28 Years Later er með því síðasta sem skýtur upp kollinum þegar hugsað er til orðanna ‘týpísk uppvakningamynd’. Þeir Danny Boyle og Alex Garland hafa verið nokkuð opnir með að hafna klassísku ‘zombie’ skilgreiningunni og þess í stað notast við bræðisvírus sem breytir hinum eðlilega borgara í spastíska drápsmaskínu. Engu að síður eru uppvakningaklisjur og veirufaraldurinn þarna meira nýttur til bakgrunns í sögusviði sem skoðar miklu frekar manneskjuna, einstaklinginn, samfélög, siðferði og mannlegt eðli í staðinn fyrir ‘skrímslin.’ Eða viðbjóð, í hefðbundinni merkingu orðsins.

Á þeim nótum skoðar 28 Years Later líka þessa skrímslavæðingu á sýktu einstaklingunum, enda hvort sem er yfirleitt áhugaverðara að skoða skrímslið í praktískt þenkjandi mannfólki… 

En þarna er sjálfstæð framhaldsmynd og í raun glæný orkusprauta á myndabálki að daðra heiftarlega við eldinn með athyglisverðum þemum, marglaga nálgun og framvindu sem spilar ekki eftir neinni reglubók afþreyingarmynda. Þetta útskýrir sennilega þetta athyglisverða almenna umtal sem þessi mynd hefur fengið. Mögulega gefur það villandi skilaboð þegar svona existentialísk, einkennileg, lúmskt flippuð og drullu-truflandi *kvikmynd* er gefin út á sumartíma, þegar fólk í bílförmum vill oftast bara fá heldur venjulega *bíómynd*. En 28 Days Later var aldrei heldur eðlilegt bíó og töluvert óvenjulegra ‘zombíó’. 

Burtséð frá þessu er leitt að sjá hversu neikvæð orðræðan í kringum myndina hefur verið, þar sem yfirleitt sömu grunnpunktarnir eru nefndir; seinni helmingurinn er slakari en sá fyrri, lokasenan er asnaleg og almennt rennsli myndarinnar þykir víða furðulegt, frústrerandi og eða ófullnægjandi. Svo sem er það ekkert nýtt af nálinni að verk eftir Garland snerti erfiðar taugar hjá mörgum (en óvenjulegra með Boyle reyndar) en persónulega get ég skilið ofannefnda punka en kalla mig samt sem áður feginn því að sú 28 Years Later sem ég sá var stórspennandi út í gegn; einstök, ógeðsleg, ljóðræn, falleg, frussuflott, meistaralega gerð og ef stærri orðin eru notuð; jafnvel ein frumlegasta og ferskasta ‘framhaldsmynd’ síðari ára. 

Þessi mynd er gjörsamlega helluð – og vel þess virði að afskrifa ekki sem misheppnaða eða asnalega uppvakningamynd. Slík ummæli hafa fallið víða, og það er mér hulin ráðgáta (samt ekki…) hvernig svona fáir hafa heilt yfir séð hráa meistaraverkið sem hér er að finna. Kannski leiðir tíminn í ljós öðruvísi umtal seinna meir. Sjáum til…

Jafnvel þótt 28 Years Later væri argasta óreiða og gengi ekki fullkomlega upp er auðvelt að virða nálgun hennar að nánd karaktera og hvernig hún hristir ennfremur í öllum svokölluðum ‘zombie-formúlum.’ Og til að brýna aftur fyrir mikilvægum punkti; Að niðurnjörva þessar bíómyndir niður í flokk eins og að kalla þetta ‘uppvakningamyndir’ gerir meira að segja lítið úr þeim högghelda mannlega fókus sem tröllríðir öllu, að minnsta kosti í Boyle/Garland myndunum (Weeks er ágætis ræma en á hvergi roð í Days eða Years, því miður). Hér eru þemun aðallinn, myndmálsbeitingar, táknmyndir, svipmyndir og yfir höfuð krassandi portrett af hringrás manndýrsins, samfélagshnignun, fordómum og leitinni að tilgangi. Allt þetta er rammað út frá sjónarhorni 12 ára stráks á meðan hann finnur leið sína og gildi í óstöðugum heimi sem hann skilur ekki enn til fulls… frekar en áhorfandinn í upphafi sögunnar.

28 Years Later minnir áhorfandann á hversu hratt samfélög geta hrunið, hversu erfitt það getur verið að byggja þau upp aftur og hversu auðveldlega er hægt að endurskrifa söguna. Myndin byggir með listilegum hætti ofan á forvera sína án þess að festast í baksýnisspeglinum og rúlla yfir einhvern (nostalgíu)tékklista. En nú er vírusinn búinn að stökkbreytast og alveg festast í sessi á einangruðum Bretlandseyjum. Við fylgjumst með einangruðu samfélagi á svonefndu Holy Island eyjunni þar sem gengið hefur um margra ára skeið að halda sýktum einstaklingum frá mannbyggðinni. Boyle og Garland einbeita sér að hinum unga en þursasterka Spike, hætturnar sem bíða honum handan veggjanna og uppgötvun hans á stærri heiminum út fyrir eyjuna. 

