Einhverjir spyrja sig kannski „Af hverju ætti ég að horfa á biopic um Donald Trump?“ og það er 100% gild spurning og skiljanlegt þegar umtal í kringum kauða er með öllu móti óhjákvæmilegt, en hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er þessi egódrifna mennska appelsína löngu komin í okkar sögubækur. Hvort það leynist einhver snefill af spennandi vinkli í dramatíseríngu mannsins og hans ‘sigursögu’ til að halda athygli áhorfandans, er betri spurning.

Svarið er – því miður (?) – já.
The Apprentice hefur klárlega sinn vinkil upp í erminni sem fer ekki eftir þessari standard biopic uppskrift og fer sennilega einn af stærri plúsum þessarar framleiðslu sá að myndin hefur verið algjörlega og nokkuð augljóslega unnin í hans óþökk. Það eru hressandi fréttir. Sérstaklega þegar kemur frá manni eins og honum þar sem allt snýst um ímynd og hið ytra. Hvort að The Apprentice reynist vera tennt djúpgreining á persónuleika Trumps er kannski til fullmikils ætlast, en óháð opinberu persónunni eða áliti mínu á honum er nægilega mikið til staðar í þessari mynd til að gefa upp krassandi og athyglisverða svipmynd af því hvernig hægt er að frekjast og hrottast til að gera sinn eigin persónulega Ameríska draum að veruleika.

Ef við reynum jafnvel að gerast svo djörf og strípa frá öllum raunheimatengingum er þetta prýðilega skemmtileg saga af áhrifagjörnum aulabárði og snarringlaðri fyrirmynd hans. Það virðist nefnilega stundum eiga það til að gleymast hvað óprúttni lögmaðurinn Roy Cohn var mikil og mótandi fígúra í lífi Trumps. Cohn var t.a.m. einn helsti ráðgjafi Josephs McCarthy á sjötta áratugnum. Siðferði og vald er hérna í blússandi hráum fókus og The Apprentice hefur eitthvað af kjöti utan um beinin til að bruna hjá í ágætis tveggja tíma rennsli. Sakar heldur ekki hvað myndin er hlaðin góðri tónlist ofan í allt.

Venjan er oftast þannig með biopic myndir að lítið er að frétta af þeim nema hvað þær eru í flestum tilfellum gífurlega vel leiknar, enda um ræðir heilan undirgeira sem er sérsniðinn handa leikurum sem vilja gæða opinbera persónu lífi en þá vonandi af einhverjum núans sem gerir meira en að reiða eingöngu á slappar eftirhermur. Þó leikararnir í The Apprentice séu vissulega brillerandi, og skila af sér meira þrívíðum persónum en mætti deila um að sé einu sinni sanngjarnt í garð sumra. Það er samt frekar handritið sem heldur öllu uppi í þessu tilfelli, með hnitmiðaða ef kannski örlítið ‘episodic’ frásögn og þannig sett upp að við kynnumst einstaklingum skjásins meira en nóg án þess að þurfi að rekja hálfa ævisögu þeirra líka eða æskuslóðir.

Leikstjórinn Ali Abbasi (sem áður vakti ágæta athygli með myndinni Holy Spider) veit vel hvað hann er að gera og fegrar ekkert neinn glamúr með 16mm ‘grainy’-tökustílnum frekar en andrúmslofti myndarinnar yfir höfuð. Handritshöfundur myndarinnar, Gabriel Sherman, hefur reynslu mikla af fjölmiðlastörfum og hafði títt fjallað um Trump, tengsl hans við Cohn, ýmist þar um kring og þá allt áður en maðurinn hreppti forsetatitilinn, í fyrra skiptið…

The Apprentice tekur meira eða minna beinagrindina að ósköp klassískri lítilmagnasögu nema snýr henni á hvolf á þann veg að meinti lítilmagninn er einfaldlega bara forréttindagarpur með langsótta drauma og vill svo til að hann gerist síendurtekið ágengari til að láta þá rætast. Meira að segja hvernig kynni þeirra Trumps og Ivönu Zelníčková eru upphaflega kynnt sem nokkurs konar rómantísk klisjusaga, nema hvað að nálgunin snýst aldrei um neina tengingu né dýnamík þeirra á milli. Hjúskaparhliðin í þessari sögu er algjör harmur, enn einn fylgifiskur einstaklings sem reglulega fer að eigna sér það frá læriföður sínum að aldrei skuli hann taka mark á neitandi svari. Peningar, eignir, titlar og stöðugildi er það helsta sem snýst í kringum huga þessara manna og í akkúrat því samhengi verður Ivana að enn einu eignartákninu.

