Jurassic Park er gjörsamlega frábær. Eldist þokkalega og rúllar enn glæsilega með fjarstæðukennda hugmynd sem poppkornsmynd pakkfull af skemmtilegum persónum, eftirminnilegum spennusenum og ofar öllu brillerandi stemningu. Músík, brellur, öskur, allt framúrskarandi.

Svo eru til hinar myndirnar…

Lífið finnur alltaf leið. Þetta á sérstaklega við þegar massagróði er í spilum. Það hlýtur allavega að mega skrifa einhverja sérstaka kaldhæðni á myndabálk – sem fjallar um ónáttúrulega blóðmjólkun á tilraunadýrum í skemmtitilgangi – og hvernig hann breyttist í akkúrat þá peningamaskínu sem upprunalega myndin gagnrýndi að í gæti stefnt. Lífið sennilega bara endurtekur sig. Veltandi á gróða.

Þegar Júragarðurinn byrjaði fyrst að ná stórvinsældum á veraldarvísu fór höfundurinn Michael Crichton að finna skondna leið til að teygja á eigin lopa og halda batteríinu gangandi: Eyjurnar með risaeðlunum voru tvær!

En hvað er þá hægt að gera með efniviðinn ef til stendur að smækka allt niður aftur úr heimsfaraldri rándýra yfir í einfaldan leiðangur að einni hættulegri eyju? Nú, svarið við því er einfalt: Bætum við annarri eyju!

Jurassic World: Rebirth gerist einmitt á mystísku ‘þriðju’ eyjunni þar sem gerð voru alls konar afbrigðilegar tilraunir á risaeðlum og blöndunum tegunda; hér eftir kallaðar Slysaeðlur. Eins og hefðinni fylgir, að minnsta kosti ef við skoðum línulegu Júragarðslógíkina, þegar daðrað er við svona sturluð vísindi, fer allt úrskeiðis sem mögulega getur farið úr böndunum þegar kæru- og hugsunarleysi mannskepnunnar er skaðvaldurinn. Og þá við minnsta tilefni.

Þá spólum við áfram um einhvern árafjölda og fylgjumst svo með málaliðum og sérfræðingum að elta uppi þrjú sýni frá ólíkum tegundum af eðlum. Til að söguþráðurinn fari ekki að detta fullmikið í ‘fetch quest’ tölvuleikjamótíf, þá blandast sakleysisleg fjölskylda inn í hópinn til að flækja fyrir sendiförinni svo betur verði hægt að teygja á eltingarleikjunum. Til að reyna að koma í veg fyrir of mikið deja vu er tilraun gerð til að gefa okkur slysaeðlur sem ættu að þykja martraðarfóðri líkar en breytast í rauninni bara í hverjar aðrar skepnurnar. Hver áhorfandi þarf að meta fyrir sig hvort það sé til hins betra eða ekki að snareðlurnar séu nú komnar með vængi og líkjast brjáluðum kjúklingum meira en nokkru sinni fyrr.

Jurassic-myndabálkurinn hefur alltaf verið í vissri ‘identity’-krísu. Nú þegar einingarnar eru orðnar sjö talsins, með tveimur endurræsingum, er skýrara en áður að hér er myndabálkur sem hættir ekki að elta skugga betri daga sinna. Slíkt markmið er svo sem ekkert af hinu óeðlilega en tilraunirnar verða nógu kómískar þegar aðeins ein þessara sjö bíómynda mætti kalla meiriháttar, og hinar allar samansafn af sprettum sem betur virka sem sjálfstæðar senur en hluti af ágætri heild.

