Superman 2025 hefst á einhverjum ferskasta opnunarkafla í ofurhetjumynd fyrr eða síðar. Allt sem áhorfandinn þarf að vita er útskýrt með hnitmiðuðum texta; Í þessum nýja DC Studios bíóheimi hafa ofurhetjur verið til í aldaraðir. Temmilega sjóaður Superman hrapar á suðurskautið eftir að hafa tapað sínum fyrsta bardaga, kallar á ofurhvuttann Krypto til að sækja sig og er síðan dreginn heim í kristalsvirkið sitt. Fjórir róbótar taka á móti honum við aðaldyrnar og hjálpa honum aftur að ná heilsu. Hann nær ekki fullum bata en nægilega miklum til að gyrða sig í ofurbrók og skjótast aftur út til að klára bardagann. Mynd er hafin. Heimur er settur.
Engin origin-saga. Enginn formáli á plánetunni Krypton áður en hún springur. Engin aðlögun hetjunnar að samfélaginu né opinberun. Beint í hasarinn og ekkert slor. Það þekkja svo sem fleiri söguna af Kal-El, sveitauppeldi hans og veikleika í fleiri smáatriðum en margir eflaust gera með eigin trúarbrögð. En með rennsli og upplýsingastreymið í Superman 2025 fer James Gunn rakleiðis í stóra og súra stöffið úr myndasögunum. Það gæti verið auðvelt fyrir hinn almenna áhorfanda að halda að hann væri stokkinn í aðra eða jafnvel þriðju myndina í seríu sem löngu er búið að koma af stað. En aldrei verður svo sem þessi bíómynd neitt ruglingsleg, þó margar af ákvörðunum Gunns með efni og stíl kunna að vera ruglaðar.

Superman 2025 er hröð, orkumikil og hressandi skemmtun ofar öllu, og mikið bíó. Hún er líka frekar tilfinningalega þurr, svakalega stöppuð efnislega séð í bland við það að vera fræðilega býsna einföld í söguþræði en um allar trissur í útfærslu. Fyrir það hversu mikill kraftur kemur með allri keyrslunni gefst samt lítið svigrúm til að leyfa senum og samböndum að anda þar sem atburðarásin er trekk í trekk á hreyfingu. Stórir plottþræðir koma og fara og áður en áhorfandinn fær tækifæri til að meðtaka nákvæmlega dramatíska þungann eða áhrifin áður en sagan er rokin í næsta plottpunkt. Þetta kemur vissulega allt heim og saman í einhverjum mæli, en það er samt örlátur lestur á handritinu. Hinar fáránlegustu hindranir leysast óvenju hratt eða þægilega því undir flestum kringumstæðum eru fjórir aðrir boltar í sögunni á lofti sem þarf að klippa yfir í og sinna.
Þegar líða fer á lokahlutann verður því myndin orðin meira að ágætu sjónarspili nema lítið er um eða eftir af spennu ef ekki smá adrenalíni. Heppilega er Gunn með kjarna myndarinnar skýran, en sá kjarni er hreinlega grafinn í kraðaki af persónum, vendingum, útúrdúrum og (verst af öllu) endurtekningum í ringulreið hasarsins. Að því ógleymdu að Súpermann laminn svoleiðis oft og ítrekað í klessu 75% af tímanum, bæði líkamlega og andlega, að það eitt og sér verður að pínu ljótum brandara (og Clark talinn vera slakur penni til að kóróna allt…).

