Ef það er eitthvað sem flest fólk getur tengt sig við um alla ævi, þá er það tilfinningin að geta átt í mjög sveiflukenndu sambandi við eigin spegilmynd. Til að bæta gráu þar ofan á alveg sótsvart á þetta sérstaklega við um glamúraða skemmtibransann þar sem kyngerð líkamshlutföll og aldursfordómar ráða öllu í geysilegum heimi hégóma og frægðardýrkunnar. Litlir karlar með stóra starfstitla hafa í gegnum ár og aldir normalíserað óraunhæfar útlitskröfur til kvenna og sýnt heimsklassa hræsni þegar kemur að aldri þeirra. Þarna er ídeal efni í martraðarkennda myndlíkingu um togstreitu leikkonu við eigin sjálfsmynd og forgangsmál til að hún geti áfram átt sess í subbulegum bransa. Fólk fórnar alls konar til að líta vel út og sumir gera jafnvel samninga við djöfulinn.
Áhorfendum er kynnt fyrir stórleikkonunni Elisabeth Sparkle (Demi Moore, með vægast sagt hetjulegan leiksigur) sem hefur fundið frægðarsól sína vera að dvína undanfarið eftir glæstan feril. Hún er varla nýorðin fimmtug þegar hún missir starfið sitt samdegis á stórafmælisdeginum sökum aldursins. Skellurinn er gífurlegur, en þá tekur við sletta af sci-fi tvisti þar sem Elisabeth fréttir af dularfullu lyfi á svörtum markaði sem lofar henni öllu fögru; tækifæri til að búa til yngri, betri útgáfu af sjálfri sér, sem hlýtur nafnið Sue (Margaret Qualley, með enn einu negluna). Þar með ætti hún að fá ósk sína uppfyllta um frestun ellinnar – að vísu innan gæsalappa og aðeins ef hún fylgir tilsettum reglum um notkun. Þessar reglur eru strangar en skýrar og getur öll misnotkun mystísku neysluvörunnar haft óafturkvæmar og stórskaðlegar afleiðingar. Þegar ytri fegurðin stjórnar öllu getur innri ljótleikinn sprungið út með tímanum, og látum.
Og auðvitað þýðir ekkert að kynna svona reglur í hryllingsmynd án þess að brjóta þær…

The Substance er mynd sem þú verður annað hvort að sjá til að trúa eða bara alls ekki undir neinum kringumstæðum horfa á. Heppilega er myndin nokkuð fljót að koma sér að efninu og ef áhorfendur eiga erfitt með fyrri helminginn er sennilega ekki hughreystandi hversu margt og mikið verra er í vændum í þeim seinni. Það þýðir ekkert að skafa af því; þetta er ferlega óhugguleg dæmisaga um linnulaus og eitruð markmið um að halda í ungdóminn og leyfa sjálfsvirðingunni að velta á útlitinu, með tilheyrandi frama og valideringum frá ókunnugu fólki. Þetta er fullkomlega sturluð, tragísk, óþægilega tens, óaðfinnanlega hönnuð og fáránlega frumleg body horror mynd frá stórspennandi leikstjóra með leikurum sem leggja allt undir í látlausum og krefjandi hlutverkum.
Kvikmynd þessi kemur beint úr heilabúi frönsku leikstýrunnar Coralie Fargeat (en hún skaust á radarinn með hinni helluðu Revenge árið 2017) en hér tekur hún nýstárlegan snúning á The Picture of Dorian Gray eftir Oscar Wilde og í þokkabót gusar heilmikill innblástur frá David Cronenberg gerseminni The Fly frá 1986. En svo fer þetta að hnoðast í einhverja allt aðra átt svo úr verði gerólík en þó krassandi frumleg, skömmustulega fyndin og ógleymanleg skepna. Alltaf þegar ég hélt að myndin gæti ekki gengið lengra með umfjöllunarefnið… þá gekk hún miklu lengra, og hélt óslitinni athygli minni hvort sem mér líkaði það í mómentinu eða ekki.

Úrvinnslan veitir nákvæmlega engan afslátt af neinu. Leikmyndirnar eru gjarnan klínískar, minimalískar í umfangi og ferkantaðar en handritið setur allar áherslur í hágír og stíllinn meira svo. Með stemningunni sækist Fargeat í að spegla hvað raunheimurinn er gjarnan ógeðfelldur og farsakenndur í vægðalausri túlkun á baráttu einnar konu við tímann og eigin sjálfsmynd; jafnframt skaðann við taumlausan drifkraft, yfirborðskennda örvæntingu, fíkn og fullkomnunaráttu ásamt tæru meðvitundarleysi fyrir endurteknum mistökum.
Fargeat stillir upp eins yfirdrifinni og agressífri mynd og mögulega hugsast getur um gífurlega jarðbundinn hrylling. Hver og einn áhorfandi þekkir auðvitað best sinn eigin þröskuld fyrir ‘in-your-face’ viðbjóði og má lengi deila um hvort Fargeat sé að teygja aðeins of mikið á lengdinni með endurtekningum eða ekki.
En þá má einmitt líka færa rök fyrir að ofhleðslan í The Substance sé tilgangurinn, eða að minnsta kosti kjarninn. Farið er í báðar áttir með stílíseringuna til að skoðað sitthvoru ýktu hliðina tengdu því sem fólk getur kallað fallegt, ljótt, blætiskennt eða fráhrindandi. Fargeat til dæmis notar miskunnarlaust ‘male gaze’ með kamerunni í senunum með Sue (Qualley). Þetta gerir hún af botnlausri lyst með ágengum nærmyndum en speglar t.d. þetta við ‘venjulega’ óglamúraða líkama Elisabeth. Glansinn er enn síðar meir alveg strípaður burt í síðari hlutanum með algerri ringulreið af abstrakt og háfleygu hugmyndaflugi.

