Strax með fyrstu römmunum má finna fyrir því að búi sterk og lokkandi hlýja yfir Ljósvíkingum, og þá með landslagsskotunum einum. Nokkuð öðruvísi en engu að síður kærkomnari tónn heldur en tuggan segir um hvað íslensk kvikmyndagerð (og þá sérstaklega þessar sem fjalla um tilvistarkreppu í smábæ) hefur yfirleitt verið í svipmyndum. Við erum svo vön kuldanum, eymdinni, sorginni, sundruninni en þá sjaldnar – en þó óneitanlega í auknum mæli undanfarið – svona bjarta og pósitífa strauma þar sem dílað er við hádramatíska og alvarlega hluti svo sem tímamót, tólerans, leitina að sjálfinu, tilgangi eða betri tengingu, við eigið sjálf eða nánustu aðila.
Ljósvíkingar tekur margs konar klisjur og spilar listilega með þær, en að auki er hún afar viðkunnanleg og hressileg vináttusaga, borin fram af einhverjum vestfirskum sjarma og stappfull af líflegum persónum. Ef þú réttir út armana munu Ljósvíkingar þá faðma þig fast til baka. Þessi upplífgandi, krúttaða perla um tengsl og vinskap hefur hinn merkilega mátt til að bræða áhorfandann með húmor sínum og einlægninni í persónunum, meiriháttar samleik Örnu Magneu Danks og Björns Jörundar (ofl.) og hnyttnu, huggulegu handriti.

Myndin er sú fjórða í fullri lengd úr smiðju Snævars Sölva Sölvasonar og fjallar um æskuvinina Hjalta og Birnu sem reka fiskveitingastaðinn Rauða húsið í heimabæ sínum yfir sumartímann. Þegar vinunum býðst sá möguleiki að hafa veitingastaðinn opinn árið um kring tilkynnir Birna formlega að hún sé trans kona, við vægast sagt dræmar undirtektir Hjalta. Þessar breytingar reyna töluvert á vináttuna og þurfa þau bæði að horfast í augu við lífið á nýjan hátt til þess að bjarga því sem mestu máli skiptir. Við tekur léttur tilvistarkreppufarsi matreiddur með kósíkokteil og heljarinnar haug af girnilegum veitingum.
Ljósvíkingar er stærsta kvikmyndaverkefni Snævars til þessa en afar minimalísk í umfangi eða stíl. Áður hefur hann sent frá sér Albatross og Eden, ásamt hinni lítt séðu ‘Slay Masters’ (sem best mætti lýsa sem prótó-Albatross…) en á fáeinum árunum sýnt meiri færni fyrir fjölhæfni en ber fyrst að geta. Myndrænt séð öskrar þessi mynd ekki alveg beinlínis ‘BÍÓ!’ eins og (segjum) Eden, en innihaldslega er þetta á allan veg það sterkasta og bitastæðasta sem Snævar hefur hingað til kokkað upp.

Melódrama, predikun og pappapersónur hefðu léttilega getað einkennt þessa heild en einlægnin skín af senum og í senn almennri meðhöndlun. Lykilinn að Ljósvíkingum er víst að finna þarna í smáatriðum og sannleikskornum samtímans sem leynast í öllum kósí-farsanum. Handritið skrifast bæði á þau Snævar og Veigu Grétarsdóttur og atburðarásin leggur töluvert spennupúður í magnandi fjarlægðina hjá Birnu og Hjalta eftir því sem stóra tækifæriskvöldið nálgast, þar sem allt er lagt undir til að heilla mögulega fjárfesta frá Danmörku. En hryggur sögunnar liggur í öðrum málum sem betur skýrast í lokaspretti framvindunnar. Stóra tækifæriskvöldið með Dönunum er í raun blekkingar-klæmax því í kjölfarið tekur við langur eftirmáli þar sem þróun Hjalta er sett í hágír, eins örkin hennar Birnu sé löngu búin áður en korter er eftir af myndinni – sem er sérlega leitt þar sem hún er án efa athyglisverðari einstaklingurinn af dúóinu.
Á blaði mætti deila um hvort þróun persóna skili sér með fullnægjandi hætti en það er eitthvað krydd hjá Örnu, Birni og faktískt allflestum sem innsiglar hjartað í bæjarstemningunni. Með Birnu fær Arna að sýna fullkomlega hvað í henni býr með persónu sem vinnur áhorfandann fljótt á sitt band. Birna er karakter sem lýsir upp skjáinn í senu hverri og hennar karakter dregur kostulega fram eldri skólann í viðhorfi hins sjálfhverfa, þröngsýna en meinlausa og merkilega hjartastóra Hjalta, sem á það til að vera blindur á allt sem er í kringum sig. Á hinn veginn er hann viljugur til þess að hlusta, læra og að sama skapi smita út frá sér sínum eigin fróðleikskornum og umhyggju fyrir bæjarrótum, til að mynda með botnlausri visku sinni í tengslum við Maríu Júlíu, hina sögulega björgunarskútu Vestfirðinga.
Þau Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Ólafía Hrönn, Vigdís Hafliða, Helgi Björnsson, Pálmi Gestsson og eilífðarfóstbróðirinn Gunnar Jónsson gera sömuleiðis öll slatta við sinn skjátíma, smátt eða meira, en hver með sína lykilrullu ásamt fleirum fínum sem skjóta kollinum upp hér, þar og reglulega.

Því verður sennilega ekki neitað að frásögnin og narratífan sé í mjög rósarrauðum stíl og er það á tíðum flöff-fantasíu líkast hvernig persónur breytast eða vandamálin leysast huggulega og þægilega. Það er þó framvindunni eðlislægt og ekki síður heildartóni ræmunnar sem ‘feel-good’ mynd að grípa sér nokkrar snöggleiðir í dramanu til að kátínan haldist betur á floti. Suma rétti er einfaldlega erfitt að bæði bera fram og moka í sig en það reynist á endanum vera skærasta ljós myndarinnar hvernig hún velur sér huggulega fílinginn, með nóg rými til að sprella og með svona opinn arminn.
Saga þarf ekki alltaf að vera beinlínis raunsæ eða raunveruleg, per se, til þess að teljast trúverðug með fullnægjandi hætti, en í Ljósvíkingum eru persónurnar og tilfinningar umfram allt trúverðugar, og enn fremur viðkunnanlegar, ef ekki kunnuglegar eða viðtengjanlegar á einhvern máta. Þemun eru beisikk og breið en söguramminn svo dásamlega íslenskur inn við beinið og þær rætur miskunnarlaust flexaðar, en skiljanlega svo. Þegar upp er staðið geislar þessi bíómynd af svo mikilli upplífgandi jákvæðni og tilvistargleði; enda saga sem snýst miklu meira um það að hafa hjarta heldur en að taumlaust kvarta.







Sammála/ósammála?