Eden er það næsta sem hefur komist því að vera finna arftaka Blossa.

Þetta er (vissulega) meint sem blússandi hrós, þrátt fyrir það að síðarnefnd næntís-dópmynd hafi ekki beinlínis verið snilldarstroka í kvikmyndagerð; þvert á móti hlægileg, þvæld, kjánaleg en á móti stútfull af orku, viðeigandi attitúdi, góðri tónlist og léttum væb sem íslenskar kvikmyndir leyfa sér sjaldan að prófa – þrátt fyrir það ógrynni af dóp-og/undirheimamyndum sem við höfum af okkur getið.

Íslensku krimmamyndirnar hafa auðvitað tekið sig misalvarlega og tæklað mál um fíkniefni eða neytendur slíkra í bobba á ólíkan máta. Hins vegar hefur verið gríðarlegt gegnumgangandi þrot hvað beitingu myndmáls eða sköpun andrúmslofts. Kvikmyndagerðarmaðurinn Snævar Sölvi Sölvason (hinn sami og gerði hina hræódýru Albatross og enn minna séðu Slay Masters) er upprennandi á indisvíðinu, en strax með einni uppgötvun á grunnstiginu er Eden komin fram úr flestum sambærilega subbulegum myndum; og sú uppgötvun snýr að litameðvitund – og jafnvel þó Eden væri rusl á öllum öðrum frontum – þá verður það aldrei tekið frá henni að hún er, sjónrænt séð, ótrúlega lifandi – ælandi og blæðandi litaskiptingum og pallettum eins og enginn sé morgundagur.

Seinast þegar mynd um neyslu náði svona vel að púlla “undir áhrifum” viðbótina með stílnum var trúlega XL frá Marteini Þórssyni, bara hér er það stílhreinna og kannski með meira pönki.

Myndin lítur vel út en græðir líka ýmislegt á einfaldri narratífu – og þarna má fara frjálslega með orðið narratífa – og fókus sem liggur allan tímann á skjáparinu, þeirra sambandi, hamagangi og hvernig gangverk þeirra magnast upp í aðstæðum. Ég get heldur ekki annað en gefið ákveðið hrós til kvikmyndar sem finnur leiðir til þess að gera Fuglastríðið í Lumbraskógi að ómissandi þemaþræði myndarinnar.

En hér segir frá parinu Ólafíu og Óliver sem lenda í kröppum dansi við ranga aðila á réttri stundu. Þá eru þau Hansel Eagle (rólegur…) og Telma Huld Jóhannesdóttir alveg frontuð og sækir leikstjórinn meira í “elskendur á flótta” undirgeirann frekar en eitthvað sveitta skilaboðasögu. Það er aðeins um víxlaða kynjadýnamík í framvindunni og samkvæmt eldri hefðum væri karlmaðurinn orkuboltinn, drífandinn og naglinn á meðan konan bara barbídúkkan í farþegasætinu (sorrí, Blossi) – þessu er snúið við og verður oft til skemmtilegur straumur á milli parsins.

Hansel stendur sig þokkalega sem nýaldarhippinn sem vill bara halda friðnum, en Telma annars vegar flytur myndina á allt annað level; hörð, framsækin, springandi af persónuleika og orku – og leikkonan selur rullu sem hefði alveg getað hrunið á andlitið með rangri tæklun. Ekki er það síst í ljósi þess að Snævar bindur sig ekki við neinn læstan tón og flakkar hann frjálslega úr flippi í alvarleika og jafnvel draumkenndan absúrdleika (komum að því) með áreynslulausum sveiflum, þó ýmsir aukaleikarar mættu alveg vera sterkari, en sleppa.

En aftur að parinu, þá skortir honum… Hansel þetta náttúrulega ó-pósandi karisma sem geislar svo áreynslulaust hér af henni Telmu, enda gædd meiri karakter og smáatriðum, þannig séð. En saman mynda þau gott and-dúó og krútta þau nægilega oft yfir sig til að manni sé ekki of drull um hvernig fyrir þeim fer. Snævar fordæmir heldur aldrei persónur sínar eða lítur bersýnilega niður til þeirra í handritinu fyrir að krauma sér jónur eða taka inn hvað annað í kammó samræðum. Það fylgir þessu líka ákveðinn ferskleiki þegar hugað er svona sterkt að því að leyfa myndinni að njóta hversdagsmómentana á milli alls trippsins sem á milli kemur.

Samtölin eru stundum eins og beint upp úr myndastrípu og það steikir raunverulega á manni hausinn hvað Arnar Jónsson er fyndinn sem óstereótýpískur krimmaforingi. Þá komum við að hinu enn furðulegra, eða eins og einhverjir munu eflaust segja: “virkilega fokkt-opp kaflanum”. Án þess að segja of mikið má tengja hið yfirnáttúrulega við söguna og allegóríum sem stafa það út að titilinn sé meira en bara skraut og tilviljun.

Hvort metafórurnar og aukni absúrdisminn gangi almennilega upp er erfitt að segja, en hann gefur myndinni visst krydd sem bætist bara við þá dramakómedíuklípusúpu sem hún er fyrir – þannig að það er ekki beinlínis úr takt þó áhrifin skili merkilega litlu. Almennt séð á tilfinningaleveli hefur þessi mynd ekki afar margt af gefa frá sér, þó hún reyni það vissulega. En eins og áður nefndi eru það einhverjir óséðir töfrar sem sumir leikararnir gæða því sem hefur á pappírnum verið.

Að öllum samanburði við Blossa slepptum, er Eden einfaldlega bara rokkandi fín lítil klakamynd; unnin á hnefanum, en brött, hressilega ýkt, sóðalega skemmtileg á köflum og rúllar á sterkum performans frá svakalega efnilegri leikkonu. Hún er mynd sem á örugglega eftir að lifa góðu költ-lífi á klakanum á ókomnum árum (sérstaklega í ljósi þess einnig að hún er JÓLAmynd!) og ljóst er einnig að Snævar Sölvi er ekki fastur innan ramma einhvers eins geira þar sem tök hans á fjölbreytni hafa tekið sýnilegan (lita)kipp. Í heildina yfir, fínasta tripp.

Ábyggilega sexí sexa á góðum degi en þrumandi sjöa undir áhrifum.

Besta senan:
Arnar og Litla hafmeyjan.

Sammála/ósammála?