Lög, siðferði, kurteisi, samkennd, mannlegi þátturinn. Þetta eru allt þættir sem lærifaðirinn Cohn og glæri lærlingurinn Donald blása frá sér og sjá sem veikleika í eigin vegferð jafnt og allra – og forvitnilegra verður að fylgjast með þeim mæli á því hversu mikilli afneitun báðir tveir eru í gagnvart eigin veikleikum. Þegar við kynnumst þeim tveimur fyrst, á Cohn auðvelt með að valta yfir Donald litla. Eftir því sem árin líða og vörumerki Trumps komið meira víða fer valdataflið að snúast við og virðing verðandi Bandaríkjaforsetans fyrir öðru fólki en sér sjálfum nær alveg frostmarki með hverri stigmögnun og þar er Cohn engin undantekning. Þegar Donald er farinn að missa sig á eigin háa hesti verða heilræði Cohns gagnslaus. Jafnvel þegar hann bendir lærlingi sínum á alla augljósu vankantana við áform hans. En að viðurkenna aldrei mistök eða ábyrgð er gullna regla beggja og eðlilega setur það yfirborðskenndu vináttu þeirra í logandi fokk.

Það er í persónu Ivönu þar sem áhorfandinn fær smá tilfinningu fyrir skynsemisrödd; hún er jafn sek um að grípa tækifærin og karlarnir og er fullmeðvituð um að hjónaband þeirra Trumps er reist á samkomulagi um peninga og velgengni. Eftir því sem líður á seinni hlutann fer þó Ivana að fjara út, sem er leitt, því hennar rödd og sjónarhorn hefði í meiri mæli sett meiri vigt til móts við drengina í sviðsljósinu.

Mætti segja að sé nokkuð galið hversu vel Sebastian Stan nær töktunum hjá D.T. án þess að breytast í einhverja SNL-paródíu, með sérstaka áherslu lagða á það hvernig lærlingurinn hægt og rólega fer að klæða, bera og móta sig eftir Cohn og öllum hans talsmáta og reglum. Stan er greinilega meira kameljón í sér en ber fyrst að geta (gleymum ekki leiksigri hans sem Tommy Lee…!) og samleikur hans hérna við Jeremy Strong í hlutverki Cohn er merkilega grípandi. Strong er annars vegar sá sem betur eignar sér alla myndina. Maria Bakalova hefði alveg komið þarna til greina sem senuþjófur skjásins, hefði hún haft sterkari persónuboga, því leikkonan er meiriháttar, enda Ivana klárlega með áhugaverðari einstaklingum sögunnar. Má reyndar heldur ekki gleyma ansi öflugum Martin Donovan í hlutverki Freds Trump eldri.

Hegðunarmynstur ‘karaktera’ á skjánum er aftur á móti ekki neitt til að lesa á milli neinna lína og blasir þetta allt nokkuð beint við, en því miður mætti segja það sama um Trump í raunveruleikanum. Hægt er jafnvel að sjá myndina sem hálfgerðan leiðarvísi fyrir gangverk og tíðu leikbrögð Trumps. Abbasi lætur reyndar kvikmyndagerðina eða handritið aldrei fordæma neitt með beinum hætti heldur lætur bara atvik, mynstur og gjörðir skýra sig sjálfar – vissulega með smá dramatíseringum og ýkjum með listrænu leyfi. Það kemur þó fram í texta í blábyrjun myndarinnar, til að sporna við einu stærsta lykilumfjöllunarefni þessarar bíómyndar; maníska magnið á því hversu oft Trump hótar lögsóknum.

Sama hvort The Apprentice sé unnin af núans eða ekki þykir þó makalaust ólíklegt að harðasta stuðningsfólk Trumps muni taka á móti þessari kvikmynd með örmum opnum. Sennilega mun það fólk bara afskrifa þetta sem falsmynd. Það væri reyndar leitt því þetta er ferlega áhugaverð og fantagóð ræma um nokkuð umræðuverða og ferlega fanta.

Sammála/ósammála?