“This is only the beginning” voru bókstaflega lokaorðin sem voru mælt í Dune: Part One. Þarna eru ansi sterk, merk og stór orð látin falla eftir tveggja og hálfs klukkutíma uppstillingarmynd eða í raun eftir teygða aðlögun á fyrsta þriðjungi fyrstu Dune-bókarinnar. Þá er undir Dune: Part Two komið að reyna að kremja hinum tveimur fyrir eitt heilsteypt og hellað verk, ásamt reyndar þeim viðbótum og afgangi sem rataði ekki í fyrri hlutann. Stórmetnaði fylgir nú alltaf einhver sturlun.

Nú er baráttan um kryddið og sandinn komin í fullan gír og hitinn á kærkomnum suðupunkti. Paul Atreides er víða talinn feigur en nú stendur hann á krossgötum með móður sinni, Jessicu, á slóðum Fremenna. Nóg er komið í bili af upphitunum, nafnakynningum, útskýringum og loforðum. Loks eru einhver almennileg hjól farin að snúast í stærri atburðarásinni og þannig er tónninn gefinn frá fyrstu senu. Þá má strax vaða í að spenna beltin og búa sig undir gæsahúðahrinu með síendurteknum aulaglottum.

Í fyrri hlutanum var miklu tjaldað til úr ósköp litlu innihaldi en í þeim seinni snýst þetta við og mætti fullkomlega færa rök fyrir að hér sé of lítið unnið með stútfullt efni. Það þarf ekki þó að hugsa sig tvisvar um nokkra þætti; þessi bíómynd er fjörugri, pakkaðri, fyndnari og skemmtilegri. Hún er óumdeilanlega í fullmiklu flýti með sitt risa skákborð í narratífunni. Þó 166 mínútur virki kannski passlegt fyrir þráðbeina sci-fi hasarfantasíu í augum margra, þá hefði Dune: Part Two vel þraukað það og eflaust grætt slatta á öðrum hálftíma til viðbótar. Í fullkomnum heimi hefði fyrsta bók Herberts mögulega betur fúnkerað í aðlögun þriggja kvikmynda í stað tvennra, án þess að hljóma eins og algjör Hobbiti.

Dune: Part Two fær lítið að dvelja eða taka sinn tíma þegar kemur að þungum, erfiðum tilfinningum og stórum vendingum. Þegar fyrri hlutinn hafði sveigjanleikann til að rölta, neyðist þessi til að spretta, síendurtekið. Það gefst of lítið svigrúm til að anda og betur tengja sig við þetta hnit karaktera þegar brettið kallar alltaf á nýja hasarsenu eða breytingu á umhverfi. Kallið mig hallærislegan en mig langar heldur ekkert ferlega mikið til þess að slökkva á heilanum yfir Dune kvikmynd til að ég geti betur meðtekið hana sem einfalda flugeldaveislu og poppkornsbíó. Það sem glatast þarna undir tímapressunni eru ríkari tengsl persóna og dýpri vangaveltur fyrir skilaboðum og trúarkrufningu upprunalega ritverksins. Smá vatnsþynning en alls engin vanhelgun eða þess eðlis.

Síðasti þriðjungurinn er í smá kássu og orrustan mikla geysileg vonbrigði. Það kom upp þessi tilfinning eins og klæmaxinn hafi skyndilega verið óvart hakkaður niður í einhvern stiklumauk. Hlutir gerast oft svo helvíti hratt, þá í sífelldu þegar hasarinn eykst og reglulega koma stórfengleg skot og með skýru umfangi, en tilfinningatankurinn er þarna hálf tómur í gegnum öll lætin. Það er fínn púls í hasarnum en það eru litlu sálfræðilegu hlutirnir í þessum valdaslag helstu persóna sem tryggja öllu meiri vigt.

Meira er núna lagt á aðalmanninn, Timothée Chalamet, líkt og þær heilmörgu hindranir sem bíða Paul í leitinni hans að nýja sjálfinu; hvort hann standist ‘hæpið’ í kringum hann eða sé allavega meðvitaður um þessa hreinu geðveiki sem þetta ferðalag hans verður. Efst á dagskránni er að kynnast betur siðum Fremen-hópsins á Arrakis, hópi sem hann vonast til geta leitt í orrustu gegn Harkónum og keisaraveldinu til að hefna föður sinn. Á meðan er stöðugur hvísluleikur á meðal Fremena um hvort laumist einhver dulinn Messías í Paul, eða hvort slíkur spádómur sé ekkert annað en bullandi áróður öfgafólks til þess eins að vekja upp falska tilhlökkun.