Ef eitthvað er það sem má ekki saka ‘28 x Later…’ myndirnar um að vera, það er að vera síendurtekin formúla eða meira af því sama. Þetta er allavega með því beittasta, fríkaðasta og manneskjulegasta sem báðir Boyle og Garland eiga á sitthvorum og samanlögðum ferli. Eitt af skemmtilegri einkennum Danny Boyle-mynda er tvímælalaust þessi geggjun hans fyrir að koma kvikmyndatökuvélum á hina merkustu staði, sem síðar blandast oft við tens klippi-ryþma, kúl tónlist og alls konar tilheyrandi. Til að koma því skýrar í orð, þá fara bíómyndir Boyles aldrei inn af hálfum hug í allan mögulegan stíl, hvort sem umræddur stíll verður yfirdrifinn eða lágstemmdur, sem er hiklaust raunin með andrúmsloftið í 28 Years Later. Útlitið poppar og það meira.

Boyle sameinar aftur orku sína og krafta við kamerusnillinginn Anthony Dod-Mantle. Í kringum aldamótin komu þeir með alls konar tilraunakennt föndur á gamlar digital kamerur þegar til stóð að móta lúkkið fyrir 28 Days Later. Í gegnum árin, með verkum frá til dæmis Slumdog Millionaire til 127 Hours, hafa þeir masterað saman alls konar bræðinga og fikt við stafrænan tökubúnað og stíla. Lukkulega afrita þeir ekki upprunalega lúkkið á Days, heldur eru samankomnir með nýja græjusamsuðu, þar sem Years er skotin að mestu á iPhone 15 Pro Max snjallsíma (með viðbættum linsum) í bland við alls konar önnur mótíf hér og þar. 

Leiksigrar eru nokkrir hérna og sumir hverjir lúmskir. Nýliðinn Alfie Williams er algjörlega frábær í óvænta burðarhlutverkinu sem Spike. Það er alltaf hressandi að fá áminningu um að svona ungir leikarar geti raunverulega skarað fram úr annað slagið án erfiða og hvergi er slegin feilnóta hjá Williams með að gæða Spike þeirri trúverðugu forvitni, sakleysi, seiglu og sál sem hann býr yfir og þróar með sér í gegnum söguna. 

Aaron Taylor-Johnson er líka óvenju marglaga í einfaldleika sínum og minnisstæður sem fjölgallaði faðir hans og Jodie Comer tileinkar sér nokkrar af öflugri senum allrar myndarinnar án þess að gefa upp of mikið. En svo er það líka hvernig foreldrar Spikes eru gerólík sem spilar inn í þennan skemmtilega strúktúr sem allur er byggður í kringum það hvernig Spike fer hægt og bítandi að verða að sínum eigin einstaklingi. Skemmst er að segja frá því að þroskasögur unglinga mættu endilega oftar vera sagðar með svona hressilegum, júník og manneskjulegum vinkli. Svo má heldur ekki gleyma brillerandi innkomu frá Svíanum Edvin Ryding (e. Erik!) og þeirri botnlausu mannúð sem yfirgnæfir performansinn hjá hreint ótrúlegum Ralph Fiennes, í hlutverki persónu sem er annars vegar óumdeilanlega skynsamasti einstaklingur sögunnar, og hins vegar óvæntasti og uppfullur af mýkt á tímapunkti þegar sögunni veitir ekki af. 

Spike upplifir sjálfur ólíkar reynslur af kynnum við sýktu einstaklinganna. Af fullorðna fólkinu í kringum hann virðast skoðanir skiptast á því hvort um sé að ræða ósviknar manneskjur með alvarlega heilsubresti eða heiladauðar drápsvélar. Sökum stökkbreytinga í upprunalegu veirunni eru nú komnar margs konar týpur af sjúkdómnum og í senn ólíkar tegundir hópa, sem ýmsir hverjir vilja helst bara lifa sínu lífi í friði. 

Líkt og oft áður er það ríkjandi í brennidepli hjá Garland að skoða hvað lætur einstaklinginn og fólk tikka, og hvernig breyskleiki mannsins getur almennt gert vont enn verra, veltandi á kringumstæðum og skynsemi. Komið er líka sterkt inn á hvernig hliðstæður myndast við víkinga- og eða miðaldir og almennt hvað fólk getur hratt og drungalega rokið í það að endurskrifa okkar eigin mannkynssögu, veltandi á hentisemi. 

28 Years Later hallast meira að því að vera hrottaleg, dramatísk uppvaxtarsaga frekar en hefðbundin spennumynd. Hún er mynd þar sem efniviðurinn er í stöðugri naflaskoðun og erfitt er að reikna nákvæmlega út hvert framvindan stefnir hverju sinni – sem gerir hana merkilega spennandi í þokkabót. 

Þeir Boyle og Garland skilja síðan áhorfendur eftir á kolrugluðum nótum með dásamlega súrum eftirmála sem bókendar þennan tiltekna kafla með athyglisverðum hætti og gefur upphafssenunni meiri vigt og tilgang. Er þessi lokasena í algjörri tónaflækju við afganginn af myndinni? Umdeilanlega. En passar þetta hugmyndafræðilega inn í þennan óheflaða post-apocalyptic heim sem búið er að stilla upp? 

Engin spurning. Fleiri sénsar velkomnir.

Þá á The Bone Temple leik næst (og leikstjórinn Nia DaCosta tekur við keflinu af Boyle) og tryllt hrós til dreifingarinnar og markaðsfólksins fyrir að gefa hana út 28 vikum eftir þessa. 

Brilliant ræma.

Besta senan:
Lestin!

Sammála/ósammála?