Ofurnördið Guillermo Del Toro hefur alltaf verið réttur múltítaskari í hárréttu fagi. Það er búið að vera sérlega athyglisvert að fylgjast með því hvað hann hefur sýnt því mikinn áhuga að afbyggja ameríska drauminn og draga eitrið fram úr fjölgölluðum karakterum í gegnum hann.
Fyrst ber að sía út persónuna hjá Michael Shannon í The Shape of Water; sagan krafðist þess að útnefna hann illmenni eða andstæðing þeirrar sögu en Del Toro lagði mikið upp úr því að sýna okkur afar sorglegan og einmana einstakling sem taldi sig réttu megin við samfélagsgildin. Hann var í góðu starfi með fínt hús, kjarnorkufjölskylduna alveg á tæru og fannst bara upp á vanta nýjan flottan glæsibíl til að innsigla drauminn…
… eða raunverulega fylla upp í það gígantíska tómarúm sem fylgir manni sem sækist sífellt eftir nýjum glansi og hreinlega hatar fjölskyldu sína.
Stanton Carlisle er ekki ósvipuð persóna, nema hann er ekki málaður upp sem andstæðingur sögunnar (a.m.k. ekki beint) í Nightmare Alley heldur sjálf sögupersónan eða ‘hetjan’. Persónuboginn hjá Stan er gífurlega blekkjandi við fyrstu og er útlit fyrir að við, sum sé áhorfendur, eigum að halda með honum. En Stan er ekki maður sem veit hvenær nóg er nóg og við tekur einkennileg og skemmtileg saga af græðgi, drifkrafti, síendurteknum blekkingarleikjum og hina stöðugu leit að betra lífi – og þann hryllilega toll sem getur fylgt með slíku. Þetta er mynd um anti-ameríska drauminn.

Nightmare Alley í túlkun Del Toros er ekki endurgerð á samnefndri kvikmynd frá 1947, hún er algjörlega sín eigin aðlögun á skáldsögunni eftir William Lindsay Gresham sem sú mynd var byggð á, en það sem gerir hana stórmerkilega fyrir filmógrafíu leikstjórans er að þetta er hans fyrsta kvikmynd þar sem yfirnáttúruleg skrímsli koma hvergi við sögu. Auðvitað hefur það ekkert leynt sér að mestu skrímslin í öllum hans myndum eru yfirleitt manneskjur og það er að sjálfsögðu aðallinn í þessari mynd. Nightmare Alley er fyrsta tilraun kvikmyndagerðarmannsins til að hella sér í pjúra noir-períódu þar sem blæti hans fyrir grand sviðs- og leikmyndum og táknum í litaþemanu er óbeisluð í andrúmsloftinu. Þar að auki fylgir smá spennandi útúrsnúningur á ‘femme fatale’ klisjurnar og mætti vel lýsa fílingnum sem ‘homme fatale’, þar sem Stan er gangandi lokkandi rauða flaggið sem kemur eða fer í lífi þriggja ólíkra kvenna. Sumar eru heppnar að sleppa frá honum og hans loforðum. Aðrar ekki.
Bradley Cooper hefur í rauninni sjaldan verið betri (já, hann er miklu öflugri hér en í American Sniper, Maestro og A Star is Born til samans) og gæðir hann stigmögnun og dulúð tækifærissinnans Stan öllu sínu lífi með ágætum núans. Cooper er umkringdur Toni Collette, Rooney Mara og Cate Blanchett, sem allar eru upp á sitt besta og þá Blanchett einna mest í hlutverki sálfræðingsins Lilith Ritter, sem eins konar laumu-söguhetja myndar. Þær allar þrjár rjúka af útgeislun og elegans, hver og ein táknandi bæði veikleika og ákveðna markmiðasetningu hjá Stan. Í upphafi myndar er Stan alveg allslaus og á botninum, greinilega flýjandi eitthvað gamalt líf. Cooper er kynntur þarna inn eins og subbuleg, heimilislaus Indiana Jones-fígúra, af útlitinu að dæma, og gengur síðan í gegnum alls konar póla af þróunum. Þegar við skiljum seinna meir við hann (í BRILLIANT lokaskoti) verður vítahringurinn ljósari sem aldrei fyrr. Öll myndin er í rauninni langt tilhlaup að bláendi myndarinnar og því sem þar kristallast fyrir bæði Stan og áhorfendum. Geggjað stöff.
Del Toro hefur sömuleiðis alltof mikla brennandi bíódellu til að leyfa aukaleikurum sínum að fara til spillis og tekst honum oftar en ekki að skapa bitastæða og sterka hliðarkaraktera; hvort sem leikararnir í þessu tilfelli heita Willem Dafoe, David Strathairn, Tim Blake Nelson, Richard Jenkins, Mary Steenburgen eða Ron Perlman. Sarpur hæfileikafólks er eiginlega svo yfirfylltur að sumir mættu doka lengur við. Ofan á það nær það engum enda hversu flott flæðandi og áferðarík kvikmyndatakan er hjá Dan Lausten (Crimson Peak, The Shape of Water ofl.). Það er gjörsamlega allt lagt í þetta lúkk og útkoman er ein best útlítandi kvikmynd leikstjórans, sem er mikið sagt.

