Starfsstétt trúða tekur líklega enn einn skellinn víða um heiminn sökum stórvinsælda hryllingsmynda. Fólk ætti þó að vera frekar fljótt að geta metið við sig hvort Terrifier 3 kalli til þess eða ekki. Sumir kalla þetta heljarinnar veislu sem mögulega er enn bara rétt að byrja, en aðrir pyntingu, hvort sem viðbjóðurinn gangi þá yfir strikið eða áhorfandi hreinlega bara geispi yfir öllu yfirdrifna volæðinu.

Annars er ekki furða að eitthvað fyrirbæri eins og Terrifier verði að veruleika þegar heil kynslóð kvikmyndagerðarfólks (sem í fullu fjöri hefur verið að víkka úrval og mengi hryllingsmynda síðustu árin) er alið upp á fyrirmyndum eins og John Carpenter, Wes Craven, Sam Raimi, Peter Jackson, jafnvel Kubrick og Spielberg í einhverjum mæli – en þá á The Shining og Jaws-dögunum. Svona miskunnarlaus óður til ’80s slasher- og splattermynda þar sem Damien Leone og hans teymi hefur allt lagt í sölurnar með sínum massífa og múltítaskandi hætti, ekki síst einkennilegri getu til að gera slatta við furðulega lítið fjármagn. Leone hefur ekkert verið að finna upp nein ný hjól, heldur bara slípa þau gömlu allverulega til, að því ógleymdu að hafa raunverulega tekist glæsilega til með að skapa nýtt, framúrskarandi óféti í hryllingsmyndum, demónískan sadistatrúð með látbragðstakta sem minnir á andsettan Buster Keaton.

Hins vegar gat ekki nokkur manneskja spáð fyrir því hvað Terrifier-serían myndi stækka og dafna svona mikið yfir árin. Óháð því hvað viðkomandi einstaklingi finnst um þessar bíómyndir er varla hægt annað en að dást að svona gígantískri sigurgöngu þar sem áhorfendur og aðdáendur hafa hægt og bítandi verið að smalast að þessu í bílförmum.

Það er sjúklega margt við ástríðu, vinnubrögð og metnað Leone og framleiðsluteymisins til að dást að, en áður þótti mér lítið við Terrifier myndirnar til koma annað en stílæfingar og færiband af sjokk-senum. Þá kemur vissulega undantekningin, eða aðalatriðið í þessu öllu og tær púls syrpunnar: þögli, svipbrigðasterki, meinfyndni og eiturhressi trúðadjöfulinn Art, meistaralega gæddur lífi af David Howard Thornton.

Það sést langar leiðir með hverri Terrifier-mynd hvað Leone æfist betur með miklu meira sjálfsöryggi í yfirsýninni á atmói, óbjóði og samsetningu. ‘Art the Clown’ hefur lengi verið að gerjast hjá Leone, í stuttmyndum og slíku, en fyrsta kvikmyndin með honum í fullri lengd kemur út 2016 og kostaði vel minna en 60 þúsund dollara (!)*. Útkoman var vissulega hrá og að mínu mati hrútleiðinleg. Svona ágætis hálftími teygður í 80 mínútur**. Önnur myndin var klárlega stærri (250 k tótal – sem er galið!); flottari, pakkaðri en fór svo langt yfir það að teygja lopann á sínum 130 mínútum að ofbeldið, ‘dramað’ eða viðbjóðurinn á skjánum fór að hafa öfugu áhrifin. Þegar þetta er orðið svona taumlaust endurtekið (og auðvelt er að skilja að Leone vilji monta sig vel af förðunar- og brelluvinnunni sem mest) fer allt sjokk að sogast úr andrúmsloftinu og senurnar verða bara þreytandi ef ekki deyfandi. Önnur væri kannski raunin ef persónurnar, leikurinn eða eitthvað annað í innihaldinu hefði eitthvað til að grípa utan um, verður þá subbugangurinn og dauðsföllin hreinlega sviptur allri spennu.

