Eitt er víst; Transformers One er ein ágætis leið til að halda lífi í stórfræga vörumerkinu frá Hasbro en það er sennilega löngu orðið ljóst að bestu bíódagar þessara róbota séu nú að baki, þrátt fyrir allar ítrekuðu tilraunirnar til að sparka nýrri orkun í hverja nálgun á eftir annarri.

Hugmyndin á bakvið þessa enn einu endurræsinguna hljómar nokkuð skemmtilega; Nú höfum við heila tölvuteiknaða Transformers-mynd sem gerist öll á plánetunni Cybertron og fjallar um byltingu í uppsiglingu hjá róbotunum frægu. Námuvélmennið Orion Pax (sem síðar meir verður að Optimus Prime) þráir eitthvað meira úr lífinu og fljótlega eftir að hann kynnist nýjum róbotum fer hann smám saman að komast að spillingu sem mun gjörbreyta öllu fyrir hann, nýju félaga hans sem og óvini – og jafnvel þá félaga sem eiga óumflýjanlega eftir að verða að óvinum hans. Hefst þá rúllandi ævintýri með miklum flugeldum, sandpappírsþunnri dramatík og mörgum misfyndnum bröndurum en litlu öðru.

Það er svo sem enginn óyfirstíganlegur hjalli en þó velti ég fyrir mér hvers vegna þurfi að vera svona þekktar Hollywood-raddir í hlutverkunum, og þá hvers vegna núna frekar en áður. Eina lýsingin sem flýgur upp í hugann er ‘Stunt casting’. Slíkt þykir mér oftar en ekki býsna truflandi í teiknimyndum þar sem það á oft til að setja óþarfan fókus á celeb-raddirnar sem fengnar voru eða í verra fallinu éta upp meira af framleiðslupeningnum sem mun síðan ekki sjást á skjánum. Það er fátt sem sprengir meira upp tilhugsun um nokkurra töfra kvikmyndanna en þegar lagt er saman hvað sumir leikarar eru með sóðalega háar launakröfur. Miðað við tilþrifin hérna hefði alveg verið hægt að nýta $20(+) milljónir í miklu hæfari raddleikara.

Í akkúrat þessu samhengi er varla hægt að setja mikið út á t.d. Chris Hemsworth, Scarlett Johansson og Keegan-Michael Key. Þau eru ákaflega sæmileg og í fínu grúvi út frá gefnum prófílum, nema hvað að alla myndina er áhorfandinn meðvitaður um að þetta séu Hemsworth, Johansson og Key. Aftur á móti er Brian Tyree Henry frábær með raddtúlkun sinni á D-16 (seinna meir Megatron) og það er pínu brilliant múv að fá Steve Buscemi í hlutverk Starscream og Jon Bailey (aftur) til að ljá Soundwave sína rödd. Því miður gilda þessi hrós um aðeins cameo-hlutverk. Að minnsta kosti fáum við Jon Hamm í banastuði sem ‘óvænta’ illmennið Sentinel Prime.

Stærsti vandinn við þessa Transformers mynd liggur einfaldlega í þessum ‘prequelitis’-heilkennum sem hemla meira svo en að stækka nokkuð umfang eða hugmyndaflug. Þegar forsaga er í svona beinum fókus, þá endar þetta yfirleitt með því að þurfi að stilla upp peðum á kunnuglegan stað í sögunni áður en kreditlistinn rúllar. Eins og það sé ekki nógu leitt, heldur er öll forsagan unnin í kringum þvílíkan ólgusjó af klisjum sem hægt er spá fyrir upp að mínútu. Þetta er sagan um lítilmagna sem breytist í leiðtoga á meðan núverandi leiðtogi reynist vera annað en það sem hann er séður. Með svona úldna en jafnframt klassíska formúlu (veltandi á því hvernig unnið er úr henni….) er þó fínasta svigrúm til að leyfa persónunum að skína. Ef það er ekki til of mikils að biðja um…

Transformers One er sömuleiðis í þeirri einstöku stöðu að vera fyrsta bíómyndin um þessa róbotahjörð sem inniheldur ekki eina einustu manneskju. Þá þarf ekkert misjafnlega merkilegt mannfólk að slást um kjarnaþráð sögunnar eða draga skjátíma frá vélmennunum. Verst er að það hljómar mun betur heldur en reynist vera. Þunnildi eru samt þunnildi og útkoman hér geislar pínulítið af orðunum ‘of lítið, of seint’.

Persónusköpun virðist ekki vera raunsæ krafa í þessu tilfelli þó svo að allir viti hvert framvindan og vináttan stefnir hjá þeim O.P. og D-16 – og leiðin þangað er ekki beinlínis lúmsk eða lágstemmd. Persónuboginn hjá Pax og þróun hans úr þrjóskum, ídealískum draumóra yfir í stóískan leiðtoga er í algerum hágír og er örkin bara nákvæmlega jafn náttúruleg og kröfur handritsins kalla eftir. Hið nákvæmlega sama gildir um D-16, sem fer heimskulega hratt úr því að vera ósköp meinlaus meðvirkur róboti yfir í drápsmaskínu með hefndarþorsta og mikilmennskubrjálæði. Þó að bíómynd sé ætluð börnum er það svo sem engin afsökun fyrir því að bjóða ekki upp á neinn núans. Leikstjórinn Josh Cooley (Toy Story 4 ofl.) ætti að þekkja það vel, miðað við reynslu hans hjá Pixar.

Þó Transformers One sé aðallega ætluð yngri áhorfendum, þá breytir það nefnilega ekki metnaðarleysinu í handritsgerðinni og aflinu sem sogast þá úr öllum glansinum á skjánum. Á móti kemur hins vegar helsjúkur metnaður í útlits- og teiknideildinni og þar nær myndin allsvakalega flugi. Það er eiginlega miklu auðveldara að festast yfir smáatriðum eins og endurkasti ljóss, díteiluðum speglunum og ýmislegu áferðartengdu sem renderast hérna í listilegri myndglæðingu. Transformers One glitrar alveg hreint glæsilega fyrir allan peninginn með sjónarspilinu. Ætli sé þá ekki hálfu markmiðinu náð?

Af leiknu Transformers-myndunum skal ég alveg segja að Rise of the Beasts (’23) og Bumblebee (’18) séu klárlega þær sterkustu af þeim sem eru í boði (og Dark of the Moon (’11) ekki svo langt þar haltrandi á eftir, þó meira fyrir keyrsluna en gæðin…), en ef Transformers teiknimynd í fullri lengd er til umræðu á einhverjum gæðakvarða, þá er afskaplega erfitt að gera betur en Transformers: The Movie frá 1986. Að vísu var þar dansað hæfilega á línunni með að útfæra eitthvað sem væri eingöngu ætlað krökkum. Af dauðsföllunum og volæðinu í þeirri mynd að dæma, að minnsta kosti.

Til að undirstrika það enn og aftur, betri dagar þessara róbota á hvíta tjaldinu eru trúlega vel að baki en ekki lengur framundan í hyllingum. En að þessu öllu sögðu er Transformers One meðalgóð ef ekki þunn, auðgleymd og sakleysisleg afþreying sem mætti hafa meiri púls og hnitmiðaðri sögu. Hérna er meira en nóg hérna fyrir markhópinn til að gleipa upp af bestu lyst án þess að hinir fullorðnu séu rotnandi innanfrá á meðan.

Sammála/ósammála?