Jurassic World: Rebirth (sumsé sjöunda myndin í heildarröðinni, fjórða ‘World’-myndin og önnur endurræsingin…) er klárlega með ‘betri’ framhaldsmyndunum, allavega með best leikstýrðu hasarsenunum síðan The Lost World. Hún er eins og nokkuð góð afþreyingarmynd sem var þó tekin of snemma úr ofninum. Reyndar er myndin ekki ferskari en það að spilast út eins og örlítið hnitmiðaðri útgáfa af þeirri ‘Jurassic Park III’ sem kom út á sínum tíma. Strúktúrinn er keimlíkur, prófílar persóna af sambærilegu kalíberi, tenging við forvera alveg mínimal og rennslið öskrar ekki beinlínis ‘replay-gildi’. Að þessu sögðu, af afritum að vera er ýmist ánægjulegt að finna hér í Rebirth og skrímslaaðdáandinn Gareth Edwards heldur í fastar hefðir sínar, bæði hvað helstu styrkleika hans varða og veikleika.

Edwards hefur nefnilega í ríkjandi tilvikum (t.a.m. Monsters, Godzilla, Rogue One…) verið temmilega sterkur í því að huga að andrúmslofti, grípandi römmum, gæsahúðarmómentum og ekki síður að listinni að selja skalann eða epíkina á þeim skrímslum eða heimum sem hann leikur sér með.

Fyrir hvern ágætan kost hjá Edwards hefur yfirleitt fylgt honum þreytandi hængur eða hængur sem að minnsta kosti getur auðveldlega leyft góðu skrímslapartýi að gliðna hratt í sundur; persónurnar í myndum hans eru sjaldnast upp á einhverja fiska, og sumar þeirra næstum því algjörlega óþarfar.

Delgado-fjölskyldan er þarna prýðisdæmi, eða réttar sagt karakterfjöldinn sem samanstendur af miðaldra föður, dætrum hans tveimur og óþolandi kærasta einnar þeirra. Leikararnir standa sig þokkalega og þar sérstaklega ber hin 12 ára Audrina Miranda af hópnum en það er undarlega lítill bogi til að vinna með í tengslum við þennan hóp. Allar helstu deilur þeirra á milli leysast upp úr miðbikinu og lítið svigrúm í narratívunni til að rækta þetta fólk af viti. Auk þess er þessi fjölskylda að megnu til aðskilin lykilhópnum (þ.e. Scarlett og vinum) og verður það greinilega sögunni efnislega ofviða að flakka á milli sitthvors hópsins.

Það mesta sem við græðum á þessum hópi er tvennt; ein kostuleg sena með grameðlu og gúmmíbát, og þar að auki er það sjálfsagt óskrifuð regla að aldrei megi gera Jurassic-mynd án þess að troða krökkum einhvers staðar fyrir, af lykilmarkhópi myndanna að dæma. Af þessum afrakstri að dæma kemur þetta meira út eins og sölutengd ákvörðun frekar en nokkuð annað. Ekki nóg með það, heldur finnst svo lítið fyrir yngri stelpuna að gera, að handritið neyðist til að grípa í þá hundgömlu klisju að gefa henni krúttlega flækingseðlu að gæludýri. Af því bara. (Að minnsta kosti er þetta skref upp frá því að vera með klónaða krakka!)

Persónutengd augnablik rista alfarið grunnt í þessu ævintýri og stundum minna en það. Jurassic World: Rebirth hangir þá lauslega saman á tissjú-þunnri framvindu sem nær með ágætis rennsli að fleyta atburðarásinni frá einum hasar til þess næsta. Edwards virðist líka með það hugfast að Jurassic-myndirnar hafa vanalega gengið hvað best upp sem hálfgerðar existentialískar horror-myndir um skaða óvitiborna mannsins þegar hann ruglar í náttúrulögmálum og vísindum í gróðaskyni. Rússíbanareiðin er aukaatriði en rúllar með ólíkindum betur þegar persónur á skjánum eru hvorki peð né einvíðar handritsuppfyllingar.

Eitt sem Jurassic-framhaldsmyndirnar hafa líka skammarlaust einbeitt sér að, sem fór töluvert á skjön við almenna nálgun fyrstu myndarinnar um að leyfa ekki stórleikurum að hirða sviðsljósið. Í upprunalegu Jurassic Park voru risaeðlurnar helstu stjörnurnar og karakterarnir sem röðuðust upp í kringum þær voru leiknir af bæði hæfileikaríku en ofar öllu frekar ófrægu fólki í denn. Það munar um töluverðan faktor í spennuuppbyggingu þegar myndirnar eru meira gerðar að þrillerum fyrir uppsprengd hlutverk nafna eins og Jeff Goldblum, Sam Neill, Chris Pratt eða núna Scarlett Johansson til að pósa í óbyggðunum og leika hversdagshetjur. Þegar leikararnir eru farnir að bera sig eins og þeir séu stærri en risaeðlurnar, þá glatast eitthvað stærra í leiðinni.