Þessi allegoría um útlitskröfur glamúrheima eða samfélags og þann toll sem þær taka er svo sem nógu skýr til að vera öskrandi augljós, en einhver fjöldi laga leynist þó í stúderingu handritsins á sjálfsspeglun, uppgjöri við fortíðarsjálfið og enn fremur stigmögnunina á sjálfsskaða Sparkles í ólíkum birtingarmyndum. Til að kóróna veisluna styðst myndin við hreint ótrúlegar praktískar brellur með víða og væna getu til að flexa hverju martraðarfóðrinu á eftir öðru.
Mesti sjokk-faktorinn leynist raunverulega í því hvað þær Demi Moore og Margaret Qualley eru með ólíkindum eftirminnilegar; óbeislaðar, berskjaldaðar (bæði líkamlega og andlega), fjöllaga og óttalausar. Söguþráðurinn, myndmálið, klippingin, hljóðheimurinn og hönnunarvinnan er tvímælalaust hérna öll upp á tíu en leikframmistaða þeirra er akkúrat sleggjan sem setur lykilaflið í þessa kexrugluðu atburðarás og í senn það allnauðsynlega lím til að harmleikurinn hangi saman. Því ýktari sem atburðir sögunnar verða, því átakanlegra er að fylgjast með því hversu næm, trúverðug og hrá mannúðin er á skjánum.
Splatterinn er alveg nógu tíður en nánast aukaatriði í stærra menginu því það er miklu sársaukafyllra að fylgjast með því trekk í trekk hvað Elisabeth er heltekin af þessari ‘fullkomnu’ líkamsímynd sem er síendurtekið lögð á konur og hvernig hún finnur hún sig í harðri baráttu við sjálfa sig, eða yngra sjálfið réttar sagt. Samanburður kemur þarna inn sem skaðlegasta tólið þegar sjálfsvirðing er engin án draumaútlitsins. Í einni mikilvægri senu er Elisabeth að undirbúa sig fyrir kærkomið stefnumót, en því lengri tíma sem hún eyðir fyrir framan eigin spegilmynd, því meira lokast hún af og spennist upp. Það eru þessi smærri atriði sem betur mynda kraftinn í allri vitleysunni. Fargeat er ekki að rembast við að segja áhorfendum neitt nýtt eða djúpt, en nálgunin snýst svo sem meira um að finna viðtengjanlegt minimalískt smotterí í þessu fjarstæðukennda eða maximalíska.

Það er ekki hægt að impra nógu oft á hvað Demi Moore sýnir mikinn þrumuleik í hlutverki Elisabeth og Qualley að sjálfsögðu líka sem spræka eintakið, en hvor á sinn ólíka máta. Þýðir heldur að gleyma Dennis Quaid sem er svei mér frábær í hlutverki grunnhyggins drullusokks í merkisstöðu sem dregur afar örlynda, pínlega og sjálfhverfa skíthælaorku með sér í sín atriði enda varir kameran sjaldan of lengi á honum áður en klippt er yfir í næsta skot. Virkar þá eins og myndin verði extra óróleg þegar hann birtist hverju sinni og slær Quaid þarna listilega á þessar háu nótur. Hvað sem má að öðru leyti segja um ánægjugildi myndarinnar er að minnsta kosti ljóst að Fargeat hafi vaðið í þetta voðaverk af mikilli ástríðu með taumi sínum. Hennar sýn er ótvíræð, óforskömmuð, og komin til að vera.
Þegar svona kvikindislega vel gerð og hnífbeitt hryllingsmynd leyfir sér í þokkabót að vera helsjúk (og jafnvel lúmsk) í húmornum og hugmyndum, mun hún óhjákvæmilega dvelja óralengi í heilabúi áhorfenda hvort sem viðkomandi dáist að allri útrásinni eða fyrirlítur hana – og almáttugur, hvað margir munu hata hana. Réttilega svo.
En ef um er að ræða tour de force gildið og tilætluð óþægindi er þetta algjörlega framúrskarandi viðbjóður á nærri alla vegu.







Sammála/ósammála?