M3GAN 2.0 gerir það sem framhaldsmyndir af vinsælum hrollvekjum mættu gera meira af; breytir algjörlega um stíl, tón, nálgun og spinnur nýtt ævintýri með gerólíkum hráefnum en án þess að glata anda forverans. Hún tekur í það minnsta kosti sénsa með að láta slasher-þriller formúluna eiga sig til þess að útfæra eitthvað fáránlegra, ýktara, stærra og metnaðarfyllra. Í skemmra máli, hún tekur ‘James Cameron’ (Aliens og enn fremur T2) gírskiptinguna á þetta, þar sem hryllingi er skipt út fyrir hasarveislu, sem hefði getað endað klúðurslega ef leikstjórinn og teymið kynni ekkert á slíka tónabreytingu og stigmögnun. En einhvern veginn tekst að halda partíinu gangandi. Jafnvel þó breytingin gæti steindrepið áhuga fólks sem elskaði fyrri myndina. 

Velgengnin hjá upprunalegu M3GAN var ekki óverðskulduð, enda fínasta litla ‘barnahrollvekja’. Ágætis afþreying sem gerði allt sem hún gat við sínar PG-13 hemlur (því aldeilis voru það hemlur!). M3GAN 2.0 er annars vegar mun brattari og skemmtilegri í keyrslu; óútreiknanlegri, óvæntari, yfirdrifnari, skarpari og hressari bíómynd á alla vegu.

M3GAN 2.0 glímir vissulega við þetta nákvæmlega sama vandamál; hún er undarlega hrottaleg í atburðarásinni en makalaust mild og krakkavæn í útfærslunni*. Þessi mynd má þó ögn betur við þessu þar sem PG-13 stimpillinn passar frekar við kómíska hasarmynd frekar en hrollvekju sem reiðir sig á andrúmsloftið og sjokk-áhrifin. Mögulega gæti þetta líka tengst einhverju Terminator 2 heilkenni en M3GAN sjálf, sem persóna, er miklu skemmtilegri til gláps þegar hún er í ‘góða’ liðinu. Svo ég tali nú ekki um þegar helsti ágreiningurinn snýr skyndilega að heimsöryggi í húfi og titilpersónan fær það verkefni að stöðva grimmilega gervigreindarpíu, hana Ameliu, frá því að ganga berserksgang og gera allt vitlaust.

Samhengisins vegna, þá má líta á Ameliu sem samskonar tegund af vonda Tortímandanum úr Rise of the Machines, nema raunverulega ógnandi og grípandi til gláps. Ivanna Sakhno er fáránlega svöl (í fyllstu merkingu orðanna) í þessari rullu og er svo sannarlega ekki umkringd fámennum hópi. Flestir virðast líka hæfilega undirbúnir í þeim skilningi að leikararnir taka efnið og innihaldið aldrei *of* alvarlega. Í réttu tilvikunum getur það barasta verið rokkandi góður hlutur.

Vill líka svo til að Violet McGraw, sem leikur undrakrakkann Cady, hefur heilmikið vaxið sem leikkona á milli mynda og fer létt með nýju áskoranir hlutverksins. Ekki er alveg hægt að segja það sama um Allison Williams, sem virðist eitthvað oggulítið áhugalaus og kraftlaus öðru hverju. 

Fáir hafa samt sýnt jafn vöxt á hæfileikasviði sínu eins og leikstjórinn Gerard Johnstone, sem að mínu mati hefur tekið allt sem fyrri myndin hefur kennt honum og stórlega aukið úrval sitt af kúnstum fyrir aftan kameruna. Það er líka ákveðinn púkaskapur í stemningunni sem bragðbætir atburðarásina og hasargrautinn. Áhættan hjá Jonhnstone, James Wan og Akelu Cooper (en saman skrifa þau handritið) liggur helst í því að snúa upp á allan alvarleika sem fyrri myndin hafði byggt upp, og nánast breytt öllu í manískt húllumhæ. Það er auðvelt að skilja hvers vegna það slekkur á sumum aðdáendum**, en ef það virkar, þá virkar það. Þess að auki er seinni myndin líka töluvert sprækari í húmornum og hreinlega bara miklu fyndnari. Án þess að segja of mikið, en eitt tiltekið lítið ‘söngatriði’ fór alveg með mig. Á góðan hátt (full alvara, ég var í kasti). 

Sem skondin ádeila á tækni virkar M3GAN 2.0 líka bara talsvert betur. Myndin neitar að minnsta kosti að eltast of mikið við skottið á forvera sínum og tekur sína innri (og ytri) vitleysu alveg skömmustulaust til hins ítrasta, og þessi litla sataníska gervigreindardúkka nær með einhverjum undraverðum hætti að vinna mann á sitt band.

Og aftur, þetta endemis söngatriði gerði daginn minn.***

*Sjáum hvort ‘Unrated’ útgáfan nái að bragðbæta eitthvað þegar að því kemur.

**Fúlt að þessari gekk ekki nógu vel í aðsókn til að réttlæta eina uppfærslu í viðbót.


Besta senan:
***Dö.

Sammála/ósammála?