Gunn er svolítið vafrandi á milli þess að móta kaldhæðinn og grínhlaðinn tón við þemakjarna sem er hlýr, mannúðlegur, berskjaldaður, einlægur og upplífgandi, en úr þessu verður þó óneitanlega til viðkvæmur tónabræðingur sem tekur að minnsta kosti öllu skrípói og ofurhetjusulli fagnandi. Það sést langar leiðir að Gunn hefur hérna lagt í sína ‘myndasögulegustu (nei, það er örugglega ekki orð) bíómynd til þessa. Þetta er ýkt, háfleyg, stundum hreint út lifandi teiknimynd, og Gunn leikur sér með abstrakt hugmyndir og sturlaða brelludýrð af bestu lyst. En.. þessi síendurteknu gleiðlinsuskot með tíðum kamerusnúningi hjá Gunn og tökumanninum hans eru ekki að gera þessum stíl mikla greiða.
Það er trúlega einn stærsti feillinn við þessa mynd; hún lítur bara ekkert ofsalega fallega út á stílísku leveli, hvað þá fyrir þennan framleiðslupening. Þetta er verulega smekkstengt og þetta er augljóslega meðvituð stílísk ákvörðun (ekki ósvipuð og þegar J.J. Abrams var með þráhyggju fyrir linsuglömpum) en ‘skært, súrt, bjart og beint-í-andlitið’ er greinilega takturinn sem hérna yfirgnæfir allt. Þetta er samt þreytandi flex og það hjálpar ekkert svakalega heildarsvip myndarinnar hvað mörg brelluskotin í myndinni eru klessuleg og óslípuð. Alls ekki algilt, enda alveg eitthvað magn af augnakonfekti þarna líka. Annað slagið.

Yfir í aðalmanninn sjálfan; David Corenswet (Pearl, Twisters) er gífurlegur fengur og frábærlega valinn í hlutverk þessarar sögufrægu persónu sem hefur í áratugaraðir verið tákn góðra gilda. Corenswet leyfir elskulegum aulanum í Clark Kent/Supes að skína og fer hann létt með að vera viðkunnanlegur, tignarlegur, oft skemmtilega lúðalegur og hvatvís. Corenswet stendur sig allavega glæsilega og sannar sig sem efnilegan alveg frá opnunarsenunni áðurnefndu. Kemistría hans við Rachel Brosnahan er með helstu hápunktunum, enda Brosnahan meiriháttar góð sem Lois Lane. Hún er betur skrifaðri karakter heldur en (til dæmis) í túlkun Amy Adams og vefst prýðilega í söguna og með sína eigin litlu karakterörk. Ef sagan væri ekki stöðugt sprettandi á milli persóna, hindrana, hasars og annarra uppákoma, hefði Brosnahan getað tvímælalaust stolið allri myndinni. Af henni geislar nánast meira en Corenswet (ótengt þessu; þá mæli ég innilega með henni í þáttunum The Marvelous Mrs. Maisel), en lukkulega smella þau bæði fullkomlega, saman eða hvort í sínu lagi.
Það er erfiðara að segja hið sama um Nicholas Hoult, sem spilar á þennan Lex Luthor í fullháum og einhæfum hatursgír. Hoult er stórgóður leikari en Gunn skrifar persónuna upptrekkta af svo mikilli froðufellandi heift að það er eins og hann sé að reyna að miða mest til yngri markhópa – þar sem vondi karlinn er VIRKILEGA vondur – en súbtextarnir, grimmdin og öll áherslan á þvældan pólitískan ágreining í sögunni styður ekki alveg við það. Luthor virðist líka einna mest lenda í samtölum og frösum sem gætu hafa betur lúkkað á blaði eða í hasarblaði heldur en flutningi. Sumt sem Hoult æpir út úr sér bara hljómar ekki vel. Líkt og predikun aðalhetjunnar um alla þá þætti sem gera hann mannlegan.