Fyrr en varir er Paul farinn að bera ýmis ólík nöfn þegar sögur af óttaleysi hans í hópi Fremena fara að berast víða. Paul er kjörkuð, rómantísk og ídealísk sál en að innanverðu safnast saman harmleikurinn þegar hann þarf að horfast í augu við þau örlög sem hann sleppur ekki undan. Þar er innifalinn einn heilagur sannleikur um hans eigin rætur og jafnvel fáein leyndarmál sem gætu haft varanleg áhrif á stefnu hans og framtíð. Þá er aðeins spurning um hvaða nöfn eða titla hann ætli sér að standa undir; hvort hann berjist fyrir hefndina í nafni Atreides-ættarinnar, eða fyrir frelsi Fremena sem utanaðkomandi stríðsmaðurinn ‘Muad’Dib’, eða fyrir einhverju stærra og með táknrænni tilgang.

Þá myndast reyndar einn gapandi galli; Chalamet fær ekkert rosalega mikinn tíma eða neitt rými til að koma stærri þróunum hans eða innri tragedíu til skila með miklum smáatriðum. Örkin hjá Paul er alltof hálfbökuð í öllu kraðakinu og þarf þá að hlaupa ansi hratt yfir hlutina, en það þýðir að stigbreyting frammistöðu hans fari að mestu bara úr mjúkum og skýrum hvíslum yfir í endalaus öskur.

Paul Atreides er nefnilega meiriháttar flókin og áhugaverð persóna á blaði en minna svo í prófílnum hér. Með fullri virðingu fyrir Chalamet er stundum erfitt að fylgja honum andlega. Frammistaða hans lendir hvað verst í skrifunum og skorti þar á smáatriðum. Með handritinu er líka reynt að koma með skýringar og klúðursleg samtöl til að bjarga sér úr þessari grimmu tímaþjöppun atburðarásar, þá aðallega fyrsta klukkutímann eða svo. Fremenar skiptast í beinar fylkingar með trúgirni sína á Paul eða ekki. Það lagar samt ekki þann sýnilega vanda að miðað við rennsli er pínu spaugilegt hvað Paul er síðan fljótt tekinn inn á meðal Fremenna.

Þau Zendaya og Javier Bardem eru loks komin almennilega úr felum og reynast tvímælalaust vera senuþjófarnir í myndinni. Zendaya gæðir hinni þursasterku Chani hlýrri en tignarlegri áru sem undirstrikar á marga vegu helsta tilfinningakjarnann þegar líður að hinsta spretti sögunnar. Allt sem við skynjum ekki sjálf við Paul kemst oftast til skila með undraverðum hætti í gegnum Chani og sterku svipbrigði hennar.

Bardem er annars hvorki minna né meira en fullkominn sem Stilgar, stóíska klappstýra Pauls, og lífgar hvað manna mest upp á stemninguna með tíðum og laumulegum húmor. Þeir Josh Brolin koma út sterkir saman og Rebecca Ferguson fær líka heldur betur núna að umturna sér enn fremur með hlutverki og stöðu Jessicu, afburðakláru og mátulega óhugnanlegu móður Pauls.

Það er reyndar mikið tilefni til hróss hvað hefur á margan hátt tekist að bæta upp ákveðin þunnildi kvenpersóna úr bókinni, sem hér fá meira aukið vægi í sögunni og skarpari prófíla og þar eru Chani og Jessica besta dæmið en alls ekki undantekningin. Athyglisverðustu punktarnir til umræðu um örk Pauls, Chanis og jafnvel Jessicu snúa að því hvort rétti hvatinn leiði til þess að skara fram úr og strategísku kostina við að fabúlera heilagan spádóm og ímynd um frelsara frá grunni. Gat nú samt verið að færasti og hættulegasti brúðumeistarinn í sögu tilvonandi meints trúarleiðtoga sé fjandans mamma drengsins.