Johansson er ekki alslæm í þessari mynd og það er ekki við hana að sakast hvað karakter hennar er grunnur með þykka plott-brynju. Ekki ólíklega hefði verið öflugri leikur að gera meira úr systrunum, sem eru þær Miranda og Luna Blaise. Þær skilja allavega eitthvað meira eftir sig, eða sýna allavega meira spennandi merki um að eitthvað meira rætist úr þeirra persónum. Jonathan Bailey er síðan óneitanlega pínu dúllulega viðkunnanlegur sem risaeðlunördið sem flækist þarna með málaliðunum.

Galdurinn liggur líka í áherslum. Það má nefnilega ýmist segja um smágallana í Jurassic Park en ‘vitfirrt og berþunn skrímslamynd’ er að minnsta kosti ekki það sem poppar upp í hugann. Á móti er hægt að nota þessi orð um hverja og eina einustu framhaldsmynd í röðinni. Í akkúrat þessu samhengi nær Jurassic World: Rebirth að ganga upp sem fínasta poppkornsbíó. Myndin glímir reyndar við þann vanda að vera hlaðin of mörgum persónum og það er heldur auðveld píla fyrir áhorfandann að geta til um hverjar þeirra þykja nógu ómerkilegar til að breytast í beinasta skrímslafóður. Þess að auki er aldrei tilefni hjá áhorfendum til að efast neitt sérstaklega um öryggi þeirra mikilvægustu. Í þessum tilfellum er auðvelt að dást að litanotkun leikstjórans, reykvélum, skuggum og myndrænum þokum, en stærsti aðdrátturinn og spennugjafinn veltur á tengslum áhorfandans við þetta fólk sem flýr frá déskotans dýrunum. Því ekki er ætlast til þess að við höldum með slysaeðlunum…

Það eru óneitanleg vonbrigði innifalin í því hversu lítið David Koepp nær að hnoða úr þessu sjöunda eintaki í ljósi þess hvað hann reynir að vinna mikið úr hugmyndum úr bókunum eftir Crichton. Eftir að Chris Pratt-serían tók stigmögnun Júraheimsins og útbreiðslu eðlanna á hina fáránlegustu staði, með allan heiminn í húfi (!), er þægileg tilbreyting fyrir Edwards og hans teymi að skala geðveikina aftur niður í einfalt viðmið: Persónurnar geta flúið eða verið étnar! Áherslurnar í Rebirth eru réttar varðandi tón og hugmyndaflug en smáatriðin skrifast líka á sjálfan Koepp í tengslum við þann fjölda skipta þar sem áhorfandinn þarf að meðtaka pínleg samtöl eða ákvarðanir sem standast enga heilsteypta lógík nema bara til að keyra karaktera frá B-punkti til C-punkts. Hægt og bítandi leiðir þetta til bensínlausrar keyrslu.

Frá senu til senu eða út frá yfirborðinu einu er Rebirth með naumindum þess virði að fórna tveimur klukkustundum í, aðallega því hasarinn er með þeim fjörugri úr allri seríunni (einna helst kaótíkin á bátnum!). Að vísu leynir sér ekkert hversu hátt glymur í tómu tunnunni hvað allt annað varðar sem er ekki pjúra sjónarspil.

En hver horfir svo sem á Jurassic-mynd á þessum tímapunkti með kröfur um núans, persónusköpun eða frumleika?

Kannski er skynsamlegra að leyfa bíóinu bara að stúta heilasellunum á meðan maður leyfir sér að skrækja og góla með öllu hinu jákvæða sem eftir stendur.

Sammála/ósammála?