Eitt lykilatriði var það sem gerði Leslie Nielsen að svo brilliant burðarleikara fyrir The Naked Gun seríuna (sem hófst vissulega með hinum lítt séðu en óborganlegu Police Squad þáttum), en það var þessi undrandi geta hans til að taka hina mestu bévítans dellu grafalvarlega og með léttdramatískum tilþrifum.
Nielsen hafði auðvitað aldrei verið séður né sjóaður sem grínleikari áður en hann fór að vinna með Zucker-Abrahams þríeykinu. Nielsen reyndi ekki að selja grínið með of miklum rembingi. Það var grínið, díalogurinn, atvikin og allt gegnumgangandi sem matreiddi fyndnina og einlægi persónuleiki leikarans sem sá um rest, þó það sakaði vissulega ekki að vera með ágætis liðsauka af öðrum stórfyndnum leikurum (og serían eldist merkilega vel í því samhengi hversu gaman er að sjá O.J. Simpson verða ítrekað fyrir barðinu á skjánum…).

Þá höfum við ‘endurræsinguna’ og nýja blóðið. Liam Neeson er í samskonar pakka og áður einkenndi feril Nielsens. Leikarinn hefur verið helfyndinn áður í míkróskömmtum (og þar ber að nefna Life’s Too Short og cameo’ið hans í Ted 2) og hefur sjálfur verið að taka sig ákaflega alvarlega og liggur við með sinn eigin undirflokk af spennumyndum í kjölfar velgengninnar á Taken-seríunni (frá Non-Stop til The Commuter og óteljandi annarra B-titla). Þess vegna er hann helvíti ídeal í hlutverk Franks Drebin Jr., eða arftaki Nielsens réttar sagt.
Hér þarf ekki að skafa undan neinu; Neeson er býsna frábær í þessari mynd og betur valinn í rulluna en sýnishorn gætu gefið til kynna; hann nær vissulega ekki hæstu hæðum forvera síns en engu að síður er kappinn í svo bullandi góðum gír hérna og tvímælalaust alveg hárrétt stilltur inn í ruglið. Neeson heldur kannski partíinu gangandi að mestu en Pamela Anderson fær einnig gígantískt kredit fyrir að vera í jafn miklu stuði með taumlausri skuldbindingu til þvælunnar – auk þess að gefa glænýja hlið að sér – og gefur Priscillu Presley sama og ekkert eftir. Vert er líka að nefna að Paul Walter Hauser, CCH Pounder, Danny Huston og Kevin Durand eiga öll sín móment, að ógleymdum gestahlutverkunum, sem nokkur hver reynast vera ágætis áminning um að serían hefur ekki algjörlega gleymt rótum sínum.

Enn fremur er það leikstjórinn Akiva Schaffer og handritshöfundarnir Doug Mand og Dan Gregor (sem saman skrifuðu allir hina nett skemmtilegu Chip & Dale: Rescue Rangers) sem geirnegla rétta væbinn sem er bæði af gamla (spoof-mynda-)skólanum en með sinn eigin litla nútímalega ferskleika stráðan þarna inn. Schaffer hefur átt einkennilega fína ferilskrá hvað frískandi kómík varðar, verandi úr Lonely Island genginu og í senn við stjórnvölinn á stórfyndnum ræmum eins og Hot Rod og Popstar: Never Stop Never Stopping. Það heldur ekki fullhæpið að segja að The Naked Gun ‘25 (hér hefði verið fínt að koma með annan titil, en ojæja…) sé trúlega með metnaðarfyllra stöffinu hans til þessa og sennilega með því fyndnasta sem borið hefur nafnið Seth MacFarlane í kreditlistanum. Undirritaður kallar það einmitt ansi heppilegt að kauði sé einn af framleiðendum en ekki handritshöfundum að sinni.
Um leið og kemur fram í blábyrjun myndarinnar að svonefnda ‘plot device’ myndarinnar gangi einfaldlega undir heitinu ‘P.L.O.T. Device’ er nokkuð ljóst að myndin er í fínustu höndum. Það besta sem hægt er að segja um The Naked Gun ‘25 er að myndin er absólút í stíl við hinar þrjár; í keyrslu, flæði, ofkeyrslu þvælunnar og þeirri óforskömmuðu löngun að bauna út eins mörgum fjölbreyttum bröndurum og hægt er að pakka undir 90 mínútur. Það telst einnig til ákveðins stórsigurs að flestir fyrir framan og aftan tökuvélarnar hafa unnið heimavinnu sína vel og verið í hinum bestasta gír. Þess að auki er nokkuð magnað hversu vel tókst til með þessa mynd án þess að grípa í linnulausa nostalgíubeitu og minna síendurtekið á gamla brandara eða mótíf. Með glænýju teymi og fersku blóði er séð til þess að rúlla með samskonar fíling og áður hefur einkennt Naked Gun-seríuna, en þó með ágætu rými til að prófa eigin nýjungar.

Annað sem hefur gengið svo hressilega upp við hinar Naked Gun-myndirnar (og almennt séð þennan Zucker-Abrahams stíl…) er áðurnefnda fjölbreytnin og einna helst þessi aðdragandi sem getur spannað fleiri kynslóðirnar. Áhorfandinn getur verið 9 ára eða 99 ára og samt fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það á þá við um ærslaganginn, aulahúmorinn, orðagrínið, klisju-útúrsnúningana, einhverja handahófskennda steik eða einfaldlega meinfyndið kjaftæði sem spilast út í bakgrunninum. En heldur þessi mynd stöðugum dampi? Alls ekki og það er sömuleiðis athugavert hvað atburðarásin er á köflum furðulega lík fyrstu myndinni, en stemningin rýkur upp í nægilega mörgum sprettum, er á völdum köflum sjúklega fyndin og nær nógu háum hæðum til að flippið skili sínu. Og afþreyingargildið ofar öllu.
Það getur alltaf verið snúið að mæla með bíómynd sem er hreinræktuð vitleysa og hangir öll á því hvort þér finnist þetta fyndið eða ekki, og hversu fyndið. Það sem er þó léttilega meðmælisins virði er hversu mikið er lagt í alla umrædda vitleysu, þennan meðfylgjandi tón og djókdælu sem er svo tíð að hún er næstum því impressív hvort sem brandararnir lenda eða ekki. Það er heilagur haugur af litlum bröndurum sem oft fylla upp í rammana sem varla er hægt að taka inn í einu glápi og það er af hinu góða. Ef út í það er farið, sökum framboðsleysis í gegnum áraraðirnar, gæti The Naked Gun ‘25 vel verið besta mynd sinnar tegundar í háa perrans tíð (mögulega síðan They Came Together ef ekki Hot Shots: Part Deux) og hún á algjörlega lýsinguna skilið að vera rugl skemmtileg. Eða skemmtilegt rugl.
Þarf meira?






Sammála/ósammála?