Massamennið Dave Bautista heldur í þann ávana að gelta og garga af tærri sannfæringu og Léa Seydoux gerir furðu fínt úr óvæntu gestahlutverki. Skal svo sem ekki útiloka það heldur að leikkonan gæti hafa bara villt fyrir á setti og ratað hingað, en forvitnilega ágætt stopp hjá henni engu að síður. Seydoux birtist einmitt í trúlega svalasta kafla myndarinnar, en þar fáum við skylmingarvöll, flugelda sem eru eins og blekskvettur (skuggalega töff!) og svarthvítan fasistabrag í sönnum Riefenstahl-stíl á plánetu Harkóna, með dassi af blætisskrauti í anda H.R. Giger.

Enginn fær samt sterkari innkomu að sinni en Austin Butler. Hann kemur þarna flottur inn í kringum miðbikið sem hnífasleikirinn og nábaróninn Feyd-Rautha Harkonnen. Við fyrstu er Feyd-Rautha efni í siðblindu hliðstæðu Pauls en þessi einsleiti skrípalingur þynnist hratt niður í agnir, þó leikarinn eigi gott lof skilið fyrir að halda sig við þessa glæsilegu eftirhermu á Stellan Skarsgärd. Annars er mjög hressandi að fá Florence Pugh og Christopher Walken í þennan hæfileikahóp. Þó þau gegni samt mikilvægri stöðu í heildarsögunni virðist eitthvað ógurlega lítið vera við þau að gera. Persónur þeirra eru heldur ekki einu sinni nefndar á nafn. Anya Taylor-Joy er annars þarna líka til að hringja inn þriðju myndina með stuttri draumasenu og mikilvægi hennar í komandi framhaldi leynir sér ekki.

Það verður ekki tekið frá Denis Villeneuve hvað hann hefur áorkað með marga bolta á lofti. Eðlilega gerir hann ekki öllum hugmyndum eða speki bókarinnar bestu skil, en útlitslega og tilfinningalega kemur sagan prýðisvel út á hvíta tjaldinu. Það má lengi tönglast á einfaldleika eða ofhleðslu í flæðinu, en þá er það fátt sem betur tryggir það að verða kjaftstopp þegar kemur að því að dást að sköpun leikstjórans og hans teymis á þessum fantasíuheimi.

Villeneuve gætir þess alltaf að ofkeyra aldrei hið furðulega í sögunni og útfærir allt slíkt í staðinn eins og fátt sé hversdagslegra og eðlilegra. David Lynch fór aftur á móti í þveröfuga átt þarna og nýtti hvert einasta tækifæri til að undirstrika og kasta skærara ljósi á hið skrítna eða fjarstæðukennda.

Villeneuve beitir líka mjög mínimalískri, kaldri nálgun þegar kemur að upptökustílnum og leyfir stærð og dýnamík sögusviðs að sjá um rest. Þetta er eins mikil andstæða við að horfa á Marvel-mynd þar sem áberandi er að allt var skotið innandyra fyrir framan blá eða græn tjöld. Hérna er ástríða lögð í allan galdur og mikil meðvitund fyrir því að leyfa brellunum að hertaka aldrei rammana, heldur hverfa inn í þá.

Margir leikstjórar myndu eflaust freistast til að detta í dæmigerðara brellurúnk en Villeneuve heldur sögusviðinu alltaf trúverðugu, næstum því áþreifanlegu, með tærnar á jörðinni í myndmáli án þess að tapa sér í bersýnilega tölvuunnum kameruhreyfingum, svona klassísku flexi eða mont-skotum. Reyndar er Villeneuve leikstjóri sem hefur endurtekið sannað sig á sci-fi sviðinu þar sem hann vefur saman praktískum göldrum kvikmyndagerðar af gamla skólanum í bland við nýjustu og bestu pixlapakkana. Hálft gamanið við þennan heim Herberts er að tapa sér pínu í honum, en líkt og í fyrri lotunni eru allra bestu senurnar þessar sem eru ekki kynninga- eða samtalsdrifnar, heldur þær sem leyfa hljóði, hönnun og músík að smella saman í einhverja dáleiðandi sturlun. Eitthvað sem ætti að skora á aflgetuna í ófáum bíósölum.

Þá er bara næsta og lokaskrefið hjá Villeneuve að ráðast í næstu bók, Dune: Messiah, og klára þannig sinn ‘þríleik.’ Leikstjóranum er allavega meira en treystandi fyrir annarri umferð í viðbót. 

Sammála/ósammála?