Þess vegna tók ég því strax fagnandi að Terrifier 3 væri heilum tíu mínútum styttri en forveri hennar, en það er svo sem ekki eina ástæðan fyrir því að hún er hingað til sú besta í seríunni. Hún er beinskeytt, hnitmiðuð, betur leikin (í völdum tilfellum….!), fullkomlega galin, jafnvel hugmyndarík í eigin viðbjóði og hreinasta afbragð af framkvæmd fyrir bíómynd sem kostaði undir fimm milljónir dollara. Einn helsti vandinn við það hvað Terrifier 3 er skemmtileg er að áhorfendur gætu þurft annað hvort á undan eða eftir á að þrauka gegnum hinar tvær.

Thornton hefur aldrei verið betri í burðarrullunni og ‘Art the Clown’ er löngu orðinn að slasher-fígúru sem er vert að nefna í hópi sögulegra kanóna eins og Freddy Krueger, Jason Voorhees, Michael Myers, Pearl, Damien, Ghostface, Gabriel úr Malignant og ýmsa hverja fleiri. Efnislega séð fer líka allt að koma betur heim og saman með persónuna Siennu, sem Lauren LaVera leikur hér í annað skiptið. LaVera þjónar tilgangi sem eins konar sál þessarar myndaseríu virðist vera. Að minnsta kosti virðist persóna hennar vera ágætismerki um að Leone sé annt um eitthvað meira en bara pyntingarklámið og förðunarbrellurnar. Að því sögðu er það ekki bara förðunin og hönnunin sem selur hryllinginn, heldur liggur lykilgaldurinn líka í smáatriðum klippivinnunnar. Blóðsúthellingar eru eitt, en með réttri samsetningu kemur taugatrekkingin.

Leone hefur reyndar aðeins verið að gefa í með ‘lore’ og mýþólógíu sem deila má um hvort styrki óhugnaðinn eða dragi úr honum með enn meiri skrípaleik (ég meina, djöflar, englar, töfrasverð og stöffs… þetta er allavega sveifla). Leone leggur líka fullmikið púður í aukapersónur og augnablik sem stundum gera ekkert nema að éta upp tíma. Kannski skrifast það líka á það hvað Art er fínn til áhorfs þegar hans er saknað hverju sinni sem klippt er yfir á aðra söguþræði eða karaktera. Svo er það Elliott Fullam, sem snýr aftur sem bróðir Siennu, er einnig skárri nú en síðast en gerir ósköp lítið hérna. Upp á karaktersjarma að gera er Antonella Rose miklu betri sem Gabbie, frænka þeirra Siennu. Glittir síðan einnig kostulega í einn Tom Savini og nokkurn Clint Howard, bara upp á djókið.

Og já, Jason Patric er þarna líka.
Hann hefur þá fundist.

Terrifier 3 er samt sótsvört jólamynd en hefði mátt fara ögn lengra með að spila með íkonógrafíur, tákn- og svipmyndir hátíðanna, en myndin er auðvitað vægðarlaus og tryllt afþreying engu að síður sem svipar í þokkabót nokkuð skemmtilega til seinni myndanna í Nightmare on Elm Street-seríunni. Yfir stemningunni hangir alltaf þessi óþægilegi drungi í þeirri fullvissu um að hér er enginn myrtur snögglega og fer heili áhorfandans á tíðum í algjöran spíral yfir þeim nýju leiðum sem Leone finnur fyrir Art til að leika sínar ógeðfelldu listir. Eða hvaða afmyndaða hjálparhella sem hann hefur með sér í för.

Er myndin ‘of mikið’? Í rauninni ekki, þó það fari eftir væntingum, hugarfari, persónulegu þoli áhorfandans eða skilgreiningu hans á því hvað exploitation slasher mynd í smá ’80s grindhouse-stíl ætti að fela í sér. Leone virðist aðeins betur hafa temprað sig á látlausum sadisma og er betur farinn að vera hnitmiðaðri og ekki síst öflugri þegar kemur að því að vita hvenær og hvar skal eitthvað ekki sýna. Þessi afrakstur er skólabókardæmi um lýsinguna ‘ógeðslega gott’ og ég skal alveg þiggja ábót frá Leone fyrst hann er á svona fínu róli.

Gef þessu mína skömmustulegustu sjöu.


*Terrifier (4/10)
**Terrifier 2 (5/10
)

Sammála/ósammála?