Ef það er eitthvað sem alla tíð hefur einkennt þessar (meintu) grínmyndir frá Happy Madison-merkinu, er það þessi tilfinning um hvað sprellið á settinu hjá Adam Sandler og félögum virðist misvel skila sér í myndunum sjálfum. Flestir áhorfendur ættu þó að hafa kynnst nægilega miklu af stöffi frá Sandler til að vita að maðurinn er ekki alfarið hæfileikalaus og getur þvert á móti verið drulluskemmtilegur dramaleikari og þrælfyndinn aulagrínisti þegar hann nennir því (You Don’t Mess with the Zohan, halló!…). Það er vissulega mörgum viðtengjanlegt að festast oftar en ekki í ákveðnum þægindaramma. Undanfarna áratugi hefur þetta samt venjulega endað þannig með grínmyndir Sandlers að það er varla spurning um hvort um sé nokkuð gott efni að ræða, heldur hversu hratt ágætt getur súrnað og vont versnað. Sama gildir í rauninni um flestar síðbúnar framhaldsmyndir.

Það liggur sjálfsagt í augum uppi í nafninu á grínbrandinu, en í áraraðirnar hafa margir geta verið sammála um að nokkrar af fyrstu bíómyndum Sandlers, Billy Madison og Happy Gilmore, hafi verið á meðal hans bestu. Með fáeinum undantekningum hefur Sandler verið lítt hrifinn af því að hlaða í framhaldsmyndir, en mögulega var það alltaf tímaspursmál um hvenær skapofsinn í hokkí-elskandi golfaranum snéri aftur.

Fyrri myndin var (eins og svo margt annað frá HM) ólgandi barn síns tíma og ræma sem hefur enn í dag þokkalega spretti, aðallega þökk sé Carl Weathers, Frances Bay og ekki síst út af skúrknum hans Christophers McDonald (sem lék þó örlítið skemmtilegra illmenni í hinni vanmetnu Dirty Work á svipuðum tíma). Í heildina séð ekkert sérlega merkileg né eða dönnuð grínmynd, en semí-kvótanleg þó kannski ekkert fullkomlega enduráhorfanleg. Sandler og teymið voru að minnsta kosti í prýðisaðstöðu með framhaldinu til að betrumbæta slatta og koma með ferska vinkla. Á köflum virðist glitta í þess legar hæðir en skriðþungi er enginn; eldsneytið í rennslinu er fljótt að tæmast og afgangurinn skríður í kjölfarið í átt að óspennandi endastöð með fyrirsjáanlegum krókaleiðum.

Sandler hefur svo sem lengi vel verið húmorslega (og jafnvel gildislega séð) fastur í ákveðnum tímaskekkju-tíðaranda, rétt eins og margir af hans stærstu aðdáendum ef út í það er farið. Á þeim nótum má alveg segja það frískandi nálgun hjá Happy Gilmore 2 að reyna að grandskoða þessa hluti; að kafa betur út í árásargjarna dólginn hjá titilkarakternum og aðalleikaranum, spila meira með hvernig tíðarandar breytast og hafa þá úr einhverju viðráðanlegu að moða í gríninu. Þetta reynist samt bara rétt svo snerta yfirborðið, því öll myndin hnoðast að lokum upp í öskrandi táknmynd nostalgíurúnks þar sem fortíðin, eineltishúmorinn*, gömlu tuggurnar og trixin eru öll valideruð, uppsprengd með fögnuði og sjálfumgleðisgljáa.

Hér er að minnsta kosti fullt verið að notast við brögð og uppfyllingar til að fela það hversu litlar nýjungar eru í boði með framhaldinu, hvað húmorinn er þreytulegur og plebbalegur. Þetta eru samt dýrðarkostir miðað við það sem hefur sést frá aðalleikaranum á verri dögunum. *Það verður líka að segjast pínlegt hvað Sandler er alltaf upptekinn á það í myndunum sínum að hlæja og benda á útlitsgalla annarra, þegar gæinn er sjálfur að nálgast sextugt…

Það telst þó vissulega til framfara að Sandler fronti gamanmynd sem lítur ekki alfarið út eins og afsökun fyrir því að skella sér í rándýrt frí og skjóta bíómynd í leiðinni annað slagið, yfirleitt á sjálfstýringu af hálfbökuðum áhuga. Happy Gilmore 2 reynir að minnsta kosti að vera ‘bíómynd’; með auðgreinanlegri söguframvindu, persónubogum, fjölbreyttum sögusviðum og einhverju sem markmiði líkist með efnistökunum. Jafnvel þó að umrætt markmið snúist að mestu um að setja fyrri Happy Gilmore myndina á einhvern sjúskaðan stall, vitna margendurtekið í hana og fylla afganginn á myndinni með gestaleikurum og fíflagangi sem virkar hvorki hlægilegur á pappír eða í framkvæmd. Heppilega tekst þeim McDonald og rapparanum Bad Bunny að lífga upp á stemninguna af og til, þrátt fyrir að lengi megi líka klóra sér í hausnum yfir hvað t.d. Margaret Qualley, Ben Stiller, Bennie Safdie (sem t.a.m. leikstýrði Sandler í Uncut Gems) og Lavell Crawford eru illa nýtt. Þar mætti lengi telja upp nöfn í samskonar pakka.

Ef þú deilir hugsjón þessarar myndar og telur fyrri Happy Gilmore myndina vera eitthvað tímalaust meistarastykki, þá er sjálfsagt einhverja kátínu úr framhaldsmyndinni að fá, svona fyrst að kröfurnar eru hvort sem er undir gefnu frostmarki. ‘Sagan’ fer reyndar skítsæmilega af stað í fyrri hluta (fyrir utan þá furðulegu ákvörðun að sparka út Julie Bowen við fyrsta tækifæri…), þar sem við sjáum herra Gilmore skrapa botninn til að geta framfleytt sér og krökkunum sínum fimm. Það kemur sumt skondið úr þeim endurtekningum hvað karakterinn finnur oft frumlegar leiðir til að fela áfengisneyslu sína, en þegar mótin eru komin á skrið fer þá flæði myndarinnar í algjörlega öfuga átt og byrjar að missa allan damp. Hægt en órólega fara að safnast upp afritaðar formúlur, þversagnarkenndar predikanir og örvæntingafullar tengingar við fyrri myndina og öll myndin virðist reiða nær eingöngu á það að óvænt stjörnuprýdd gestahlutverk sé það fyndnasta sem hægt er að kvikmynda. Greinilega lærði enginn neitt af Zoolander 2 hvað akkúrat þetta varðar…

[Til allrar lukku tókst The Naked Gun ‘25 að gera mest allt rétt sem þessi gerir kolvitlaust. Það er vel hægt að útfæra algjöra aulakómedíu með klassa og kætandi hætti, en það gerist ekki án þess að hafa fyrir því…]

Þegar allt reiðir á svona flata kímni verður þá á móti enn erfiðara að taka sál og (meinta) hjarta myndarinnar alvarlega þegar á reynir. Og jeminn, hvað er reynt!

Sammála/ósammála?