*“Gagnrýnandi er fótalaus maður sem segir öðrum hvernig best skal hlaupa.“

…með öðrum orðum: gagnrýnendur geta stundum verið tótal skítseiði.

Nú ertu allavega dottin/n inná bíóbloggsíðuna mína og þar muntu ávallt vera velkomin/n svo lengi sem þú leikstýrðir ekki íslenskri bíómynd sem heitir Jóhannes eða Hrafnar, Sóleyjar og Myrra. Ég heiti Tómas Valgeirsson og byrjaði þetta litla dundur hjá mér fyrir talsvert löngu síðan. Ég er, eins og nafnið er löngu búið að gefa upp, bíófíkill mikill; gallharður unnandi kvikmyndaformsins sem listgrein, heilalausra hasarmynda, franskra extrím-hryllingsmynda, væminna ástarsagna, teiknimynda, söngleikja, lágstemmdra dramamynda, ýktra fantasía… og bókstaflega alls þess sem kemur á milli… Ókei, næstum því, en meira um það eftir smá.

Sjálfur fylgist ég mikið með kvikmyndagagreinum og sérstaklega svona „in-depth“ rýnum frá nördum og áhugasömum í staðinn fyrir þessi klassísku snobb sem kunna ekki að brosa, hafa engan spes áhuga og líta á svona fag sem hverja aðra vinnu. Ég er áhugamaður fyrst og fremst. Mér finnst sjálfum líka mikilvægt að fylgjast með stökum gagnrýnanda/ummælenda sem heldur góðri virkni. Það myndast þá einhvers konar ólýsanlegt, andlegt „bond“ hjá lesandanum og greinarhöfundinum, ekki síst ef smekkir þeirra eru svipaðir. Ég kann allavega betur að meta það að leita til einhvers sem maður telur sig þekkja lauslega (a.m.k. hvað smekk varðar) frekar en að hjóla í bíósíður sem hafa marga penna sem skrifa rýni.

Persónulega finnst mér það skipta miklu máli að kvikmyndagagnrýnendur séu samkvæmir sjálfum sér í kríteríu. Einnig finnst mér mikilvægt að þeir geti horft á helst allar týpur af myndum fordómalaust. Sem alæta reyni ég yfirleitt að meta hverja mynd eftir því markmiði sem hún setur sér. Heilalaus hasarmynd er t.d. metin eftir því hversu gott afþreyingargildið er og eru kröfur um frásögn og persónusköpun oftast þarna látnar vera. Dramatískar myndir miða oftast ofar og þess vegna er meira til að meta ef þær ganga upp með stæl. Gamanmynd þarf að vera skemmtileg og helst fyndin reglulega… þið fattið vonandi.

Það eina sem gerir mig alvörunni reiðan eru barnamyndir um dýr sem spila íþróttir. Ef ég sit nálægt svoleiðis viðbjóði eru líkur á því að ég fari í hættulegt blakkát og kannski taki eitthvað tuskudýr af lífi.

Nokkrir punktar:

– Kvikmyndir eiga að vera séðar hlélausar (nema hléið sé innbyggt (sjá Gone with the Wind) – sketsa-gamanmyndir geta verið undantekningar)

– Áður en horft er á bíómynd er sniðugt að vonast eftir því besta en búa sig undir það versta. Opið hugarfar umfram allt. Væntingastjórnun 103.

– Íslenskt efni á að meta eins og allt annað efni; þ.e.a.s. engar forgjafir í einkunnargjöf – eins og einkunnargjöfin skipti ekki þegar nógu litlu máli.

– Að telja Solaris og Fast & Furious vera samanburðarhæfar gerir manneskju pínu veruleikafirrta, eða tvær gerólíkar myndir almennt. Hver mynd deilir ekki endilega sama markmiði eða metnaði og sú næsta. Ein getur leikið sér að djúpstæðum þemu á meðan önnur er kannski einfaldlega 

– Myndir sem eru byggðar á bókum eiga ekki að vera háðar öðrum hvorum miðlinum. Ergó, þú átt ekki að þurfa að lesa bók til að skilja eyðurnar sem fóru framhjá þér og voru líklega betur útskýrðar á blaði en í myndinni. En að sama skapi má ekki hamra niður bíómyndirnar bara fyrir að gera hlutina öðruvísi. Hugsið um hvað orðið ‘aðlögun’ felur í sér.

– Sumar – bara sumar – myndir þarf að sjá allavega 2x til að sé hægt að meta allt til fulls sem hún býður upp á og segir manni (sjá Synecdoche New York, Vertigo o.fl.).

– Galdurinn er alltaf í úrvinnslunni. Helst á ekki að afskrifa neina hugmynd sem skilyrðislaust vonda (sjá The Lego Movie) nema greinilega enginn metnaður sé á bakvið hana.

Eitt annað:

Ég hef víst eitthvað verið kvótaður á DVD hulstrum en í fáránlega mörgum tilfellum eru settar vitlausar einkunnargjafir og oft sett eitthvað bull sem ég ritaði aldrei, stundum á myndir sem ég ekki einu sinni sá! Ekki taka alltaf mark á kvótunum.

Að öðru leyti gleður það mig að kynnast þér!

 

*Ritað 11. júní 2011

12 svör við “HVER ER BÍÓFÍKILL?”

  1. Arnmundur Sighvatsson Avatar

Sammála/ósammála?