Innihaldslega og efnislega er myndin ekki alveg eins mikið konfekt og pakkingarnar (enda virðist Del Toro hafa sjálfur kosið að nota orðið ‘augnaprótein’ frekar en augnakonfekt), en hún er samt mikið sælgæti og grípur og heldur þræðinum vel í tæpan tvo og hálfan tíma. Reyndar er þetta skólabókadæmi um kvikmynd sem er bæði löng með þannig hætti að þú finnur fyrir því en á sama tíma ætti ræman eiginlega að vera lengri. Söguramminn er ÞAÐ umfangsmikill og morandi í forvitnilegum fylgihlutum og fígúrum að ýmislegt tapast á því að einbeita þráðinn nær eingöngu á Cooper. Stan er mjög erfið og óaðgengileg aðalpersóna en stöðug áhugaverð. Nálgunin gengur, hver einasta sena er útpæld í döðlur, endirinn er snilld en tilfinningaleg upplifun myndarinnar verður pínu innantóm þegar ögn meira hefði mátt gera við t.d. Collette og Mara.
Strúktúrinn er líka einkennilegur og gefur upp hvað stærstu merkin um að hér sé búið að höggva niður stærri bókaaðlögun. Sagan skiptist í tvo afar ólíka kafla; frá tíma Stans fátæklegum og upprennandi með sirkusnum og síðar er stokkið fram um nokkur ár þar sem allt er í blómanum hjá honum sem miðill sem kveðst geta haft samband við handanheima. En velgengni mannsins, fjárhagslegur stöðugleiki og ekki síst ást eiginkonunnar er greinilega honum ekki nóg; það þarf alltaf að vera stutt í næsta bragð, næsta leik, e. næsta ‘hössl.’ Hégómi og mikilmennskubrjálæði hefur þessi ólæknandi tök á honum, og það segir sig ef til vill sjálft að aftari söguhelmingurinn halli meira á noir-fílinginn og tragedíuna. Þessi hluti kvikmyndarinnar er umræðuverðari og aðdáunarverðari, en sirkushlutinn er óneitanlega skemmtilegri, ef ekki óútreiknanlegri.

Það er líka svo sem missir fyrir hvaða mynd sem er að kveðja svona fljótt menn á borð við Perlman, Dafoe og Strathairn, sem koma seinni hlutanum lítið sem ekkert við. Söguþráðurinn með pabba Stans hefði líka mátt hafa meiri vigt miðað við hversu lengi hið augljósa tvist þar hangir yfir sögunni.
Nightmare Alley er mynd sem virkilega, virkilega, VIRKILEGA má dást að í þaula en tekst ekki fullkomlega að vera epíkin sem hún svo sannarlega vill vera. Karakterar og þemun skilja helling eftir sig en endastöðin verður fyrirsjáanleg og lokaþriðjungurinn ögn linur, fyrir utan vissulega lokaskotið.
Þetta er samt sem áður frábær kvikmyndagerð, sneisafull af alls konar góðgætum í hljóðum, músík og mynd, og kannski á góðum degi gæti hún átt séns í betri verk leikstjórans. Það þarf ekki að vera í dag, en hver veit.

PS. Ég hef heyrt að myndin eigi að líta brjálæðislega vel út í svart-hvítri útgáfu. Persónulega skil ég old-school mótífið á bak við það og gæti verið forvitnilegt að tékka á því, en það vill bara svo til að litanotkun myndarinnar er ÞAÐ GEGGJUÐ að það er eiginlega pínu sóun að sleppa þeim, myndi ég segja.
PPS. Pínu skondið að Blanchett skuli heita Lilith í bæði þessari mynd og Borderlands…
Ullabjakk, Borderlands…






Sammála/ósammála?