Ef horft er framhjá því hvað F1 er tilkomumikil auglýsing fyrir Formúluna er þetta meira eða minna bara ‘Tom Cruise-mynd’ nema með Brad Pitt í aðalhlutverkinu, að spreyta sig á samskonar hégómasprengju (sem er að sjálfsögðu kvikmynduð fyrir IMAX). Fullkomlega tær afrakstur þess þegar stórstjarna með gráa fiðringinn horfir á eitthvað eins og Top Gun- eða Mission: Impossible-myndirnar og hugsar; “Djöfull væri ég til í eina svona.”

‘Tom Cruise-myndir’ eru hinar einkennilegustu gerðir af svokölluðum pabbamyndum, en í þessum undirflokki mynda hangir alltaf söguþráður hver á yfirnáttúrulegri getu og guðahæfileikum eins manns; sá maður er alltaf Tom Cruise. Sama hvað karakterar mótmæla eða andmæla honum og hans aðferðum; sama hversu mikið fífl Cruise getur verið við aukapersónur, sama hvað öll heilbrigð skynsemi og veraldleg lógík segir; Cruise mun alltaf sanna það að hann hefur rétt fyrir sér og mun þar af leiðandi læra allar aukapersónur og andstæðingar að elska hann, því hann er Tom Cruise. Þessi yfirdrifna stefna Cruise-mynda hefur mest til risið í seinni tíð á hans ferli en mynstrin eru tær – og hin stórlega ofmetna Top Gun: Maverick er eitt besta dæmið um arfaslaka kvikmynd sem er í senn framúrskarandi ‘Tom Cruise-mynd; Flottur viðbjóður. Peningurinn sést vissulega oftast á skjánum en smöggið er óyfirstíganlegt og getur veitt hina tilkomumestu klígju ef gefnir áhorfendur eru ekki að drekka Krús-Aid’ið. 

Sumar eru þó ágætar steypur, en Cruise er enginn Pitt og Brad Pitt er enginn Tom Cruise.

F1 fer ágætlega af stað stemningslega þangað til betur fer að skýrast í hvað efnislega siglir. Það sem tekur þá við er tveggja og hálfs tíma klisjukennd og klígjuleg dramavella þar sem Pitt leikur óspennandi karakter sem gengur nánast eingöngu út á það að kenna og sýna öðrum hvernig hann er bestastur, djarfastur og flottastur, hvort sem innihald handritsins eigi innistæðuna fyrir því eða ekki. Þetta er gargandi ‘wish-fulfillment’ rúnk hjá Pitt. Að vísu, þar sem myndinni er leikstýrt af Joseph Kosinski og aðalframleiðandinn er Jerry Bruckheimer er býsna gefið eða öruggt að öllu hefur aldeilis verið tjaldað til með praktísku geggjunina á skjánum. Og F1 testar algjörlega hvar sú lína liggur um hversu mikið má eða er hægt að hafa gaman að tómum hasar og kappaksturssenum þegar tengipunktarnir eru svona latir og flatir. 

Ef við skoðum Bruckheimer-kvarðann er F1 blessunarlega ekki jafn slæm og Pearl Harbor eða Top Gun: Maverick og í samhengi filmógrafíu Kosinskis er hún í það minnsta skárri en sú síðarnefnda. Þó væri gaman að sjá hann stíga aðeins frá dýrustu farartækjunum og gæla oftar við sci-fi sem er stappfullt af hönnunarblæti, líkt og Oblivion og Tron: Legacy. Með betri efnistökum, öðrum áherslum, minni tilfinningavellu og meiri óútreiknanleika hefði ábyggilega verið hægt að keyra upp meiri kraft í þessu, en ekki lokaútkomu sem hefur spennugjafa á við létt bifhjól sem neitar að taka af stað en gefur frá sér ógurlegan hávaða. 

Pitt leikur Sonny Hayes, dæmigerðan hott-sjotta sem var efnilegur í Formúlu 1 á tíunda áratugnum þangað til óhugnanlegur árekstur hindraði alla hans möguleika. Mörgum árum síðar býðst honum tækifæri af fyrrum liðsfélaga sínum (Javier Bardem) til að aka með F1 liði sem er nánast að hruni komið. Sonny ekur með efnilegum nýliða (Damson Idris) og þarf að aðlagast glænýrri hópdýnamík ef nokkur möguleiki er að ná til sigurs. Eða er það kannski teymið sem þarf að aðlagast Hayes og loðnu leiðum hans til að beita hörku á brautinni?

Stærsti (og lykil-)galli nálguninnar á F1 er einfaldlega þessi óbeislaði fókus á Sonny þrátt fyrir að vera þurr og fyrirsjáanlegur karakter, þegar sagan dansar við miklu stærri þemu um teymisvinnu og styrkleika hvers og eins innan liðsheildar sem samanstendur af lítilmögnum. Það hefur ómögulega verið bíómyndin sem Pitt hefði nett að framleiða eða fronta, því flestir virðast bara þjóna þeirri rullu að raðast upp í kringum Pitt og þjóna hans örk, þegar svo miklu fleiri og forvitnilegri persónubogar eru í gangi hjá sama hópi. Hver veit, kannski hefði þessi bíómynd gjörsamlega tapað innistæðu sinni sem ‘pabbamynd’ ef hún hefði einbeitt sér að einhverjum fleirum en bara Pitt.