Talandi um eitthvað sem hljómar ekki vel, þá verður að segjast að það voru mikil mistök hjá Gunn að rímixa/uppfæra klassíska John Williams þemalagið í stað þess að lagt sé í glænýtt stef. Með útkomunni kemur það meira út eins og tilraun til þess að gefa völdum áhorfendum ákveðið nostalgískt öryggi e. falska huggun frekar en bíómyndatónlist sem fullkomlega small við þessa tilteknu mynd, þessa túlkun og endurræsingu. Ég verð þess vegna, og eiginlega af gremju, að veita Zack Snyder myndinni sterka yfirhönd í þessari deild, því að minnsta kosti fengum við geggjað nýtt þemalag frá Hans Zimmer.
Kannski er það óhjákvæmilegt að bera þessa Superman saman við Man of Steel að einhverju leyti. Það stígur þó ekki upp neinn sérstakur sigurvegari í þeim samanburði því bíómyndirnar eru eins svipaðar í léttum bylgjum og þær eru algjörlega gerólíkar í nálgun – en hvor í sínu lagi fín afþreying og lítið meira. Í Snyder-myndinni er Superman fámáll og ósigrandi, stóískur pósari en í 2025-myndinni er hann sjarmerandi og hvatvís sveitalúði sem reynir að gera fullt af hlutum rétt en gerir haug af mistökum í leiðinni. Að því sögðu getur verið munur á því að koma með nýstárlega túlkun á Superman og raunverulega skilja Superman, eða allavega gera tilraun til þess að skoða upplífgandi og hvetjandi gildin, finna mýktina og hvar hjartað liggur. Zack Snyder virtist algjörlega vera með bráðaofnæmi fyrir þessum efnum á meðan Gunn fer alla leið með að virða þær áratugaraðir af rótum og túlkunum og gæta þess að hjartað sé á réttum stað, bæði gagnvart karakternum og frá sjálfum sér sem kvikmyndagerðarmanni.
Það ótrúlega er að Gunn tókst næstum því að geirnegla þetta markmið og búa til dúndurgóða Superman mynd, en það er eins og hann ráði ekki við sig að troða ákveðnum (köllum það…) ‘James Gunn-húmor’ og attitúd inn í þetta allt. Umræddur húmor getur vissulega verið gífurlega breiður og misgóður, en þetta snýst meira um hæðnina gagnvart efninu. Gunn reynir sjálfur að færa rök fyrir því með setningu í handritinu sem lýsir því (og nú umorða ég) að nýja pönkið sé að sjá hið fallega í fólki. Það er klárlega sterkur punktur, en Gunn ber slíku merkin að vera of mikill púki og pönkhúmoristi í sér til að bakka upp einlægnina í þemakjarnanum. Ekki selur hann þetta með kvikmyndagerðinni og enn síður mómentum sem klippa á streng einlægninnar með einhverju skoti eða djóki, Því eins og Guardians of the Galaxy-myndirnar gátu nú verið skítfyndnar í sínum væb, þá er Superman vandræðalega ófyndin megnið af tímanum. Undantekningar koma í formi frábæra villidýrsins Krypto og hins eitursvala Edi Gathegi sem fer með hlutverk Mr. Terrific. Þessir tveir eru tærir senuþjófar og ekki ósennilega eftirminnilegustu persónurnar í myndinni.

En myndin er allavega fjörug, ágætlega kaótísk, hugmyndarík, heillandi á tíðum og alveg morandi í ýmsum göllum, en kaldhæðnislega speglar það akkúrat svolítið hvernig titilpersónan sér sig í sögunni. Það er hluti af því að vera mannlegur að vera hlaðinn göllum og skiptir ásetningur höfuðmáli á meðan gjörðir tala svo margfalt hærra en orð. Helstu styrkleikar þessarar Superman-myndar koma sem betur fer frá þeim breiðari markmiðum sem hún lagði fyrir; A) Koma með líflega nálgun á Ofurmenninu í nútímaheimi án þess að bera með sér keim af örvæntingu. B) Kynna nýjan og efnilegan Superman til leiks sem hittir í mark sem persóna, C) Raða formlega upp púslum fyrir framtíðina hjá nýja DC Studios merkinu.
Restin er bara hávaði, steik, sturlun og uppfyllingarefni, en með skvettu af sjarma og mátulega yljandi boðskap.







Sammála/ósammála?