trúverðugri í muldrinu og meðan grunnurinn er skýr gefur þetta ennfremra merki um hvað drengirnir eru í raun lokaðir í samskiptum. Í þessu samhengi lumar handritið svakalega á sér þegar kemur að þöglum mómentum og þróunum, hjá aðal- og aukapersónum. Til að mynda er handritið sjaldan að mikla fyrir sér hversu stór karakterboginn er hjá Balla, og hvernig hann dafnar hægt og bítandi með aukinni samveru við vini sína. Þetta er eitt af mörgu sem lítið er verið að blása upp. Þetta er bara þarna og hittir rakleiðis í mark á þeim basis. Mínimalismi tröllríður allflestu en mystísisminn er heldur ekki vandfundinn.

Strákarnir eru aldrei yfir það hafnir að stríða náunganum og fylgja hinum vanafasta ósið unglinga að síendurtekið skima eftir veikleikum í vinum sínum og tönglast á þeim. Þetta er jú, klárlega framlenging á þeirra óöryggi en fljótlega skín það í gegn að allir þeirra eru óöryggir, hver á sinn hátt, en að hegðun þeirra sé líka lúppa á því hvernig aðrir (t.d. foreldrafígúrur) koma fram við þá. Þeir sem stríða minni máttar glíma oft sjálfir við dekkri skugga… nema þeir séu hreinlega fífl. Þegar allt kemur síðan heim og saman vefur Guðmundur litlu smáþræði sína í hrjúfan og ljúfan striga þar sem einangrun og tryggð er til umfjöllunar. Áhorfandinn verður tens á stundum þegar drengirnir eru hverjir í sínu lagi, yfirleitt í kringum eldra eða fullorðið fólk sem ber sín eigin djúpu sár og hafa allt vald yfir ungmennunum. Á hinn bóginn, þegar vinirnir eru farnir að vera saman í sinni úlfahjörð, myndast þarna einhver kyrrð eða öryggi hjá áhorfanda eftir því sem á líður. Þeir hafa hvorn annan. Aðrir sem eru nákomnir þeim eru ekki svo heppnir.

Það er kominn sterkur grunur núna um að Guðmundur sé orðinn fullhæfur með leikara, sama hver aldurinn er, til að þurfi nokkuð að efast um neinn performans sem hér blasir við, eða í öðrum verkum eftir hann (mæli hjartanlega með stuttmyndinni Ártún). Nánast er óþarfi að sigta einhvern út. Allir með tölu eru meiriháttar, í miskrefjandi hlutverkum vitaskuld en hver sér um að gefa vissum stoðum í sögunni sitt vægi. Þau Briem, Ólafur Darri, Sólveig Guðmundsdóttir, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Blær Hinriksson og Kristín Ísold Jóhannesdóttir eru áreiðanleg en sterkastir eru auðvitað fjórmenningarnir; Áskell Einar, Birgir Dagur, Viktor Benóný og Snorri Rafn, en þann síðastnefnda má alveg útnefna húmoristann í öllum alvarleikanum. Sem er vel þegið.

En… þó tilviljanir gangi tvímælalaust betur upp á Íslandi má sjálfsagt deila um hvort handritið gangi fulllangt í líkindum og upplifunum nokkurra drengjanna, þó það sé vissulega einn lykilpunktur tengingar sumra við Adda. Berdreymi er akkúrat svo þægilega mínimal en jaðrar stöku sinnum við ákveðið overkill í dramatík söguframvindunnar. Sagan þurfti ekki endilega að hlaða sig með (segjum) sjö hremmingum þegar fimm voru alveg nóg. Lokasprettur dramaþungans skilar sér þó frábærlega í lokin og klæmaxinn er vel byggður upp, frá jafnvel fyrstu mínútu myndarinnar.

Til að hundskast í átt að einhverri samantekt er Berdreymi bara lifandi og listilega ofin svipmynd af unglingum í togsteitu á milli valds og valdaleysis innan um fullorðna sem eru inn við beinið ekkert ‘fullorðnari’ en unglingarnir.

Þetta er hnitmiðaðri og umdeilanlega betur samsett hjá Guðmundi en Hjartasteinn en að sama skapi miklu þyngri og átakanlegri. Hún má eiga það að vera hiklaust með betri íslensku kvikmyndum sinnar tegundar síðan Lof mér að falla (svona ef við ætlum að ræða alíslenska eymd með sál…). Það gengur nefnilega ekki lengur að Baldvin Z fái að vera eini íslenski auteur’inn með fyrirtaks tök á samspili ungs fólks. Fínt að þeir Guðmundur fái að deila þessu í bili.

Sammála/ósammála?