Inn í formúluna stíga þarna ágætis aukaleikarar sem fá flestir úr skuggalega litlu að moða, þó Javier Bardem skilji líklega mest eftir sig sem sá maður innan teymisins sem hefur hverju mestu að tapa. Verst eru hvað hin tilfþrifaríku Damson Idris og Kerry Condon verða að litlu (svo ekki sé minnst á Simone Ashley, sem var svo gott sem klippt úr allri myndinni á síðustu stundu…); Idris er um tíma teiknaður upp sem athyglisverð hliðstæða við Pitt áður en handritið sparkar honum á hliðarlínuna. 

Condon leikur hina ofurfæru og stórsnjöllu Kate, sem er tæknistjóri F1 teymisins og með heljarinnar prófíl að baki sér. Á tímapunkti mætti halda að hún sé eini marglaga, mannlegi og raunverulega spennandi karakterinn í sögunni allri – en þá fokkast hún einnig á hliðarlínuna með tímanum og – það sem verra er – leysist hún upp í kraftlausu rómantísku mótleikkonuna. Öll merki um merkilega persónudýpt víkja fyrir köllun hennar í handritinu til að verða bara enn ein konan sem fellur fyrir aðalhetjunni. Skiptir í raun engu hvort sagan, handritið eða general trúverðugleiki aðstæðna eigi innistæðuna fyrir þeirra kemistríu eða sambandi; formúlan krefst þess að sé rómantískur vinkill. En þetta element – eins og nánast flestar aðrar dramatískar uppsveiflur og hindranir í atburðarásinni – rýkur af rembingi, margþreyttum klisjum og gefst í ‘þokkabót’ þá lítið rými eftir til að kappaksturssenurnar (þar sem AÐAL bíóið er…) geti orðið almennilega spennandi, þó flottar og impressívar séu. Merkilegt nokk er þó besta atriði myndarinnar hvergi á kappakstursbraut, heldur er það pókersena þar sem loks eitthvað er fengið að kroppa í þessar helstu persónur af viti. En of lítið, of seigt.

Ef persónurnar eru linar og dramaþunginn steindauður er ekki mikið þá eftir, annað en að dást að praktíska hasarnum og þeim stöðum þar sem Kosinski og tökuteymi hans tókst að festa kamerur á öll möguleg svæði innan kappakstursbrautanna og á ökutækjunum sjálfum.  Fagmaðurinn Claudio Miranda (Life of Pi, Top Gun: Maverick ofl.) vann að minnsta kosti umtalsvert betur fyrir kaupi sínu á kamerunni heldur en Ehren Kruger gerði með handritinu. Annars er Hans Zimmer nú vanur að geta samið gæsahúðaverk eftir pöntun og þeir Bruckheimer eiga mikla og góða sögu af samstarfi sem spannar áraraðirnar. Það er ekki alveg tilfellið hérna. Tónlistarstefin í F1 eru ferlega óeftirminnileg og hljómar þetta ekkert minna endurunnið en mörg hver samtölin á skjánum. 

Þegar spurt er um betri/skárri kappakstursmyndir um egófanta og keppnisskap koma rakleiðis upp titlar eins og Rush (2013) eða jafnvel hin stórlega vanmetna Driven (2001) frá Renny Harlin, sem er nota bene ekkert sérstaklega góð eða vel gerð mynd en í það minnsta hugar að líflegum hópi og heldur skemmtanagildinu uppi. Báðar þessar ‘formúlumyndir’ að minnsta kosti betri útfærslur á sambærilegri söguframvindu, nema frá breiðari og áhugaverðari vinklum (þó besta ráðið væri sjálfsagt bara að mæla með heimildarmyndinni Senna, sem er frábær). Best er þó bara að sjá og meta F1 sem stórlega heilalaust bíó sem fúnkerar eins og ræman taki sig miklu, miklu alvarlegra en það. 

Ef áhorfandanum þyrstir í einhverja loftlausa ‘90s throwback-(pabba)mynd’ um egó, kjaftagang, hindranir, áhættu og sigra sem skríður meira í flæðinu en rennur og með tilfinningadýpt á við Michael Bay-mynd, þá er F1 sennilega ekki galið val. Áhugasamt fólk um Formúlu 1 og tilheyrandi menningu gæti trúlega fundið fyrir einhverju auka kitli þarna líka, ef það telst ekki til of lítils sigurs. 

Annars fer ekki að líða á langt þangað til að æskilegra væri að koma Bruckheimer gamla á eftirlaun. Framlag hans til ‘pabbamynda’ í gegnum áratugina hefur verið ómetanlegt, en allt rennur sitt skeið.


Besta senan:
Pókerinn.

Sammála/ósammála?