Áströlsku tvíburarnir og YouTube-ararnir Michael og Danny Philippou voru ekki lengi að brennimerkja sig inn á radar hrollvekjuaðdáenda með hinni hnífbeittu Talk to Me sem kom út fyrir nokkrum árum. Ekki bara náðu þeir að gera helvítis slatta úr litlu framleiðslufjármagni, heldur laumaðist þarna út brillerandi handrit um neyslu, tráma og skaðlegu áhrif hvors tveggja. Gjörsamlega geggjuð mynd; fáránlega flott innkoma hjá bræðrunum tveimur og enn forvitnilegra verkefni til að fylgja eftir. En það akkúrat gera þeir þar sem samskonar sturlun er enn gegnumgangandi. Best er bara að mæta fyrir óþægindin en doka við vegna persónanna. Ef sálin höndlar það.
Grunnurinn er sáraeinfaldur en möguleikarnir lofa góðu; Stjúpsystkinin Piper og Andy upplifa skyndilegan föðurmissi og neyðast til þess að flytja til nýrrar fósturmóður. Frá fyrstu kynnum er greinilegt að þessi nýja aðlögun eigi ekki eftir að gera líf þeirra systkina bærilegra. Málin versna svo hratt þegar vafasöm mynstur og einkennilegir helgisiðir heimilisins fara segja til sín. Enn fremur fer eitt að leiða að öðru og þá eru nautsterku tengsl þeirra beggja farin að hanga á bláþræði, nýju fósturmömmunni til skítmikillar ánægju.

Bring Her Back er ekki óviðráðanlega hvöss mynd, en nægilega þrúgandi og óþægileg í andrúmslofti og atburðarásinni til að betra sé að ráðleggja viðkvæmari áhorfendum að halda ákveðinni fjarlægð. Philippou-bræðurnir leggja allt í sölurnar fyrir sögu sem er andlegur rússíbani um ljótar birtingarmyndir ofbeldis, missis, mismununar, afneitunar, gaslýsingar, áfallatriggera. Hryllingurinn laumast hægt og þessu fylgir hin blákalda lógík um hvernig getur vont lengi versnað, en sökum þess hvað handritið og leikhópurinn fer létt með að tengja áhorfandann við persónurnar, hremmingar þeirra og vaxandi viðbjóð við hvert horn, virðist það vera bræðrunum erfiðleikalaust í þessari erfiðaóreiðu að sigla sögunni litlu í höfn. Þetta er svo sem ekkert gert af neinni bitastæðri dýpt eða innsýn í þær pælingar sem drekkja hérna öllu, en styrkirnir hvíla helst á hinu manneskjulega og viðtengjanlega. Jafnframt mætti skrifa þetta líka á getu bræðranna til þess að kunna að sjokkera á réttum stöðum og kremja kannski nokkur hjörtu áhorfenda í leiðinni.
Til að sagan nái að rúlla hnökralaust koma stöku sinnum fyrir þróanir og vendingar sem teygja svolítið á trúverðugleika aðstæðna (og einhver mest hneykslandi senan hangir öll t.d. á einni stjarnfræðilega heimskri ákvörðun bróðursins…). Það er samt ekki hægt að undirstrika nógu mikið hversu mikið afl er að finna í samspili þessara (misreyndu) leikara þar sem hver keppist um mest andlega krefjandi rulluna. Sálin og traustið á milli systkinanna – sem fara úr einu áfallinu í eitthvað miklu ógeðfelldara – er meistaralega tæklað og þau Sora Wong og Billy Barratt eru alveg óaðfinnanleg og fullkomlega sympatísk út í gegn. Hvort þeirra í sínu lagi hefur sinn grjótharða leiksigur og saman koma þau tengingunni til skila án þess að slíkt þurfi að stafa út eða éta upp óþarfan skjátíma.

Eftirminnilegastur gæti að vísu verið hinn tólf ára Jonah Wren Phillips, eða að minnsta kosti í hlutverkinu sem er hvað erfiðast til áhorfs sökum aldurs, þó færa megi líka rök fyrir að Sally Hawkins hlaupi skuldlaust burt með alla myndina. Þessi frammistaða hennar sem fjöllaga fósturmamman í afneitun mun líklegast til lengri tíma teljast til hennar sterkustu hlutverka.
Philippou-bræðurnir kunna klárlega að koma á óvart, virðist vera, og hafa makalaust náð hérna að galdra fram bræðingi af raunsærri ringulreið og yfirnáttúrulegum harmleik. Þó svo að yfirnáttúrulegi þátturinn mætti vera betur lagður út og þrátt fyrir valin tilfelli þar sem handritsgerðin grípur í sérkennilegar klisjur og aðeins-of-hentuga ‘bíómyndalógík’ er Bring Her Back algjör djöfulsins negla; Myrkur, átakanlegur og svívirðilega djarfur tráma-horror sem vopnavæðir samkennd áhorfandans með púkalegu glotti (eða svo gott sem…) og sleppir varla takinu fyrr en í lokarammanum. Með öðrum orðum; minnisstæður löðrungur á mannsálina.






Sammála/ósammála?