Á þessu stigi er sagan og dramað á bakvið gerð þessarar myndar að öllu útlítandi miklu athyglisverðari og meira spennandi en útkoman. Ekki það að þessi rjómalagaða aðlögun á stórvinsælu skáldsögunni eftir Colleen Hoover hafi ekki fullt sem má setja ýmis spurningarmerki við.
It Ends with Us er melódrama sem selur sig svolítið út á það að vera rómantisk uppvaxtarsaga sem rétt skautar yfir það að vilja líka fjalla í einhverju formi um heimilisofbeldi eða rauð flögg. Eðlilega fylgir heilmikil þjöppun þegar bækur eru stílfærðar með þessum hætti, nema útfærslan öll hefur ekki þann núans sem efniviðurinn tekur fyrir þegar kemur að dekkri skuggunum og handritið er alltof rósarrautt og yfirborðskennt til að eftir standi einhver bitastæð saga um ástina, seiglu, sjálfstæði og erfiðar lexíur.

Svo það sé á hreinu, þá hef ég ekki lesið bókina og get ómögulega fullyrt um hvort þar takist eitthvað glæsilega til að kortleggja út söguna hjá tilvonandi blómasalanum Lily Blossom Bloom (þetta nafn…) og sjálfsuppgötvun hennar eftir að hún kynnist myndarlegum skurðlækni. Allt er að sjálfsögðu með felldu fyrst; honeymoon-stigið er í blómanum, kemistrían rýkur (fræðilega samt, við finnum takmarkað fyrir henni á skjánum) en hægt og bítandi fer skurðlæknirinn, Ryle að nafni, að betur sýna viðvörunarmerki um að eitthvað sé ekki í lagi. Það er efnilegur flötur þarna til að skoða betur tengsl og prófíla þeirra, en nálgunin vill helst bara segja frekar en sýna og valsa í gegnum merkispunkta til að viðhalda rennslinu.
En til hvers flýta sér að hápunktunum og samantektinni þegar innihaldið fórnar flestu því sem gefur þá vigt og stoði sína. Því miður stendur þá ekkert eftir nema tilfinningaklám (að vísu prýðilega samsett og leikið tilfinningaklám) sem hefur aldrei þorið í að skoða neitt annað en stykkorð heimilisofbeldis. Átakanleg þemu – svo sem að stöðva hringrás ofbeldis – verða að flötum plottpunktum, því einhverra hluta vegna hefur heildartónn Hollywood-sápunnar meira vægi. Auðvitað er hægt að gera ‘kósímynd’ um þung málefni en þá spilar tónn og karaktervinna inn í mixið.
Fyrir utan heldur grunna persónuprófíla hjá bæði Lily og Ryle á skjánum er samspilið hjá Blake Lively og Justin Baldoni ekki upp á marga fiska heldur. Þau sleppa fyrir horn, en öll næmni víkur fyrir öfgafullum tjáningum og taktlausri væmni á undarlegustu stöðum. Myndin segir okkur hvernig okkur á að líða með vinkli sem líkist meira huggunarmat heldur en vitunarvakningu eða bitastætt drama um flóknar tilfinningar og hvernig hægt er að vinna úr því.

Aftur aðeins að baksviðsdramanu, þá hafa alls konar sögur farið af stað um að Baldoni (sem er líka leikstjóri myndarinnar) og Lively (sem framleiðandi myndarinnar) hafi ekki verið alveg samstíga í verkinu og hafi upp úr þessu komið erjur um tvær ólíkar útgáfur af myndinni með mismunandi áherslur. Baldoni hefur verið duglegur að fókusa á umfjöllunarefni sögunnar og almennt þær umræður í kynningarviðtölum á meðan Lively hefur meira einblínt á rómantíkina í sögunni, eða kjólana. Hermt er Lively hafi átt vinninginn og sé lokaútkoman sú útgáfa sem hún vildi. Sé eitthvað til í þessu er kannski ekkert skrítið að afraksturinn sé fullsykraður og sandpappírsþunnur. Og því minna sem sagt er um aukapersónuna Atlas (leikinn af Brandon Sklenar), því betra. Karakterinn er klunnalega ofinn í atburðarásina og meira gerður að hentugum gesti til að draga atburði frá B til C frekar en fullmótaður einstaklingur í sögunni. Flestar aukapersónur fá samskonar díl.
Bestu atriði myndarinnar koma sjálfsagt beint upp úr skáldsögunni og einlægri samantektinni sem henni fylgir, enda er persónuboginn hjá Lily áhugaverður og tilfinningaríkur á blaði. Lively er hvorki frábær né slök í þessu hlutverki. Hún ber myndina skítsæmilega á herðum sínum en persónusköpunin hrynur í öllum þunnildunum. Atriði sem eiga að rífa í hjartarætur verða í staðinn bara uppfullar af melódramatískum predikunum. Hvort myndin eins og hún leggur sig geri almennt lítið úr heimilisofbeldi er gild fyrirspurn sem fleiri verða að dæma, en það hjálpar auðvitað ekki hvað myndin virðist vera í mikilli handaglímu við sig um hvort eigi að rómantísera eða retróspekta ákveðna hluta. Kannski er hægt að vaða í hvort tveggja, en þá hefði fyrsta skref framleiðslunnar átt að vera að fá annað fólk í verkið en Lively og Baldoni ef gæði eiga forgang.
Hins vegar stógræddi þessi mynd í miðasölunni, sem þýðir það að lokavaran er sennilega séð sem einhver negla. Eða merki um hvernig sykurinn selst oftast betur en meðalið.







Sammála/ósammála?